Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:35:29 (7996)

2004-05-12 11:35:29# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:35]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hitti naglann á höfuðið áðan þegar hann sagði að hér ríkti einhvers konar uppreisnarhugur, uppreisnarandi. Það fékk mig til að staldra aðeins við, horfa um öxl og rifja upp með sjálfum mér hvernig mál hafa þróast á undanförnum dögum, þ.e. frá því að þetta frv. um fjölmiðlana hóf umferðir sínar hér í þinginu, allt frá því að þessi skýrsla var lögð fram, skýrsla sem mér skilst að ríkisstjórnarliðar hafi legið á vikum saman meðan þeir voru að lesa hana og sjóða saman frv. Þingið fékk síðan --- henni var reyndar lekið í stjórnarandstæðinga, sennilega af einhverjum stjórnarliðum, birtist á heimasíðu hv. þm. Helga Hjörvars og síðan sjálft frv. þar líka daginn eftir, alvarlegur leki úr herbúðum ríkisstjórnarinnar. Þá fyrst fengu stjórnarandstæðingar að sjá hvað var í farvatninu.

Síðan liðu örfáir dagar og þá var tekin umræða um þessa merkilegu og miklu skýrslu. Sú umræða var öll með einhverjum eindæmum og rifin í gegnum þingið á lágmarkstíma. Síðan kom frv. og þar var hið sama upp á teningnum. Málið var sent inn í nefnd og þar var allt einnig með endemum, menn höfðu varla tíma til að skila af sér umsögnum. Æ ofan í æ hefur síðan fundarstjórn forseta í þessu máli verið verulega ábótavant og mér finnst hann einhvern veginn vera í því farinu að reyna að troða illsakir við stjórnarandstöðuna og öll tækifæri notuð til þess.

Ég verð að segja að það furðar mig mjög, hæstv. forseti, að jafnreyndur og klókur maður skuli halda á spilunum með þessum hætti þegar við vitum að hér er um mjög vandasamt og umdeilt mál að ræða og lítið má út af bera til þess að málin fari einmitt í þann farveg sem þau eru í núna. Brostinn er á einhvers konar skotgrafahernaður á milli stjórnarliða og stjórnarandstöðu, víglínan er gersamlega kyrr, tíminn líður og málin þokast ekkert áfram. Mér finnst þetta alveg óskiljanlegt.

Af hverju var ekki hægt að lempa málin til í gær, hæstv. forseti, gefa það t.d. út á miðnætti í gærkvöldi að þingfundi lyki kl. 3 eða 4 svo að menn vissu það og verða síðan við óskum stjórnarandstöðunnar um það að þingfundur í dag hæfist ekki fyrr en klukkan hálfþrjú. Það er alveg morgunljóst, hæstv. forseti, að umræðan væri komin miklu lengra á veg ef orðið hefði verið við þessum einföldu og frómu óskum stjórnarandstöðunnar.

Ég verð að fá að segja það, hæstv. forseti, að það er í mínum huga mikil ráðgáta hvernig þér hafið haldið á málum í þessari fundarstjórn, vitandi að þetta hlyti að fara svona, jafnreyndur maður í stjórn þingsins.