Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 20:46:12 (8018)

2004-05-12 20:46:12# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[20:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. Sigurður K. Kristjánsson er því mjög andsnúinn og það fer um hann þegar við þingmenn Samf. ræðum málefni útvarpsréttarnefndar. Ég skil það vel. Sú nefnd hefur verið á pólitísku forræði og nánast í pólitískri skúffu í Valhöll, flokksmusteri Sjálfstfl., og nú hefur það gerst í þessari umræðu að einn af þeim sem eru í minni hluta í útvarpsréttarnefnd hefur lýst starfinu. Þar hefur til að mynda komið fram að óreiðuskuldir útvarpsréttarnefndar hrannast upp á ríkisreikningi. Það hljóta að vera gleðitíðindi fyrir hreingerningarmanninn pólitíska, hv. þm. Sigurð K. Kristjánsson. Það kemur líka fram að nefndin hefur starfað með þeim hætti, herra forseti, að síðasta skýrsla nefndarinnar sem hægt er að sjá á vefnum er frá 1997, þ.e. skrifuð undir lok síðustu aldar. Framkvæmdastjóri Sjálfstfl. stendur fyrir þessu.

Herra forseti. Ég tel að það sem vaki fyrir Sjálfstfl. með þessari breytingu á nefndinni sem sér um veitingu útvarpsleyfa sé að sjálfsögðu að hafa áfram pólitískt forræði á þessu máli. Alveg eins og við sjáum að Sjálfstfl. leitast við að hafa pólitískt forræði á Ríkisútvarpinu vill hann líka hafa pólitískt forræði á þessari nefnd. Þess vegna setur hann þetta upp með þeim hætti að hann getur skipað formann nefndarinnar. Það skiptir öllu máli. Það er bara til marks um það hvílíka járnkrumlu flokkurinn vill hafa á allri fjölmiðlun í landinu. Þetta er dæmi af því. Þeir ráðast á einkareknu miðlana og síðan hrammsa þeir til sín Ríkisútvarpið og veitingu leyfanna. (Gripið fram í: Gott að þú gefur þér ...)