Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 21:16:53 (8032)

2004-05-12 21:16:53# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[21:16]

Birgir Ármannsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér hefur verið talað um það undir liðnum fundarstjórn forseta að ástæða væri til þess að slá þessari umræðu á frest vegna nýrra upplýsinga sem komið hefðu fram á fundi efh.- og viðskn. í kvöld. Ég er ósammála því. Ég sat þennan fund að stórum hluta og er ósammála mati þeirra hv. þm. sem hér töluðu á þeirri forsendu að ég tel að þessar upplýsingar hafi komið fram áður við þessa umræðu, m.a. í meðferð allshn. og enn fremur í því skjali sem hér liggur fyrir sem nefndarálit minni hluta allshn. Í fylgiskjölum þar, í upplýsingum frá Norðurljósum, er komið inn á þá þætti sem vikið er að og var látið í veðri vaka hér að væru nýjar upplýsingar sem þyrfti brýnt að koma á framfæri við þingið. Staðreyndin er bara sú að þessar upplýsingar eru í gögnum málsins. Ef menn hefðu gefið sér tíma til þess að fara yfir þau í staðinn fyrir að ræða stöðugt fundarstjórn forseta hefðu menn vitað þetta og ekki verið jafnhissa og hneykslaðir hér í þessari umræðu. (ÖJ: Ekki þau efnisatriði sem ...)