Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 21:18:25 (8033)

2004-05-12 21:18:25# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[21:18]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þessar síðustu upplýsingar sem hér var verið að ræða um eru staðfesting á því sem ég reyndar hélt fram við 1. umr. málsins, þ.e. að ef þessi mál gengju fram með þeim hætti sem til er stofnað mundu fjármálastofnanir ekki treysta sér til að fjármagna fyrirtæki í fjölmiðlun á eðlilegan hátt, þau gætu ekki treyst því að þau gætu gripið inn í starfsemi slíkra fyrirtækja þegar í nauðirnar ræki og mundu þess vegna ekki vilja fjármagna þau. Það er auðvitað grafalvarlegt mál þegar það er staðfest, þetta álit, því að hvernig ætla menn að reka fyrirtæki í fjölmiðlun á Íslandi til framtíðar ef fjármálastofnanirnar í landinu treysta sér ekki til að fjármagna fyrirtækin? Ég held að það hefði nú minna átt að þurfa til þess að menn dokuðu við og veltu fyrir sér á hvaða leið þeir væru með þetta mál.

Hæstv. forseti. Þetta mál er allt með miklum eindæmum. Eins og ég sagði við fyrri umræðu byrjaði þetta allt saman á bolludaginn. Það hafa þó orðið breytingar á frv. og ég ætla að fjalla um þær síðar í ræðu minni. Hæstv. forsrh. sagði reyndar í viðtölum við fjölmiðla að það hefði verið tekið á öllum athugasemdum sem hefðu komið fram um frv., komið til móts við þær allar. Hann orðaði þetta svona, blessaður maðurinn. Ég held að það sé af og frá og umræðan hér hefur aldeilis sýnt að það er ekki þannig.

Frumvarpið er áfram mónískt, eins og lögfræðingar lýsa því. Ef eitthvað er er það enn þá sértækara en það var. Það snýst um það sérstaka áhugamál hæstv. forsrh. að koma Baugi út úr fjölmiðlarekstri á Íslandi. Þetta er í raun og veru valdníðsla sem hæstv. forsrh. kemst upp með af því að hann hefur heljartök á ríkisstjórninni. Framsókn lætur nota sig án þess að nokkur maður mögli annar en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Hann hrópar nú sem stundum áður, í einu málinu enn, einn í eyðimörk fornra hugsjóna Framsfl. sem allar hafa vikið fyrir þeim þráða 15. september í haust.

Ég orðaði það svo í upphafsræðu um þetta mál að svo virtist sem hæstv. forsrh. ætlaði að hleypa framsóknardróginni yfir forirnar á meðan hann hefði hana enn undir hnakknum. Það er óhætt að segja að reiðlagið og tilþrif hests og knapa vekja athygli fólks um gervallt þjóðfélagið. Ferðalags hæstv. forsrh. frá bolludeginum 3. mars 2003 til 15. september 2004, í bjarma norðurljósanna, verður áreiðanlega minnst lengi. Hér helgar tilgangurinn meðalið. Það á að koma á ritskoðun á Íslandi. Hver skyldi hafa trúað því að nokkrum manni dytti það í hug?

Það hefur komið fram í þeirri umræðu sem hefur farið hér fram, m.a. frá hæstv. aðalforseta þingsins, að ástæðan til þess að gera þetta virðist augljóslega vera sú að þeir sem eru núna í fjölmiðlarekstri hagi sér ekki rétt, noti ekki fjölmiðlana með þeim hætti sem geðjast hæstv. ríkisstjórn og þeim sem hana styðja. Ekkert fer milli mála --- lögin snúa að einum aðila. Það er búið að klippa það út sem sneri óvart að öðrum, eða svo halda menn.

Mundi einhver efast um tilgang minn ef ég legði fram tillögu eða frv. um það að enginn gæti orðið forsætisráðherra eftir 15. september ef hann væri hrokkinhærður, meira en einn og fimmtíu á hæð, hefði verið forsætisráðherra í 13 ár og öðlast rétt til þess að fara á eftirlaun þegar honum hentaði? Eða hvað? Mundi einhver efast um hvað ég ætti við? Hér í sölum Alþingis efast heldur enginn um hvað átt er við með þessu frv.

Allt er þetta mál í raun tákn um valdhroka, tákn um það að hér hafa menn verið of lengi í valdastólunum. Dramb er falli næst. Ef einhver sannleikur er í þessu gamla máltæki er stutt í fall þeirra sem nú halda um valdataumana á Íslandi. Valdhroki og drambsemi þeirra hefur ítrekað komið í ljós þegar réttkjörnir menn í trúnaðarstöðum, t.d. fyrir lögskipaðar stofnanir, hafa leyft sér að hafa aðrar skoðanir á málunum en foringjarnir og aðalmálsvarar stjórnarflokkanna. Skemmst er að minnast úrskurðar umboðsmanns Alþingis um skipan Björns Bjarnasonar í hæstaréttardómarasæti og reyndar úrskurðar jafnréttisnefndar um þetta sama mál. Jafnréttislögin eru barn síns tíma, sagði dómsmrh., og úrskurður umboðsmanns Alþingis er í besta falli afþreyingarlestur fyrir valdamenn þessa lands.

Ég minni líka á úrskurð Samkeppnisstofnunar vegna sameiningar Landsbanka og Búnaðarbanka á sínum tíma. Þá stóð ekki á yfirlýsingum ráðamanna og ráðgjafa þeirra um að niðurstaðan væri illa rökstudd og vitlaus. Viðbrögð hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar við dómi í málefnum öryrkja leiða hugann líka að þessu gamla spakmæli, að dramb sé falli næst. Dómararnir voru ekki nógu margir, sagði hæstv. forsrh. þá. Dómararnir voru ekki nógu margir. Ætli Davíð, hæstv. forsrh., hefði sagt það ef dómurinn hefði fallið á hinn veginn, þótt dómararnir hefðu verið jafnmargir?

Ákvörðun forseta Hæstaréttar þá um hve margir skyldu skipa dóminn var ekki tekin umhugsunarlaust. Vera kann að hann hafi ekki átt kost á að skipa fleiri dómara í dóminn þá vegna vanhæfis. Það er líka vandséð að mögulegt sé að velja úr mál sem hægt er að skilgreina sem pólitískt mál, eins og þá var haldið fram, og hafa fleiri dómara í þeim málum, eins og hæstv. forsrh. gerði kröfu um, en Hæstiréttur hafði áður en öryrkjadómurinn féll fundið til tevatnsins hjá hæstv. forsrh. Það var þegar hann kvað upp dóm sinn í Valdimarsmálinu. Þá var líka kallað á lögsnillinga ríkisstjórnarinnar og þann dóm túlkuðu þeir þannig að það væri brot á stjórnarskránni að neita mönnum um veiðileyfi. Þeir hafa áhyggjur af slíku þegar þeim hentar, hæstvirtir ráðherrar ríkisstjórnarinnar. Þá setti meiri hlutinn á Alþingi lög um að menn skyldu fá veiðileyfi en enginn réttur til að veiða fisk ætti að fylgja því veiðileyfi. Sem sagt, gagnslaust veiðileyfi dygði til að fara að dómi Hæstaréttar, og með lagasetningu í kjölfarið ákvað Alþingi síðan að halda áfram að brjóta stjórnarskrána, tímabundið, með því að hafa sams konar úreldingarákvæði í gildi og þeir töldu að bryti gegn stjórnarskránni hvað varðaði smábáta. Snillingarnir höfðu fundið út að það væri sem sagt brot á stjórnarskránni, eins og ég fór yfir áðan. Það kerfi er reyndar við lýði enn sem þeir töldu sjálfir að væri brot á stjórnarskránni en væri í lagi að gera af því það væri tímabundið. Það þurfti þess vegna engan að undra þótt forsrh. og snillingunum hafi dottið í hug að það væri í góðu lagi að brjóta stjórnarskrána, tímabundið, eins og ákveðið var vegna dóms Hæstaréttar í máli öryrkjanna líka.

Ég fer yfir þetta vegna þess að valdhroki þeirra sem núna eru við völd á Íslandi er þvílíkur að það er kominn tími til að menn safni saman þeim hlutum sem hafa gerst á undanförnum árum. Reyndar bitu þeir höfuðið af skömminni með því að svíkja opinbert samkomulag við öryrkja, eins og allir muna. Þau svik hafa ekki verið leiðrétt enn. Þeir finna til valdsins.

Það er vert að minnast afskipta forsrh. af Hæstarétti á sínum tíma. Þau afskipti báru árangur. Vatneyrarmálið sæla er gott dæmi um það, málið sem reis í kjölfar Valdimarsmálsins, kom fyrir Hæstarétt og þá beitti forsrh. sér með einstæðum hætti og hótaði hallærum og landflótta ef Hæstiréttur dæmdi með svipuðum hætti í því máli og Valdimarsmálinu. Þannig fór, sem líklega er einsdæmi, að dómarar Hæstaréttar sem höfðu dæmt í fyrra málinu urðu ekki sammála um hvað þeir hefðu meint með Valdimarsdómnum. Þess vegna varð niðurstaða réttarins þveröfug við hinn fyrri dóm. Sem sagt, þrýstingur stjórnvaldsins, hæstv. forsrh., bar þann árangur gagnvart Hæstarétti að hann sneri við blaðinu í næsta máli á eftir. Hvað er hér á ferðinni? Skilja það ekki allir?

Það var auðvitað algjör tilviljun að dómarar sem skiptu um skoðun eru allir sjálfstæðismenn og að allir dómararnir sem studdu þá niðurstöðu sem forsrh. var þóknanleg hafa verið skipaðir af ráðherrum Sjálfstfl. Það er auðvitað líka tilviljun að dómsmrh. Sjálfstfl. lagði það á sig að brjóta jafnréttislög og jafnréttisáætlanir síns eigin ráðuneytis til þess að koma fyrir meðal hæstaréttardómaranna einum af aðalhöfundum laganna um stjórn fiskveiða. Eru menn búnir að gleyma þessu líka?

[21:30]

Ef okkur hefðu borist fréttir úr öðrum löndum af slíkum afskiptum forsrh. á æðsta dómstóli landsins og hér var lýst, og stjórnvaldsathöfnum af slíku tagi, hefði mönnum örugglega þótt eitthvað athugavert við stjórnarfarið þar.

Ég ætla að fara aftur yfir þetta mál sem hér er til umræðu.

Nú er lagatextanum samkvæmt brtt. ætlað að hefjast á ákvæðum um útvarpsréttarnefnd og þau eru vonandi til bóta. Ekki hefur sú nefnd gert mikið fram að þessu. Það var fróðlegt að hlusta á hv. þm. Einar Karl Haraldsson fara yfir það hvernig sú nefnd hefur starfað á undanförnum árum og hvers konar ólestur er á öllu því starfi sem henni fylgir. Ekki hefur verið skilað skýrslu um starfsemi hennar frá 1997 og skuldirnar hlaðast upp í óreiðu. Ef þetta væri fyrirtæki væri löngu búið að loka því og setja það í gjaldþrot. Hinn ágæti framkvæmdastjóri Sjálfstfl. hefur haldið þarna um stjórnvölinn af mikilli snilli, bankaráðsmaður í Landsbankanum og stærsti eigandi hinna smærri hluthafa þar.

Mér er spurn: Hvað finnst mönnum um það hverjir eiga hæfi í þessari nýju útvarpsréttarnefnd? Það er eingöngu talað um að þar þurfi menn að hafa hæfi héraðsdómara, ekkert annað sagt. Mega þeir vera framkvæmdastjórar stjórnmálaflokka? Mega þeir sitja í bankaráðum? Bankarnir geta haft mikilla hagmuna að gæta hvað varðar rekstur slíkra fyrirtækja sem við erum að fjalla hér um. Koma þessi starfsgengisskilyrði héraðsdómara í veg fyrir hagsmunaárekstra? Þurfa þessir menn ekki að framfleyta sér á einhverju öðru en að vera í þessari útvarpsréttarnefnd? Við hvað mega þeir vinna? Mega þeir vera í fjármálafyrirtækjunum? Mega þeir vera í fjölmiðlafyrirtækjunum? Spyr sá sem ekki veit. Það þyrfti að fá betur upplýst hvað menn ætla sér með þessu. Það hefur ekki verið gert.

Mér finnst, vegna þeirrar umræðu sem fór fram hér rétt áður en ræða mín hófst, að ekki væri úr vegi að þeir sem hafa sett út á það að samfylkingarmenn færu í andsvör hverjir við aðra sinntu skyldum sínum á hv. Alþingi og kæmu til þessarar umræðu til þess að ræða málið á efnislegum grunni, svara spurningum og setja fram skoðanir sínar á málinu. Hér hefur einn stjórnarliði gert grein fyrir afstöðu meiri hluta allshn., og ekki meir. Ekki meir. Síðan er okkur ætlað að hafa umræðuna með höndum. Við munum auðvitað gera það með þeim hætti sem við teljum skástan. Ég fagna því sérstaklega að aðalforseti þingsins skuli hlýða á ræðu mína því þá veit ég þó að einn einlægur hlustandi úr Sjálfstfl. er í salnum, getur fylgst með og velt því fyrir sér sem ég mun leggja fram í henni.

Útgáfa útvarpsleyfis verður háð ýmsum skilyrðum. Mér verður á að spyrja eins og ég gerði við 1. umr.: Þarf þetta útvarpsleyfi? Það er ástæða til að spyrja vegna þess að fram hefur komið að í stafræna kerfinu sem Landssíminn er farinn að reka eru sendar út 40 sjónvarpsrásir. Það þarf ekkert leyfi fyrir þeim. Það er nóg að tilkynna um þær rásir. Það er sem sagt þannig að Íslendingar ætla að nota útvarpsleyfin til þess að setja hömlur á fyrirtækin á Íslandi, en Íslendingar ætla að leyfa allar aðrar útsendingar án þess að til þess þurfi leyfi. Nú má enginn taka orð mín svo að ég sé á móti því að þessar erlendu útvarpsstöðvar séu sendar hér út. Ég er á móti því að menn setji þau lög sem hér er stofnað til.

Hæstv. forseti. Ég var áðan byrjaður að fara yfir það sem ég kalla valdhroka þessarar ríkisstjórnar og þeirra sem eru við völdin. Líklega er rétt að halda því áfram svolítið síðar í ræðu minni.

Ég held því fram að sú aðferð sem menn hafa tekið hér upp, þ.e. að ætla að stjórna útsendingum, koma í veg fyrir þær með þeim hætti sem hér er til stofnað, sé ónýt. Hún mun eingöngu duga til þess að slá til jarðar það fyrirtæki sem henni er beint að en í einhverri framtíð munu menn auðvitað verða að meðtaka nútímann sem er sá að allir sem vilja munu fá tækifæri til þess að senda út og selja aðgang að sjónvarpsstöðvum og -rásum sem þeir kjósa. Það verður eingöngu tímabundið sem hæstv. ríkisstjórn getur komið í veg fyrir þetta. Fólkið í landinu er óskaplega mikið á móti því sem hér er á ferðinni. Ég ætla að segja frá einu símtali sem ég fékk rétt áður en ég hóf ræðu mína, hæstv. forseti.

Í mig hringdi maður sem bjó í Austur-Þýskalandi í þó nokkur ár. Hann sagði mér að í því landi hefði verið ein sjónvarpsstöð sem ríkið átti og ríkisstjórnin stjórnaði hverjir þar réðu ríkjum og húsum. Hann sagðist hafa búið nálægt landamærum Vestur-Þýskalands og það hefði verið hægt að fá einhvers konar tæki eða tól til að tengja við sjónvörpin þannig að auðvelt hefði verið að ná hinum ýmsu sjónvarpsstöðvum í Vestur-Þýskalandi en menn hefðu læðst með húsveggjum og horft inn um gluggana til þess að fylgjast með því hvort menn væru að horfa á þessar stöðvar. Ef þeir sáu það var gert húsbrot á þeim stöðum til að taka tækið af þeim sem þeir höfðu til þess að horfa á þessar stöðvar. Á sama tíma sagðist hann hafa fengið heimsókn þar sem honum var vinsamlega bent á það, af því hann fengi sent Morgunblaðið frá Íslandi, að til væru betri blöð í því landi. Það væri miklu nær fyrir hann að fá sendan Þjóðviljann eða Dag frá Akureyri.

Hvert eru menn komnir á Íslandi? Ætla menn virkilega að fara að reyna að stjórna því hvaða fjölmiðlar eru lesnir? Hæstv. forseti. Á hvaða leið er sú ríkisstjórn sem hæstv. forseti þingsins styður? Ég heyri ekki betur en að hæstv. forseti sjálfur styðji þessa hluti, mæli fyrir ritskoðun í ræðum sínum. Hæstv. forseti hélt hér ræðu sem ég get ómögulega gleymt. Hún fjallaði um það að þeir sem rækju Stöð 2, þeir sem gæfu út Fréttablaðið og þeir sem gæfu út DV notuðu starfsfólkið til þess að koma skoðunum sínum á framfæri með þvílíkum hætti að ekki var hægt að skilja neitt annað hjá hæstv. forseta en að það þyrfti að stöðva þetta. Seinna í ræðunni ásakaði hann okkur stjórnarandstæðinga um það að við létum að því liggja að ríkisfjölmiðlarnir væru ekki hlutlausir. Hann var afar hneykslaður á því, lýsti svo með nákvæmum hætti hvernig húsbóndavaldið á þessum fjölmiðlum sem hann hafði áður nefnt, hjá Dagblaðinu, Fréttablaðinu og Stöð 2, væri notað og bókstaflega hló að því hér í ræðustólnum að menn létu sér yfirleitt detta nokkuð annað í hug en að þetta væri notað. Þetta var dálítið mikið líkt frægri persónu sem við sjáum oft í sjónvarpinu, Ragnari Reykás. Það var skipt um plötu eftir því hvort var talað um Ríkisútvarpið og ríkisfjölmiðlana eða hina fjölmiðlana. Þá hafði eigendahlutverkið ekkert að segja, þegar um var að ræða ríkisfjölmiðlana.

Ég er ekki hér í ræðu minni að ásaka þá sem eru fréttamenn og starfsmenn ríkisfjölmiðlanna en ég minni á þessa ræðu vegna þess að það hefur komið í gegnum bæði hana og fleiri ræður að þessu frv. með brtt. sem hér liggja fyrir væri ætlað að koma í veg fyrir óæskilegan fréttaflutning. Öðruvísi verður það ekki skilið sem ýmsir stjórnarliðar hafa hér sagt.

Það hafa orðið breytingar á frv. eins og ég sagði áðan. Nú er t.d. búið að bæta því inn og skilgreina að ekkert fyrirtæki sem er í öðrum rekstri en fjölmiðlun sem hefur meira en 50% umfangs fyrirtækisins í öðrum rekstri getur fengið úthlutun leyfis. Það verður að stofna sérstakt hlutafélag um reksturinn. Það stendur í útvarpslögum og hæstv. forsrh. leiðrétti mig í ræðu sem ég hélt við 1. umr. vegna þess að ég hafði skilið það af orðalagi útvarpslaga og þeirra breytinga við útvarpslögin sem hér liggja fyrir að einstaklingar gætu ekki átt fjölmiðla. Hæstv. forsrh. leiðrétti mig. Það er rétt hjá honum. Ef maður les útvarpslögin betur, sem ég hefði betur gert áður, er ljóst að einstaklingar geta fengið úthlutað útvarps- og sjónvarpsrásum. Lagafrumvarpið sem hér liggur fyrir ásamt brtt. er þannig úr garði gert að engin fyrirtæki sem eru í útvarps- eða sjónvarpsrekstri geta verið í eigu færri en fjögurra aðila. Ég dreg í efa að það standist að hafa aðrar reglur um einstaklinga en fyrirtæki. Það sem mun gerast ef þetta frv. verður að lögum er það að einstaklingur --- við skulum bara gefa okkur að auðugur einstaklingur sem vill verða fjölmiðlakóngurinn á Íslandi og er tilbúinn að selja fyrirtæki sín, breyta þeim í peninga og kaupa fjölmiðlana sem hér eru --- má eiga allar sjónvarpsstöðvar á Íslandi nema ríkissjónvarpið eins og er. Það verður sem sagt svona Murdoch-ákvæði í þessum lögum ef þessi verður niðurstaðan.

[21:45]

Ég spyr: Er þetta það sem menn eru að hugsa? Eru þeir sammála því að svona skuli þetta vera, að einstaklingur sem ákvæði að fara í fjölmiðlarekstur gæti yfirtekið allan markaðinn? Honum er gert það undarlega auðvelt, ef ég má komast svo að orði, vegna þess að fyrirtækjum er gert mjög erfitt að standa í þessum rekstri. Menn verða nánast að koma með fjármunina í eigin fé inn í þennan rekstur og þeir mega ekki standa í annarri starfsemi svo nokkru nemi.

Markaðsráðandi fyrirtæki mega nú, samkvæmt brtt., ekki eiga meira en 5% í slíkum fyrirtækjum sem hér um ræðir. Það skiptir auðvitað engu máli. Það er alveg eins gott að hafa það 0%. Ég held að það sé fyrst og fremst af einhverjum hagkvæmnisástæðum sem 5% hafa verið sett inn, að það geti rekið á fjörurnar hjá þessum fyrirtækjum óvart í einhverjum viðskiptum einhvern lítils háttar hlut í fjölmiðlafyrirtækjum og að þess vegna vilji menn hafa þennan möguleika inni. En það gerir það ekkert áhugavert fyrir fyrirtæki sem skilgreind væru markaðsráðandi að eignast einhvern hlut í þessum fyrirtækjum. Það er af og frá.

Síðan er annað. Menn sáu sitt óvænna og settu ákvæði vegna þess að með þeim lagatexta sem liggur fyrir í þingmálinu, upphaflega þingmálinu, var verið að koma í veg fyrir að jafnvel dekkjaverkstæði á einstökum stöðum á landinu mættu eiga í fjölmiðlafyrirtækjum. Nú er það sem sagt skilgreint að tveir milljarðar í veltu skuli þarna ráða úrslitum um það hvort fyrirtæki megi eiga í fjölmiðlafyrirtæki. Nú skulum við gefa okkur að fyrirtæki sem er innan þessara stærðarmarka vildu fjárfesta í fjölmiðlafyrirtæki, fyrirtækjahópur tæki sig saman --- þetta verður að vera fyrirtækjahópur, ekki færri en fjögur --- og hvert um sig keypti sín 25% í fjölmiðlafyrirtæki. Þá er lagatextinn sem hér er borinn á borð fyrir þingmenn þannig fram settur að ekki er hægt að misskilja hann að mínu viti, í lagatextanum er talað um hvað eigi að telja með í veltu fyrirtækjanna. Það kemur hvergi fram hvernig eigi að telja eignina í sjálfum fjölmiðlinum. Því verður ekki annað ráðið af lagatextanum en að það eigi að telja eignarhlutann í fjölmiðlinum með. Ef fjögur fyrirtæki keyptu fyrirtæki af stærðargráðunni sem Norðurljós eru virðist liggja nokkuð ljóst fyrir að ekkert þeirra mætti vera með meira en 600 millj. kr. veltu á ári. Sú velta plús hlutur þess í veltu Norðurljósa væri þá farin yfir tvo milljarða kr. á ári.

Ég bið hæstv. forseta eða einhverja aðra fyrirsvarsmenn þess máls sem við erum hér að ræða að leiðrétta mig ef ég fer rangt með. Sá lagatexti sem hér er til staðar virðist vera mjög skýr og ekki er vafi í mínum huga að það hljóti að eiga að lesa hann með þessum hætti. Síðan er í lagatextanum ákvæði um það að útvarpsréttarnefnd eigi að grípa til aðgerða ef fyrirtæki fari yfir þessi mörk. Engrar undankomu er auðið fyrir útvarpsréttarnefnd. Hún verður að beita þeim skilyrðum sem þarna eru sett. Um leið og eitthvert fyrirtæki sem er búið að kaupa í fjölmiðli fer yfir tveggja milljarða veltu, þ.e. samanlagða veltu fyrirtækisins og þeirra fyrirtækja sem það á í með einhverjum hætti, eða hefur yfirráð yfir að mati Samkeppnisstofnunar, er þetta fyrirtæki þar með komið á svartan lista útvarpsréttarnefndar og fær 120 daga til að breyta eignarhaldinu í fyrirtækinu og koma því í lag. Lengri tími verður það ekki.

Meiri hlutinn hefur gripið til neyðarbjargana af einhverju tagi í brtt. sínum, m.a. benti ég á, og kannski fleiri, við 1. umr. að einhver sem bæri illan hug til fjölmiðlafyrirtækis og réði yfir fyrirtæki sem væri í markaðsráðandi stöðu gæti bara keypt einhvern part í fjölmiðlafyrirtæki í þeim tilgangi að setja það í vanda. Nú eru komin ákvæði um hvernig eigi að meðhöndla það. Ég geri svo sem ekki neinar sérstakar athugasemdir við það sem menn eru hér að gera með brtt. sínum. Ég tel reyndar að málið sé þannig vaxið að við sem erum í stjórnarandstöðunni eigum engan kost á því að styðja eitt einasta ákvæði þessa frv. Það er svo glórulaust sem hér er verið að setja í gegnum Alþingi, ef það verður niðurstaðan, að á því held ég að sé rétt að bera ekki neina ábyrgð.

Fjármálafyrirtækin í landinu komu til umræðu svolítið áðan. Þau eiga mikilla hagsmuna að gæta hvað varðar það fyrirtæki sem þessum lögum er beint að. Nýjar upplýsingar komu fram í umræðunni um fundarstjórn forseta áðan, a.m.k. fyrir mig, þar sem það var upplýst að lífeyrissjóðirnir ættu 2 milljarða undir í þessu fyrirtæki. Ég held að nú hljóti mönnum að vera mikið umhugsunarefni með hvaða hætti þetta fyrirtæki og þeir sem því stjórna geta losað sig úr þeirri klemmu sem það er í. Ég held að niðurstaðan af því verði varla önnur en sú að ríkissjóður muni sitja uppi með það að borga skaðabætur vegna þess að aðilar sem hugsanlega vildu eignast þetta fyrirtæki og uppfylltu hæfisskilyrðin sem hv. Alþingi ætlar að setja, ef það verður að lögum sem hér liggur fyrir, ættu alls kostar við þá sem eiga skuldir hjá Norðurljósum. Þeir gætu svo sem sett verðmiðann bara sjálfir á þetta fyrirtæki. Þar með sætu lánardrottnar fyrirtækisins uppi með það að þurfa að afskrifa lán sín til fyrirtækisins.

Mér er sem sagt enn þá spurn: Hvaða fjármálafyrirtæki mundi eiginlega lána fyrirtækjum svo gífurlega fjármuni sem þarf til að reka fyrirtæki eins og Norðurljós? Fyrr í kvöld hefur verið sagt í ræðustól að skuldirnar séu 5,7 milljarðar. Hvaða lánastofnun fjármagnar slíka fúlgu ef hún á enga möguleika á því, nema 120 daga frest, að taka þátt í rekstri þessa fyrirtækis, getur ekki lagt inn hlutafé í fyrirtækið vegna eignarhaldsákvæðanna og hefur þennan ótrúlega skamma frest til að koma málum fyrirtækisins í lag? Það er nú ekki svo langt síðan þetta fyrirtæki stóð í þeim vanda sem allir þekkja sem fylgst hafa með á fjölmiðlamarkaðnum hér á undanförnum mánuðum.

Ég ætla líka að tala aftur um það ákvæði í þessu frv. sem snýr að prentfrelsinu, þ.e. að fyrirtæki í fjölmiðlun megi ekki eiga í dagblöðum. Ég hef kallað prentfrelsið barmmerki lýðræðisins í gegnum tíðina. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst umræðan um þetta atriði ekki hafa verið nóg þótt hér hafi menn talað langar stundir. Svo lengi hefur prentfrelsið verið í heiðrum haft að það væri ástæða til að menn gæfu því nokkra umræðu hér á hv. Alþingi þegar menn orða þá hugsun í fyrsta skipti að það sé ekki fyrir alla. Ég held því fram að prentfrelsið eigi að vera fyrir alla, og þá hvern sem er. Hver sem kýs að gefa út blöð, bæklinga eða einhvers konar rit á Íslandi á að hafa til þess rétt. Mér finnst líka undarleg hugsun fólgin í því að ætla sér að koma í veg fyrir að einhver aðili geti gefið út blöð.

Þær breytingar sem hafa orðið á blaðamarkaðnum eru fólgnar í því að nú eru menn farnir að bera blöð ókeypis í hús og fjármagna þau með öðrum hætti en að selja þau. Verslunarkeðjur eða önnur fyrirtæki sem vilja koma á framfæri upplýsingum sínum geta þess vegna séð sér hag í því að fara að gefa út blöð, hafa í þeim auglýsingar og annað efni sem fólki finnst áhugavert til þess að fá það til að lesa þau og kynna sér auglýsingarnar, upplýsingar um vörur fyrirtækjanna. Er þetta eitthvað slæmt? Það er skoðun mín að þetta sé í raun og veru ekkert slæmt. Það er eindregin skoðun mín að það sé gjörsamlega fráleitt að ætla að koma í veg fyrir þetta. Þá eru menn að keyra býsna hratt aftur á bak í frelsi á Íslandi þegar þeir eru komnir að þeirri niðurstöðu að það eigi að taka prentfrelsið og útgáfuréttinn sem því hefur fylgt í gegnum tíðina af nokkrum einasta aðila. Ég kalla eftir því að menn bendi á að ákvörðun af þessu tagi hafi verið tekin á Íslandi fyrr.

Mér finnst þessi réttur vera heilagur. Hann er orðinn forn. Svo dettur mönnum í hug árið 2004 á Íslandi að taka hann af einhverjum. Hvers vegna? Vegna þess að menn óttast yfirráð einhvers konar fjölmiðlarisa á íslenskum markaði þar sem risinn á markaðnum er í raun og veru Ríkisútvarpið. Það er mikið umhugsunarefni að þetta hafi flögrað yfirleitt að nokkrum manni.

[22:00]

Hæstv. forseti. Í þjóðfélaginu er bókstaflega mótmælaalda gegn því sem ríkisstjórnin er að aðhafast hér á hv. Alþingi þessa dagana. Sem dæmi um það langar mig að lesa hér upp ályktun sjálfstæðisfélags Hlíða- og Holtahverfis sem, með leyfi hæstv. forseta ,,hvetur til þess að afgreiðslu frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum, sem nú liggur fyrir Alþingi, verði frestað og málið verði tekið fyrir á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, áður en lengra verður haldið``.

Ég vek athygli hæstv. forseta Alþingis á þessari ályktun og hvet hann til þess að lesa frétt Morgunblaðsins vandlega yfir:

,,Í ályktun sem félagið hefur samþykkt og sent fjölmiðlum segir að félagið skilji þau sjónarmið sem liggja að baki frumvarpinu, en þó er hvatt er til þess að málinu verði frestað og það rætt á næsta landsfundi flokksins.``

Bragð er að þá barnið finnur er stundum sagt. Þegar félög Sjálfstfl. eru farin að reyna að hafa vit fyrir ríkisstjórninni, hæstv. forsrh. og hæstv. forseta Alþingis er ástæða til þess að spyrja hvers vegna þeir hlusti ekki.

Á undanförnum dögum hafa fjölmargir aðilar komið fram í samfélaginu og bent á ágalla þeirrar hugmyndar sem hér liggur fyrir. Þeir eru af fjölmörgu tagi en alvarlegastir eru þeir þó að menn telja, og það menn sem á því ættu að hafa býsna mikið vit, að hér sé á ferðinni atlaga að stjórnarskránni, það sé meiri háttar vafi á því að ákvæði þessa lagafrumvarps geti staðist stjórnarskrá. Enn einu sinni erum við í þeim sporum hér í sölum hv. Alþingis að ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. leggur fram frv. sem vafi leikur á að geti staðist stjórnarskrá. Enn hljóta menn að spyrja: Er það þá ekki regla hér á hv. Alþingi að stjórnarskrárákvæðin njóti ævinlega vafans? Nei, það er sko ekki regla. Það má segja að reglan sé heldur á hinn veginn, að sé vafi eigi að taka áhættuna. Það hefur reyndar verið gert býsna oft. Hæstiréttur sem svo vill til að hefur verið skipaður í gegnum tíðina undanfarin æðimörg ár af ráðherrum Sjálfstfl. hefur, þrátt fyrir þá skipun, þurft að senda hin ýmsustu mál aftur til baka í höfuðið á ríkisstjórninni vegna þess að hann hefur ekki talið að þau stæðust ákvæði stjórnarskrárinnar. Samt heldur hæstv. ríkisstjórn áfram á sinni braut.

Nú sem aldrei fyrr hafa komið fram virtir lögfræðingar, hæstaréttarlögmenn og prófessorar í lögum og haldið því fram að þetta mál væri svo alvarlegt og líklegt til þess að brjóta stjórnarskrána að sennilega þyrfti forseti lýðveldisins að velta því mjög vandlega fyrir sér hvort hann yfirleitt gæti staðfest þessi lög ef þau verða afgreidd hér við lokaafgreiðslu á hv. Alþingi. Þetta er mér mikið umhugsunarefni, hæstv. forseti.

Ég ætla að vitna hér í umsögn ágæts lögspekings, Sigurðar Líndals, hæstv. forseti, með leyfi hæstv. forseta --- ég held við höfum báðir gott af því að fara yfir það sem Sigurður Líndal segir um þetta:

,,Hér koma fyrst til athugunar ákvæði 1. gr. a--b. Eins og þegar hefur verið rakið fela þau í sér að mjög er þrengt að fjárhagslegu sjálfstæði fjölmiðlafyrirtækja, þar sem þeim eru sett veruleg takmörk að afla áhættufjár. Þá vakna spurningar um það hvort slíkt reisi ekki tjáningarfrelsi skorður og kunni að fara í bága við 73. gr. stjórnarskrárinnar, einkum 3. mgr. sem hljóðar svo:

,,Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.``

Í öllum mannréttindaskrám er lögð mikil áhersla á vernd tjáningarfrelsis, þannig að allar takmarkanir ber að túlka þröngt og gjalda varhuga við hverju einu sem setur því skorður, þar á meðal fjárhagslegar.

Einnig kemur til álita hvort ekki sé með ákvæðum frumvarpsins þrengt að atvinnufrelsi umfram það sem heimilað er í 75. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir:

,,Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.``

Hér eru settar svo miklar hömlur á atvinnustarfsemi manna á sviði fjölmiðlunar að mjög tvísýnt er að þær samrýmist ákvæði greinarinnar,`` segir Sigurður Líndal.

,,Hér má einnig huga að 72. gr. um friðhelgi eignarréttar þar sem lagðar eru víðtækar hömlur á rétt manna til að ráðstafa eigum sínum, sem er ein meginheimild eignarréttarins.

Þetta er nauðsynlegt að skoða vandlega áður en frumvarpið verður afgreitt.``

Hefur það verið gert? Nei, nei, og ekki stendur til að gera það. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að þetta mál skuli fara með þeim hraða sem mögulegur er gegnum Alþingi og verði ekki skoðað nánar en nú hefur þegar verið gert í nefndum þingsins.

,,Sérstakan gaum verður að gefa að ákvæði til bráðabirgða, sem hljóðar svo:

,,Þeir sem lögin taka til skulu hafa lagað sig að þeim kröfum sem lögin gera innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Útvarpsréttarnefnd skal vera heimilt að afturkalla útvarpsleyfi þeirra sem hún telur ekki uppfylla skilyrði 1. gr. laganna að þeim tíma liðnum.``

Samkvæmt útvarpslögum má veita leyfi til hljóðvarps til 5 ára lengst, en leyfi til sjónvarps lengst til 7 ára í senn. Í framangreindu ákvæði er heimild til að stytta leyfistímann, ef leyfishafi hefur ekki innan tveggja ára fullnægt þeim hörðu skilyrðum um breytt eignarhald sem mælt er fyrir um í a-lið 1. gr. og áður eru rakin. Þótt lögin séu að formi til framvirk eru þau í reynd afturvirk þar sem þau raska með ófyrirsjáanlegum hætti forsendum sem lagðar hafa verið til grundvallar við rekstur fjölmiðlafyrirtækja. Í áfangaskýrslu auðlindanefndar sem birt var í mars 1999 er ritgerð eftir undirritaðan`` --- þ.e. Sigurð Líndal --- ,,og Þorgeir Örlygsson, nú dómara við EFTA-dómstólinn í Strassborg, þar sem fjallað er um vernd atvinnuréttinda í fjölþjóðlegum mannréttindasáttmálum og þar rakin dómaframkvæmd mannréttindanefndar og Mannréttindadómstóls Evrópu og enn fremur Evrópudómstólsins. Þar er niðurstaðan sú að atvinnuréttindi manna njóti verndar sem eignarréttindi eða eignarréttarígildi. Sérstaklega er tekið fram að lögmætar væntingar þess sem hefur leyfi til atvinnustarfsemi njóti verndar 1. gr. viðauka 1 við mannréttindasáttmála Evrópu. Leyfishafi megi gera ráð fyrir, að sér sé almennt heimil starfsemi sín til frambúðar sér til efnahagslegs ávinnings. Þessi réttindi njóti þó takmarkaðri verndar en hefðbundin eignarréttindi. Eignarréttindi megi skerða ef það sé til almannaheilla, enda sé gætt hæfilegs jafnvægis milli einstaklingshagsmuna og almannahagsmuna, sanngjarnt jafnvægi sé milli tilgangs og meðals, nánar tiltekið að meðalhófs sé gætt, þannig að ekki sé gengið lengra en þörf krefur hverju sinni. Jafnframt er lögð áhersla á það hvort réttindum hafi verið úthlutað með tilteknum skilyrðum, t.d. fyrirvara um afturköllun eða breytingu, og jafnframt hvort breyting eða afturköllun er framkvæmd með þeim hætti að sá sem þolir skerðingu fái svigrúm til að laga starfsemi sína að breyttum reglum (sjá bls. 143).

Í stuttu máli það öryggi í atvinnustarfsemi sem bundið er við réttmætar væntingar nýtur stjórnskipulegrar verndar sem eignarréttindi. Þessu raskar bráðabirgðaákvæðið og fer þannig í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar.``

Nú er reyndar komin brtt. frá meiri hluta allshn. sem gengur út á það að í stað bráðabirgðaákvæðisins skuli lögin öðlast gildi eftir tvö ár. Gerðin er þó sú sama þannig að þetta hlýtur að eiga við um brtt. líka.

,,Eins og fyrr er tekið fram breytir bráðabirgðaákvæðið forsendum, skerðir öryggi við atvinnustarfsemi með því að rjúfa þann tíma sem útvarpsleyfishafar höfðu til starfsemi sinnar og raska því lagaumhverfi sem ekki verður betur séð en leyfishafar hafi mátt treysta að héldist óbreytt að minnsta kosti út leyfistímann. Þannig urðu lögin afturvirk þótt formlega væru framvirk. Nú segir fjölmiðlanefndin í áliti sínu, kafla 6.4.4 (bls. 86):

,,Sé litið til aðstæðna á markaði á Íslandi er ljóst að markmiðum beinna reglna um takmarkað eignarhald eða útbreiðslu yrði ekki náð að öllu leyti nema þær yrðu afturvirkar.``

Með afturvirkni og röskun á því öryggi sem er forsenda þess að unnt sé að starfrækja atvinnufyrirtæki hefur verið brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar,`` segir Sigurður Líndal.

Hæstv. forseti. Álit þessa ágæta lagaprófessors er allt með þessu marki brennt sem ég hef verið að fara yfir. Þetta mál er meira og minna augljóslega brot á réttindum, brot á stjórnarskránni og virðist augljóslega vera beint að einu sérstöku fyrirtæki. Þá veltir maður fyrir sér hvernig á því skuli standa að ríkisstjórnin skuli treysta sér í þá lagasetningu sem hér er stofnað til. Hér hefur þeirri röksemd verið hreyft hvað eftir annað að í fjölmiðlaskýrslunni sem var rædd um daginn og liggur hér fyrir og frv. var dreift með séu vísbendingar og umfjöllun sem nánast hljóti að leiða til þeirrar niðurstöðu sem hér liggur.

[22:15]

Þetta er náttúrlega skrumskæling á því sem stendur í þessari skýrslu. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þessari skýrslu hafa verið hælt meira hér í sölum Alþingis en efni standa til. Hún er að mínu viti samt furðulega góð miðað við hvernig í hana var valið fólk til að vinna. Það var handvalið í þessa fjölmiðlanefnd af hálfu stjórnarflokkanna og ekki var gefinn neinn kostur á því að aðilar sem hafa staðið í þessum rekstri, blaðamenn eða aðrir sem koma að fjölmiðlum á Íslandi fengju tækifæri til þess að setja fram skoðanir sínar á því sem nefndin var að gera og mundi leggja til. Þrátt fyrir það er það niðurstaða fjölmiðlanefndarinnar og fyrsta tillaga hennar --- hún er kölluð það og það getur ekki verið tilviljun að þessi tillaga nefndarinnar skuli vera kölluð fyrsta tillaga nefndarinnar --- að það eigi að styrkja Ríkisútvarpið.

Mér fannst þetta merkilegt þegar ég las það og velti því fyrir mér hvernig menn hafi snúið skýrslunni þegar þeir lásu hana. Hvernig gátu þeir komist að þeirri niðurstöðu að úr þessari skýrslu mætti lesa það að menn ættu að setja mónísk lög til að kollvarpa einu fyrirtæki í þessu landi? Satt að segja er hér öllu á haus snúið, hæstv. forseti, í þessari umræðu.

Það hefur komið í ljós við þessa umræðu, nefndarmenn allshn. og fleiri hafa farið vel yfir það, að þeir sem komu til fundar við nefndirnar, sérstaklega allshn., voru nánast allir á einu máli um það að þeir treystu sér ekki til þess að mæla með því sem hér er á ferðinni. Fjölmargir þeirra, langflestir, mæltu eindregið gegn því sem hér hefur verið sett á blöð. Samkeppnisstofnun setti frá sér álit. Í því eru að mínu viti mjög athyglisverðar niðurstöður. Þar stendur undir fyrirsögninni ,,Bann við að fyrirtæki í óskyldum rekstri sé veitt útvarpsleyfi. Bann við að eiga meira en 25% hlut``, með leyfi forseta:

,,Eins og nefnt var gerir frv. ráð fyrir að óheimilt verði að veita útvarpsleyfi til fyrirtækis sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri. Einnig verður bannað að veita fyrirtæki slíkt leyfi sem er að fjórðungi í eigu annars fyrirtækis eða samanlagt að fjórðungi í eigu fyrirtækja í sömu fyrirtækjasamstæðu. Að mati Samkeppnisstofnunar munu þessi ákvæði með augljósum hætti takmarka aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Þannig kemur ákvæðið t.d. í veg fyrir að fyrirtæki sem starfar á tilteknum markaði auki starfsemi sína og hefji samkeppni við keppinauta sem fyrir eru t.d. á útvarpsmarkaði. Einnig hamlar ákvæðið verulega fjárfestingarmöguleikum fyrirtækja í útvarpsrekstri og dregur þar með úr frelsi í atvinnurekstri. Ákvæðin fara því gegn markmiði samkeppnislaga,`` segir Samkeppnisstofnun.

Síðan heldur þetta áfram, með leyfi forseta:

,,Að mati Samkeppnisstofnunar fæst ekki séð að þessi ákvæði séu nauðsynleg til þess að tryggja markmið frv. Þvert á móti virðast þau vinna gegn markmiði þess þar sem þau t.d. hindra að nýir aðilar hefji útvarps- og sjónvarpsrekstur og auki þar með fjölbreytni í fjölmiðlum hér á landi. Vakin er athygli á því að í skýrslu nefndar menntamálaráðherra sem fylgir frv. kemur fram að sjaldgæft sé í erlendri löggjöf að settar séu takmarkanir við að fyrirtækjum í óskyldum rekstri sé veitt útvarpsleyfi. Samkeppnisstofnun leggur því til að ákvæðið verði fellt brott úr frv.``

Það getur ekki verið skýrara. Þetta er stofnun á vegum hins opinbera sem hefur fjallað um ákvæðið faglega og leggur til að það verði fellt í brott.

Ég endurtek og bendi aftur á það sem ég sagði áðan, það rekst hvað á annars horn í þessu frv. og þeim lögum sem verða þegar upp verður staðið með þeim ákvæðum sem fyrir eru í útvarpslögum. Hér er talað um 5% eign og þær takmarkanir að fyrirtæki megi þá ekki velta nema tiltölulega lágum fjárhæðum. Ef sú skilgreining á við sem ég hélt fram hér áðan og hefur ekki verið mótmælt enn verður niðurstaðan sú að fjölmiðlareksturinn og rekstur fyrirtækjasamstæðunnar sem á 25% skuli lögð saman og ef við erum að tala um fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem Norðurljós eru núna mundi fyrirtækið sem um væri að ræða og ætti þessi 25% ekki mega velta í starfsemi sinni meira en 600 millj. kr. vegna þess að velta fjölmiðlafyrirtækisins bætist við og fyrirtækið verður um leið markaðsráðandi.

Mér skilst að þessir ágætu breytingartillagnaflytjendur úr meiri hluta allshn. hafi bara ekki velt þessu fyrir sér, þetta væru bara ekki 2 milljarðar, þetta væru bara 600 millj., eitthvað svoleiðis. Það er líkt þeim handarbakavinnubrögðum sem eru í þessu máli.

Hér hafa nefnilega brtt. sýnt eins gjörla og hægt er að undirbúningur þessa máls er mikil hrákasmíð, þ.e. málið er þvílík hrákasmíð vegna undirbúningsins að því er ekki viðbjargandi með nokkrum hætti. Samt halda framsóknarmenn því fram að þeir hafi verið búnir að stýfa út úr frv. einhver ægileg ákvæði sem voru þar inni áður. (Gripið fram í: Hvernig var það þá?) Ja, hvernig var það þá? Hvernig var það þegar það kom af skepnunni?

Samkeppnisstofnun segir líka, með leyfi forseta:

Fyrirsögnin er: ,,Bann við að fyrirtæki sem er í eigu markaðsráðandi ...`` --- bann, hér stendur alltaf bann í öllum textum --- ,,fyrirtækis sé veitt útvarpsleyfi.

Í frv. segir að óheimilt sé að veita fyrirtæki útvarpsleyfi sem að hluta eða öllu leyti er í eigu fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta.``

Það er stórkostlegt hvernig þetta var lagt fram í upphafi þegar meira að segja dekkjaverkstæði í einhverjum smáþorpum máttu ekki eiga í fjölmiðlafyrirtæki. Síðan ætla þeir að fara að bæta úr og þá fer það svona, þá er sett þetta lágmarksákvæði, sjálfsagt í þeirri góðu trú að menn væru að tala um eitthvað sem mætti kalla þokkalegt alvörufyrirtæki á Íslandi og velti tveim milljörðum. Þá dettur það bara óvart niður í 600 millj. eða eitthvað svoleiðis sem þetta fyrirtæki getur velt. Hvaða fyrirtæki eru það á Íslandi? Það eru engin óskapleg fyrirtæki sem þarna eru á ferðinni. Ef fjölmiðlaflóran á Íslandi á að þurfa að þola það að engir megi fjárfesta í fjölmiðlum nema einhver smáfyrirtæki með tiltölulega litla veltu, eða einn fjölmiðlakóngur, blæs ekki byrlega. Þar kem ég aftur að því ákvæði sem ég nefndi fyrr í ræðu minni og sé ástæðu til að rifja aðeins betur upp. Það er Murdoch-ákvæðið í lögunum sem hefur verið túlkað þannig af hæstv. forsrh. að úthluta megi einstaklingi útvarpsleyfi og að 25% eignarhaldsákvæðið gildi ekki ef um einstakling er að ræða.

Þá breytist flóran. Þá breytast möguleikarnir svolítið. Einstaklingurinn sem við getum hugsað okkur að dytti í hug að það væri bara sniðugt að skella sér í fjölmiðlarekstur á Íslandi vegna þess að stjórnvöld væru búin að setja þannig reglur að alvörufyrirtæki gætu ekki keypt fjölmiðlana --- það væri því hægt að fá þá fyrir skít á priki --- gæti farið til þeirra sem núna ættu hjá Norðurljósum og sagt þeim hvaða upphæð hann treysti sér til að kaupa fyrirtækið á. Þeir yrðu að lúta því vegna þess að fyrirtækið mundi annars missa útvarpsleyfið og lenda í þrotum. Kannski lendir það reyndar í þrotum áður en það missir útvarpsleyfið vegna þess að fjármálastofnanirnar sem eiga þarna hlut að máli treysta sér ekki til að halda þessu áfram og vilja fá botn í sín mál sem allra fyrst.

Einkaaðili, einhver einstaklingur sem ætti nógu mikið undir sér og vildi leggja fjármuni í þetta og hafa það bara á sínu nafni, getur keypt fjölmiðlafyrirtæki. Ég hefði gjarnan viljað fá útskýringu á því og mér þykir mikill skaði að hér skuli ekki vera a.m.k. formaður allshn. til að svara spurningum þeirra þingmanna sem halda ræður. Ég spyr hæstv. forseta: Er formaður allshn. ekki í húsinu? Eða hæstv. menntmrh. eða (Gripið fram í: Forsrh.) hæstv. forsrh., aðalábyrgðarmaður málsins?

(Forseti (ÞBack): Forseti getur upplýst að formaður allshn. er staddur í húsinu, og forsrh.)

Ég vil biðja hæstv. forseta að láta hv. formann allshn. vita að ég hafi áhuga fyrir því að spyrja hann nokkurra spurninga. Ég óska eftir því að kallað verði í hann vegna þess að þetta er eitt af því sem ekki hefur verið upplýst með nægilega skýrum hætti hér við þessa umræðu. Ég vil gjarnan að í þetta fáist botn.

Hæstv. forsrh. leiðrétti mig við 1. umr. málsins þegar ég hafði lesið frv. sem hér liggur fyrir og hélt að þetta þýddi að það þyrfti ævilega að lágmarki fjóra til þess að eiga fjölmiðlafyrirtæki. Það stendur reyndar mjög skýrt í lagatextanum en svo kemur í ljós að í útvarpslögunum sjálfum er minnst á að það megi úthluta einstaklingi útvarpsleyfi. Hæstv. forsrh. leiðrétti mig með þetta og ég sé enga ástæðu til að þræta um það en þetta hlýtur að kalla á að menn gefi skýringar á því hvort menn telja það standast í raun og veru að gera með þeim hætti upp á milli einstaklings sem rekur fjölmiðlafyrirtæki og fyrirtækja sem reka fjölmiðlafyrirtæki.

Hæstv. forseti. Mér finnst líklegt að hv. formaður allshn. hafi ekki heyrt það sem ég fór yfir í ræðu minni áðan og ætla þess vegna að endurtaka það.

Ég óska eftir því að hér fáist skýr svör um það með hvaða hætti menn telja að eigi að rökstyðja það að einstaklingar geti fengið úthlutað útvarpsleyfi og að um þá, einstaklingana, skuli gilda aðrar reglur en um fyrirtækjahóp sem gerð er krafa um að verði til ef menn eigi að fá úthlutað útvarpsleyfi. Samkvæmt textanum sem hér er lagt til að verði að lögum er gert ráð fyrir því að ekkert fyrirtæki megi eiga meira en 25% í fjölmiðlafyrirtæki. 25% er hámarkið.

[22:30]

Það hefur hins vegar komið fram ... Hæstv. forseti. Ég vil vera viss um að hv. þingmaður heyri orð mín þannig að ég geri hlé á ræðu minni þangað til samtölum hefur lokið í salnum. (Gripið fram í: Þangað til ró hefur færst yfir hug hans.) Já, þangað til ró hefur færst yfir huga hv. þingmanns. Mér finnst þetta mikilvæg spurning. Mér finnst mikilvægt að fá að vita hvort menn telji það standast að einstaklingur geti fengið úthlutað útvarpsleyfi og hann geti þá keypt hömlulaust alla fjölmiðla á Íslandi, þ.e. í sjónvarpsrekstri eða útvarpi, því að á því séu þá engar kvaðir, hann þurfi ekki að hlíta 25% ákvæðinu sem um er að ræða. Ég vil kalla þessi ákvæði hvað varðar einstaklinginn Murdoch-ákvæði, þ.e. einstaklingur sem vill verða fjölmiðlakóngur á Íslandi og á nóga fjármuni getur sem sagt farið inn í þetta og er laus undan öllum hömlunum sem hv. þm. eru tilbúnir að setja á fyrirtækið. Hann má eiga 100% í fjölmiðlinum en fyrirtækin þurfa að sæta því að eiga 25%. Mér finnst þetta áhugavert. Ég hafði misskilið þetta en hæstv. forsrh. leiðrétti mig.

Ég bið um upplýsingar um það hvort menn hafi yfirfarið þetta atriði og hvort þeir séu sammála því að þetta standist í raun og veru jafnræðisákvæði. Þá eru einstaklingar sem taka þá ákvörðun að fara í fjölmiðlarekstur í raun og veru alls ekki undir sömu reglu settir og fyrirtækjahóparnir sem gerð er krafa um að verði til, að lágmarki fjögur fyrirtæki skulu það vera sem geta efnt til fjölmiðlareksturs.

Hæstv. forseti. Nú veit ég ekki hvað ég á að hafa þessa ræðu mína langa, hvort ég á kannski að geyma mér sumt af henni til seinni ræðu minnar við þessa umræðu. Mér er skapi næst að gera það en það er svo langt í frá að ég hafi lokið því sem ég hafði hugsað mér að tala um í þessari ræðu. Mér finnst skemmtilegra að sá mikli fjöldi þingmanna sem hefur fylgst með umræðunni fái nú að sjá breytilegri andlit en mitt hér. (SKK: Tala lengur.) Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson skorar á mig að tala lengur. Það er ekki vandi að verða við þeirri ósk. Ég hef hins vegar ákveðið að hafa ekki þessa ræðu lengri og ætla mér að geyma mér frekari ræðuhöld til síðari tíma í þessari umræðu, hæstv. forseti.