Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 22:36:54 (8035)

2004-05-12 22:36:54# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[22:36]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Ég hef orðað það svo að þetta hafi allt byrjað á bolludaginn vegna þess að hin mikla andstaða og óbeit hæstv. forsrh. á fyrirtækinu Baugi kom þá í ljós með mjög dramatískum hætti. Þá komu fram upplýsingar frá hæstv. forsrh. um að til hefði staðið að bera á hann fé til þess að hann léti fyrirtæki Baugs í friði. Bolludagurinn er mér minnisstæður vegna þessa og mér finnst að herferð hæstv. forsrh. gegn þessu fyrirtæki hafi hafist þá fyrir alvöru. Hún hefur staðið síðan. Síðan er sá endasprettur sem við stöndum hér frammi fyrir auðvitað einstæður þar sem lög á að setja á hv. Alþingi sem greinilegt er að er ætlað að knésetja þetta fyrirtæki.

Ég kann ekki ráð til að höggva að rót þessa vanda. Ég held að fylgismenn forsrh. og ríkisstjórnarinnar þurfi að halda á þeirri öxi sem verði notuð til þess.