Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 22:47:15 (8042)

2004-05-12 22:47:15# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[22:47]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hinum geðþekka Sandara og hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir einkar tilþrifamikla ræðu sem stóð hátt á annan klukkutíma. Hann má nú eiga það að hún var efnismeiri en margar fyrri ræður félaga hans úr Samf. sem haldnar hafa verið hér í þessari umræðu. (GAK: Hvar eru þínar ræður?) (Gripið fram í: Efnislegu.) (JBjarn: Hann kann ekki að ...)

Mig langar til að víkja að einu atriði í ræðu hv. þingmanns sem hann lagði mikið upp úr í upphafi hennar. Hann sagði að með þessu frv. væri verið að koma á ritskoðun á Íslandi. Mig langar til að biðja hv. þingmann að færa aðeins rök fyrir þeirri skoðun sinni. Það gerði hann ekki og ég sé þess ekki stað í frv. sem við erum að ræða að verið sé að koma á ritskoðun á Íslandi. Út á hvað gengur þetta frv.? Það gengur ekki út á það að banna hverjum sem er að reka dagblað og koma skoðunum sínum á framfæri þar, eða auglýsingum ef svo ber undir. Það er ekkert í þessu frv. sem bannar t.d. Samf. að endurvekja Þjóðviljann. Það er ekkert sem bannar fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að reka dagblað og reka allan þann áróður þar sem þeim sýnist. Það er ekkert í þessu frv. sem leggur þann stein í götu einhvers fyrirtækis eða einstaklinga að þeir geti ekki átt hlut í og rekið fjölmiðil. (Gripið fram í.) Hvað á hv. þm. með þegar hann heldur því fram að hér sé verið að koma á ritskoðun? Hvar finnur hann þess stað í því frv. sem við erum hér að ræða?