Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 22:50:57 (8044)

2004-05-12 22:50:57# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[22:50]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega það. Hv. þm. orðaði hugsanir sínar á rangan hátt. Það er ekki verið að koma á ritskoðun á Íslandi eins og hv. þm. hélt fram í ræðu sinni. Það er ekki verið að snerta prentréttinn (Gripið fram í: Nú?) heldur eða prentfrelsið. Alls ekki. Að sjálfsögðu ekki. Það er verið að setja ákveðin skilyrði fyrir því að fyrirtæki sem er í markaðsráðandi stöðu geti ráðið hér öllum fjölmiðlum og stjórnað lýðræðislegri umræðu. En það er ekki verið að leiða ritskoðun í lög. Það er fráleitt. (BjarnB: Skilyrði ... útvarpsleyfi.) Margt í þessari ræðu hv. þingmanns hefur hins vegar vakið athygli og þær rangfærslur sem hann hefur haft í frammi eru mjög sérstakar. Hér liggur sem sagt fyrir viðurkenning hans á því að ekki er verið að koma á ritskoðun á Íslandi, eins og hann hélt fram. Það liggur líka fyrir að hann lítur ekki á Fréttablaðið, sem heitir Fréttablaðið, sem fréttablað, heldur auglýsingablað. Allt er þetta að verða ansi öfugsnúið hjá hv. þingmanni. (Gripið fram í.)