Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:24:18 (8054)

2004-05-12 23:24:18# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:24]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Virðulegur forseti. Þótt tilgangurinn sé góður er aðferðin vitlaus. Einhvern veginn á þá leið talaði hv. þm. Þá verður hv. þm. líka að segja með hvaða hætti hann ætlar að ná þeim markmiðum, hinum góða tilgangi, sem hann tekur undir. Um það hefur ekki verið sagt eitt einasta orð. Hér er þó gerð tilraun til að fara að þeim leiðum.

Hér eru Norðurljós sérstaklega dregin inn. Ég veit ekki betur en að það sé yfirlýst markmið í framtíðinni að fara með það fyrirtæki á markað. Ég hef trú á því fyrirtæki vegna þess að þar er öflugt starfsfólk með öfluga dagskrárgerð. Ég hygg að frv. muni ekki á nokkurn hátt koma í veg fyrir það að fjárfestar sækist eftir því eða öðrum góðum fyrirtækjum. Það er rangt hjá hv. þingmanni að fyrirtækið geti einungis átt 5%. Það eru bara allra stærstu fyrirtækin. Flest fyrirtæki á Íslandi geta farið með allt að 25% eignaraðild inn í þessi fyrirtæki. Það veit hv. þingmaður.