Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 23:25:38 (8055)

2004-05-12 23:25:38# 130. lþ. 113.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[23:25]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég varð aldeilis undrandi þegar hv. þm. hóf ræðu sína og sagði eitthvað á þá leið að hann væri undrandi yfir þeim viðbrögðum sem frv. hefði fengið þar sem það hefði verið mjög vel undirbúið. Ég vil spyrja hv. þm. hver þessi góði undirbúningur sé.

Ég bið hann um að rökstyðja það og fara yfir það sem hann telur góð vinnubrögð. Var það undirbúningur að samningu frv.? Var það nefndarvinnan? Voru það umsagnirnar eða var það athugun á því hvaða áhrif þetta frv. hefði á fjölmiðlaumhverfið eins og það er í landinu í dag? Hvað af þessu telur hann að hafi verið vel unnið?