Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:08:29 (8074)

2004-05-13 10:08:29# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:08]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ekki mundi hv. þm. Pétur H. Blöndal fá háa einkunn á sagnfræðiprófi. Við höfum fundið að því, fulltrúar stjórnarandstöðunnar í efh.- og viðskn., hvernig hv. þm., formaður nefndarinnar, hefur reynt að stöðva umræðu um þetta mál. Hann hefur reynt að rífa málið vanreifað út úr efh.- og viðskn. en hefur ítrekað orðið undir í atkvæðagreiðslu í nefndinni. Hann segir að menn séu að ræða einhverja umsögn sem við vitum ekki hvar endi.

Það er mergurinn málsins. Málið er vanreifað.

Við teljum hins vegar ábyrgðarhluta að senda ekki frá okkur áfangayfirlit. Meiri hluti skapaðist í nefndinni í morgun við atkvæðagreiðslu um að það yrði gert en jafnframt haldið áfram umfjöllun í nefndinni. Mér finnst að þingið þurfi að taka það alvarlega þegar meiri hluti efh.- og viðskn. þingsins varar við afgreiðslu þessa máls, bendir á að það séu líkur á að það stangist á við stjórnarskrá landsins og hvetur til þess að málið verði tekið út af dagskrá, og haft til umfjöllunar í sumar og að nýju reifað á næsta hausti. Þetta er vilji meiri hluta efh.- og viðskn. þingsins. Ég vek athygli á því að þegar þessi niðurstaða lá fyrir reyndi formaður nefndarinnar að bera upp tillögu og gerði það, dagskrártillögu um að umfjöllun um málið yrði þá stöðvuð. Hann var einn um að greiða atkvæði með þeirri tillögu, eitt atkvæði gegn fimm í nefndinni.

Mér finnst að Alþingi þurfi að vita um þetta og þurfi að taka tillit til vilja meiri hluta efh.- og viðskn. þingsins.