Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:10:53 (8075)

2004-05-13 10:10:53# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:10]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Ég sat fund efh.- og viðskn. í morgun og það sem vekur furðu mína er að í öðru orðinu segir hv. formaður nefndarinnar nauðsynlegt að fá álit frá fulltrúum Kauphallarinnar til að fá úr því skorið hvort fyrirtækið Norðurljós eigi möguleika á því að komast á markað, ef brtt. nást í gegn, eður ei en í hinu orðinu segir hann nefndina vera tómt mengi og ekki til neins nýta eins og staðan er.

Ég vil bara vekja athygli á því að þetta er eina nefndin á hinu háa Alþingi sem er að fjalla um þetta mál. Enn hafa fulltrúar lífeyrissjóðanna sem eiga mikið undir í þessu máli ekki komið að einni eða neinni nefnd og enn hefur enginn fulltrúi frá Kauphöllinni komið og talað um málið við eina eða neina nefnd.

Það kom fram í ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar í gær að markmið þessa frv. væri að tryggja fjölbreytta eignaraðild í fjölmiðlun. Hann minntist á það að fyrirtæki gætu fengið skráningu í Kauphöll Íslands sem mundi tryggja fjölmiðlum í slíkum rekstri dreifða eignaraðild.

Í hinu orðinu segir fulltrúi frá Sambandi banka og verðbréfafyrirtækja: Kauphöllin setur ströng skilyrði fyrir skráningu í Kauphöll Íslands. Hömlur eins og þær sem þetta frv. ber með sér sem njörvar niður fjölmiðlafyrirtæki í landinu tryggja það, líklega, að fyrirtækið fái ekki skráningu í Kauphöll Íslands. Því er mjög þarft að efh.- og viðskn. fjalli áfram um málið og skili frá sér áfangaáliti á þessari stundu.