Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:17:31 (8078)

2004-05-13 10:17:31# 130. lþ. 114.91 fundur 555#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að þessar fréttir úr efh.- og viðskn. og þeir atburðir sem þar hafa verið að gerast í gær og í dag sýni hversu fráleit vinnubrögðin hafa verið, hversu fráleit afgreiðsla allshn. á málinu út úr nefnd var og í raun fráleitt hvað hefur haldið uppi umræðum um þessi mál meðan verið er að skoða það til hliðar í fagnefndum þingsins. Þaðan eru síðan að koma fréttir og nýjar upplýsingar um hluti af því tagi sem hér hefur verið tæpt á.

Það ber reyndar vel í veiði, herra forseti, að hæstv. viðskrh. skuli vera hér í salnum. Hvenær fáum við að heyra í hæstv. viðskrh. um afstöðu hennar til þessa máls? Hvað segir hæstv. viðskrh. um það sem efh.- og viðskn. hefur verið að skoða, að hér sé um þverbrot á samkeppnislögum að ræða, að þetta muni gjaldfella 6 milljarða skuldir fyrirtækisins og kippa undan því fótunum í einu vetfangi, einu af stærri fyrirtækjum landsins? Hvernig líður hæstv. viðskrh. þessa dagana? Er hún búin að segja af sér? Er hæstv. forsrh. líka orðinn viðskrh., eða formaður allshn.? Þetta er mjög sérkennilegt og maður bíður spenntur eftir því að hæstv. viðskrh. tjái sig um þessar hliðar málsins.

Ég segi fyrir mitt leyti, herra forseti, að ég vil fá þessar upplýsingar sem þingmaður í umræðum um þetta mál. Ég sit ekki í efh.- og viðskn. og á heimtingu á upplýsingum öðruvísi. Það stendur í þingsköpunum og stjórnarskránni að við eigum að hafa allar þær upplýsingar sem þörf krefur til að mynda okkur skoðun á málum, taka afstöðu hér og greiða atkvæði eftir samvisku okkar. Það á ekki að standa svona að hlutunum, það er alveg augljóst mál. Allshn. gerði réttast í því að bjarga leifunum af sóma sínum með því að biðja um að fá málið aftur, með því að biðja um að umræðunni yrði frestað og fá málið aftur til skoðunar. Gáfulegast væri auðvitað að verða við tilmælum meiri hluta efh.- og viðskn. um að afgreiða málið ekki í sumar en næstgáfulegast a.m.k. að skila framhaldsnefndaráliti og koma þessum upplýsingum á framfæri með formlegum hætti eins og allshn. ber skylda til að gera.