Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:29:04 (8084)

2004-05-13 10:29:04# 130. lþ. 114.94 fundur 558#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), KLM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:29]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Það kemur upp í huga við þessa umræðu það sem hér er að gerast og lýsing á því sem var að gerast í efh.- og viðskn. í morgun sem og í gær --- annað með hinn nýja meiri hluta sem þar hefur myndast en geymum það --- að fyrir áramót urðu átök í efh.- og viðskn. út af fjárlögum, þ.e. breytingu á vaxtabótakerfinu. Mér er það ákaflega minnisstætt vegna þess að ég sat þann fund sem varamaður þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson flutti, að mig minnir, dagskrártillögu um að vegna þeirra álitamála að málið bryti gegn ákvæði stjórnarskrár um afturvirkni yrði það skoðað frekar. Mér er ákaflega minnisstætt þegar formaður nefndarinnar, Pétur H. Blöndal, lýsti því yfir að stjórnarskráin skyldi njóta alls vafa. Það var ákaflega merkileg yfirlýsing. Þess vegna beitti hann sér fyrir því að nefndin óskaði eftir óháðu áliti lögfræðinga úti í bæ, að mig minnir Skúla Magnússonar og fleiri sem komu með það ...

(Forseti (BÁ): Hyggst hv. þm. ræða fundarstjórn forseta?)

Já, ég er að því. Ef ég má halda áfram ræðu minni mun ég bera fram ósk við forseta sem ég ætla að fá að koma að. Hún hefur svolítinn aðdraganda og vænti ég þess að þessu innskoti verði bætt við tíma minn.

Ég var kominn að því að lýsa því þegar þetta nefndarálit kom svo fram sem var á þann veg að stjórnarmeirihlutinn sá að sér og sá hvers konar vitleysu var verið að gera. Breytingunum á vaxtabótunum var því breytt aftur. Mér sýnist svipað vera að gerast nú. Hér berast okkur upplýsingar, okkur sem sitjum ekki í efh.- og viðskn., mjög alvarlegar upplýsingar sem við viljum fá að heyra.

Nú sný ég mér að því, virðulegi forseti, að fara fram á það að hæstv. forseti geri hlé á þessum fundi þannig að tóm skapist til að funda með forseta þingsins og formönnum þingflokka með tilliti til þeirra óska sem hér hafa komið fram. Ég tek undir ósk um að fundi verði frestað þangað til eftir hádegi þannig að öllum þingmönnum gefist kostur á að fara yfir þessi mál. Mér sýnist vera að koma fram enn þá meiri staðfesting í efh.- og viðskn. um að það frv. sem við ræðum hér sé skraddarasaumað utan um eitt fyrirtæki til að koma í veg fyrir að það megi vinna áfram að þessari endurskipulagningu og því sem hefur verið að gerast hjá Norðurljósum. Ef þetta hefur þær afleiðingar að fyrirtækið getur ekki sótt um skráningu í Kauphöll er þetta bein aðför að þessu fyrirtæki --- eins og við höfum alltaf talið en það eru sífellt að koma fleiri og fleiri sannanir.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að hlé verði gert á þessum fundi og efnt verði til fundar með formönnum þingflokka hjá forseta.