Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 10:35:36 (8087)

2004-05-13 10:35:36# 130. lþ. 114.94 fundur 558#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), EKG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Á undanförnum sólarhringum hafa hv. stjórnarandstæðingar rætt undir þessum geysivinsæla og sívinsæla dagskrárlið kröfuna um að svigrúm yrði gefið fyrir þær tvær þingnefndir sem fengu þetta frv. til umsagnar --- ekki álits --- frá hv. allshn.

Það var orðið við þessum kröfum. (Gripið fram í: Nei, nei.) Þessir fundir voru haldnir, málin voru rædd. Fyrir nefndina komu þeir aðilar sem eftir var kallað. Niðurstaða var fengin. Hið pólitíska mat hlaut síðan að koma í kjölfarið.

Það er nákvæmlega staðan núna og auðvitað er okkur ekkert að vanbúnaði að halda þessari umræðu áfram. Menn eiga að halda henni áfram.

Hver eru tíðindin miklu sem menn fluttu héðan úr nefndinni í morgun og létu eins og stórtíðindi hefðu átt sér stað? Jú, það gerðist að fimm þingmenn, sem allir með tölu höfðu margoft lýst því yfir að þeir væru andsnúnir þessu frv., skrifuðu það á blað að þeir væru andsnúnir þessu frv. Þetta eru gríðarleg tíðindi, þetta er söguleg stund. Þetta kallar á það að þingið endurskoði allar starfsáætlanir sínar. Það liggur sem sagt fyrir í skriflegu formi að fimm hv. þm. (Gripið fram í: Hvaða ..?) (Gripið fram í.) sem búnir voru að lýsa yfir andstöðu sinni við frv. eru búnir að gera það í skriflegu formi. Virðulegi forseti. Er verið að setja hér af stað enn einn farsann? Er það þetta sem menn ætla að gera að haldreipi sínu til að koma í veg fyrir að efnisleg umræða haldi áfram?

Virðulegi forseti. Má ég vekja athygli á því að það eru 25 eða 26 þingmenn sem hafa látið það í ljósi við hæstv. forseta að þeir vilji tjá sig um málið eins og það lá fyrir í gær? Ætla þeir hv. þm. sem hér hafa talað og eru með kröfur uppi um það að stöðva umræðuna að koma í veg fyrir að þeir hv. þm. sem voru algjörlega reiðubúnir og sáu ekkert því til fyrirstöðu að halda máli sínu áfram í gær fái orðið? Þeir koma til þess að geta rætt málin, látið í ljósi skoðanir sínar, skipst á skoðunum við okkur hina sem erum þeim andsnúnir, með aðrar skoðanir, og komið á framfæri (Gripið fram í.) sjónarmiðum sínum við þjóðina í gegnum Alþingi. Það er greinilega það sem vakir fyrir þingmönnunum með þessari umræðu hérna í dag, að koma í veg fyrir það.

Ég mótmæli harðlega þessum tilraunum til að koma í veg fyrir að hv. þm., 25 eða 26 talsins, fái orðið hérna til að þeir geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Þetta eru undarlegar aðfarir þegar dögum saman hefur verið uppi krafa um að þessar þingnefndir gætu hafið störf, og núna þegar þær hafa lokið störfum sínum --- og það var talað um að þetta yrði til að greiða fyrir umræðu hér í þinginu --- þegar búið er að verða við þessum kröfum er þetta notað til að reyna að koma í veg fyrir að þingið geti haldið áfram störfum sínum, unnið hér og haldið áfram umræðunni. Öllu er snúið á haus.