Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 14:18:22 (8098)

2004-05-13 14:18:22# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að við jafnaðarmenn höfum ítrekað flutt á þingi margvíslegar tillögur um að styrkja enn frekar samkeppnislögin, um að setja þar inn frekari skorður við hringamyndun, um auknar fjárveitingar til Samkeppnisstofnunar og þar fram eftir götunum, og auðvitað er sjálfsagt að nálgast fjölmiðlamarkaðinn undir sömu formerkjum, hæstv. forseti.

Það þýðir hins vegar ekki fyrir hv. þm. að skjóta sér undan ábyrgð sinni sem formaður allshn. og þykja fast að orði kveðið. Málið sem hér er fyrir er bara þess eðlis að það hlýtur að vera fast að orði kveðið, sérstaklega vegna þess að hv. þm. Bjarni Benediktsson ber ábyrgð á vinnubrögðum allshn. Ég hygg að þegar málið verði skoðað af öðrum aðilum á síðari stigum verði fátt ef nokkuð talið jafnforkastanlegt og málsmeðferðin í allshn. þar sem það er viðurkennt að mikilvæg svið í áhrifum frv., m.a. í Evrópuréttinum, hafi nær ekkert verið könnuð, þar sem því hefur verið hafnað að Lagastofnun Háskólans verði fengin til að vinna álit um hina lögfræðilegu hlið málsins, þar sem Lögmannafélaginu, sem hv. þm. Bjarni Benediktsson var félagi í síðast þegar ég vissi, þykir tíminn langt í frá nægur til að veita umsögn og þar fram eftir götunum.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson ber einn og óskoraður sem formaður allshn. fulla og tæmandi ábyrgð á þessum vinnubrögðum og ef þau reynast hafa verið jafnvond og slæm og ég hef hér haldið fram verður hann að axla á því pólitíska ábyrgð þegar þar að kemur.