Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 20:46:43 (8113)

2004-05-13 20:46:43# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[20:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég sat á skrifstofu minni, fylgdist með umræðum og var að blaða í skjölum þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson kvaddi sér hljóðs og mig rak í rogastans. Ég hafði ekki séð fréttir Stöðvar 2 í kvöld og varð undrandi að heyra af ummælum hæstv. forseta Alþingis. Þau eru alls ekki rétt. Ég hef beðið spenntur í nokkra daga eftir að fá að heyra í stjórnarliðum, að þeir kæmu í stólinn og héldu glæstar ræður og maður fengi tækifæri til að fara í andsvör við þá og eiga við þá heiðarleg orðaskipti, orðaskylmingar og fá að heyra sjónarmið þeirra og rökstuðning fyrir þessu makalausa frv. sem hér er til umræðu. Því miður hefur það ekki verið svo.

Stjórnarliðar hafa verið fámennir í þingsalnum undanfarna daga. Þeir hafa brillerað með fjarvistum. Þeir hafa kannski setið á skrifstofum sínum og fylgst með í gegnum sjónvarp, ég veit það ekki. Sennilega hafa þeir gert það og ég vona reyndar að þeir hafi gert það. En þeir hafa lítið verið í salnum og enn minna verið í ræðustólnum. Það er alveg á hreinu.

Við höfum orðið vitni að því að stjórnarliðar hafa fært sig niður eftir mælendaskránni. Ég hef áður sagt að ég tel að þetta sé með ráðum gert. Þeir reyna að láta líta út fyrir að þeir taki þátt í umræðunum í augum þeirra sem fylgjast með umræðum á Alþingi í sjónvarpinu. Þeir tryggja að skammstafanir sínar séu á skjánum þannig að fólk fái á tilfinninguna að þeir taki þátt í umræðum. En svo er því miður ekki, virðulegi forseti.

Ég þurfti sjálfur að færa mig til á mælendaskránni í fyrrakvöld eða gærkvöldi. --- Þetta eru orðnar svo langar umræður að maður ruglast auðveldlega á dögum. --- Ég þurfti að taka þátt í veislu með formönnum þingflokka með forseta ungverska þingsins. Ég varð því að fara úr salnum í nokkra klukkutíma og lét færa mig niður eftir listanum. Þegar ég kom til baka bað ég um að láta færa mig upp aftur en það var alveg ómögulegt. Á sama tíma sá maður stjórnarþingmenn rúlla niður eins og steina í fjallshlíð, niður eftir listanum allt kvöldið og langt fram á nótt. Enginn þeirra fór í ræðustól.

Mér finnst því bera í bakkafullan lækinn að hæstv. forseti Alþingis skuli notfæra sér einn af hinum hötuðu fjölmiðlum Baugsmiðlana svokölluðu til að koma skoðunum sínum á störfum þingsins á framfæri og vega að stjórnarandstöðunni úr launsátri. Auðvitað ætti hann að vera í salnum, taka þátt í umræðum og leyfa okkur heyra álit sitt úr ræðustól í staðinn fyrir að stunda þessi vinnubrögð. Þetta kom mér mjög á óvart. Mig rak í rogastans og hljóp því strax hingað út og kann því að vera svolítið andstuttur. Ég tel rétt að það komi fram að það er ekki verið að stunda málþóf. Ræðurnar hafa verið mjög málefnalegar, þær hafa fjallað um efnisatriði þessa mikilvæga máls og ég tel fullvíst að hér verði áfram málefnalegar ræður.