Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 21:03:46 (8121)

2004-05-13 21:03:46# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[21:03]

Magnús Þór Hafsteinsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég nýti nú seinna tækifæri mitt til að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta og vil byrja á að spyrjast fyrir um það. Það má vera að ég spyrji fávíslega en ég hef mér til afsökunar að ég er tiltölulega nýr á þingi. Mig langar að spyrja hæstv. forseta hvort það gildi einhverjar reglur um það hvernig þingmenn megi láta færa sig niður eftir mælendaskrá. Ég hef tekið þessa mælendaskrá mjög hátíðlega, þ.e. þegar ég skrái mig á mælendaskrá tel ég að það eigi að standa, að menn eigi að standa sína plikt og halda ræðu þegar að þeim kemur. Menn ættu hreinlega ekki að geta fært sig niður eins og þeir hafa verið að gera.

Það kom mér mjög á óvart þegar ég uppgötvaði það fyrir nokkrum dögum að þetta væri hægt þegar að ég varð vitni að því. Ég horfði agndofa upp á það hvernig þeir örfáu stjórnarþingmenn sem þó hafa skráð sig til máls rúlluðu niður listann eins og steinar í fjallshlíð, eins og ég sagði áðan.

Mér þætti vænt um að heyra frá hæstv. forseta hvort um það gildi einhverjar reglur, hvort þingmenn þurfi að tiltaka haldbærar ástæður fyrir því að láta færa sig niður eftir mælendalista. Ég hef gert þetta einu sinni, aðeins einu sinni á mínum ferli, og hafði mjög góða afsökun fyrir því. Ég þurfti að sinna skyldustörfum sem formaður þingflokks Frjálsl. En þetta þætti mér vænt um að fá upplýst.

Hitt er svo annað, að ég var að fá í hendur handrit af fréttinni á Stöð 2 í kvöld, eins og ég sagði áðan. Ég sá ekki þessa frétt en nú hef ég handritið fyrir framan mig og sé hvernig hún er upp byggð. Í sjálfu sér er ekkert út á hana að setja en ég sé að ég var jafnframt í viðtali og sagði að í ræðu minni --- sem ég er reyndar búinn að halda núna --- ætlaði ég að vitna í tvær góðar bækur.

(Forseti (BÁ): Ætlar hv. þm. að tala um fundarstjórn forseta eða ætlar hann að vitna í sjálfan sig í sjónvarpsfréttum?)

Nei, hann ætlar að tala um fundarstjórn forseta. Hann ætlar að tala um ummæli forseta varðandi ...

(Forseti (BÁ): Ummæli forseta í sjónvarpsfréttum eru ekki fundarstjórn forseta, hv. þm.)

Nei, er það ekki? Allt í lagi. Þá látum við þar við sitja og komum að því í seinni ræðu minni um þetta mál sem verður sennilega eftir fjóra daga ef svo fer fram sem horfir.

Ég vil hins vegar kalla eftir því, hæstv. forseti, hvort hér gildi einhverjar reglur. Mér finnst með ólíkindum að þingmenn geti fært sig niður eftir listum því að við hinir, aðrir þingmenn á hinu háa Alþingi, miðum störf okkar við að ákveðnar persónur ætli að tala í ákveðinni röð á þingfundum. Við reiknum t.d. með því að komast í andsvör við ákveðna þingmenn sem við viljum eiga skoðanaskipti við. (Gripið fram í.) Út á það gengur lýðræðið, hv. þm. Drífa Hjartardóttir. (Gripið fram í.) að þingmenn á hinu háa Alþingi eigi skoðanaskipti.

(Forseti (BÁ): Ekki tveggja manna tal hérna.)

Ef menn ætla að stunda slíkan leikaraskap finnst mér það alveg forkastanlegt, hæstv. forseti.