Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 21:12:48 (8125)

2004-05-13 21:12:48# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[21:12]

Sigurjón Þórðarson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hefði talið að það væri fremur til framdráttar fyrir störf þingsins að sýna meiri lipurð við stjórn fundanna. Hér liggja mörg mál fyrir, miklu fleiri en dagskrármálið sem nú er til umræðu, umrætt fjölmiðlafrumvarp. Ég hefði talið eðlilegt og fyrir bestu fyrir störf þingsins að taka málið af dagskrá, gera smáhlé á umræðu um það og ræða önnur mál sem liggja fyrir. Ég er sannfærður um að það mundi greiða fyrir þingstörfum.

Það var náttúrlega mjög ósvífið af hv. þm. Halldóri Blöndal, forseta Alþingis, að bera það á torg að stjórnarandstaðan héldi langar ræður til að hleypa ekki stjórnarsinnum að. Ég lýsi því yfir, svo að hv. þm. heyri, að ég er tilbúinn að hleypa öllum stjórnarliðum fram fyrir mig ef þeir kæra sig um.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. forseta, af því að mér finnst það eðlileg krafa, hvort við fáum að vita hvenær menn hyggjast ljúka þessum fundi. Mér finnst óvissan skapa óeðlilegt ástand. Hér starfar fólk sem á fjölskyldur og vill gera sínar áætlanir og komast heim til barna sinna. Ég hefði talið það miklu eðlilegri vinnubrögð en að standa í þrefi fram eftir nóttu og halda öllu í óvissu.

Mér finnst það í raun vera lítilsvirðing við þingið og þingstörfin að geta ekki sett fram einhverja áætlun. Menn gætu sagt til um hvort þingfundi ljúki á miðnætti, klukkan eitt eða tvö, þrjú, fjögur, fimm eða sex. Mér finnst það eðlileg krafa. Ég ætlast til þess að hæstv. forseti svari henni.