Útvarpslög og samkeppnislög

Fimmtudaginn 13. maí 2004, kl. 22:19:13 (8138)

2004-05-13 22:19:13# 130. lþ. 114.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 130. lþ.

[22:19]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu ræðu sem hér var flutt. Þótt ég viti að flokkar kunni því almennt ekki vel að einstaklingar dragi sig út úr hópnum, út úr liðsheildinni, og móti sér sína sjálfstæðu skoðun þá held ég engu að síður að sú ræða sem hér var flutt sýni okkur hve mikilvægt það getur verið fyrir málstað og málflutning að þingmenn geri svo þegar um grundvallaratriði er að ræða, að menn standi með samvisku sinni gagnvart grundvallaratriðum.

Hér er um grundvallaratriði að ræða. Við erum að tala um tjáningarfrelsið, atvinnufrelsið og eignarréttinn. Af því tel ég tjáningarfrelsið mikilvægast.

Það sem leiða á í lög í fyrsta sinn í sögu Íslands, að ég hygg, er að tilteknir aðilar megi ekki gefa út prentmiðla, að tilteknir aðilar megi ekki gefa út dagblað. Við mundum m.a. leiða það í lög ef þetta nær fram að ganga. Það er auðvitað atlaga að tjáningarfrelsinu. Það er þess vegna sem við stöndum hér og tölum.

Það er auðvitað ekki málþóf. Margir þingmenn og fjölmargir í samfélaginu eru skelfingu lostnir yfir því sem hér er að gerast. Vegna þess að umræðan fór ekki fram úti í samfélaginu og er ekki þroskuð úti í samfélaginu, hvorki í fjölmiðlunum, í flokkunum né í í samfélaginu, þá fer hún fram hér, virðulegur forseti. (Forseti hringir.)

Ég vildi koma þessu á framfæri og fá að þakka fyrir þessa ágætu ræðu.