Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 11:02:25 (8157)

2004-05-14 11:02:25# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tók eftir því áðan að hæstv. forsrh. var hér á gangi. Ég geri ráð fyrir að hann sé í húsinu og ég fagna því. Ég minni hæstv. forseta á að ég óskaði eftir viðveru hans í fyrri ræðu minni og reyndar einnig ráðherra Framsfl. og vildi gjarnan að forseti gerði gangskör að því að hæstv. forsrh. og t.d. hæstv. viðskrh. og hæstv. utanrrh. yrði gert viðvart um að ég hefði áhuga á að eiga við þá orðastað.

(Forseti (BÁ): Forseti mun koma þeim skilaboðum til viðkomandi ráðherra að hv. þm. hafi óskað eftir nærveru þeirra.)

Ég ætla ekki að flytja mjög langt mál, herra forseti. Ég vil aðeins bæta nokkrum atriðum við þá umfjöllun sem ég hafði um málið fyrir nokkru síðan. Ég hygg að það hafi verið á miðvikudagskvöldið sem ég flutti mína fyrri ræðu um málið og reyndar hefur ýmislegt áhugavert borið til síðan sem gaman væri að fara yfir. Það atriði m.a. sem ég ætla lítillega að nefna er sú umfjöllun sem af og til hefur blandast inn í umræðuna um samþjöppun á markaði almennt. Hv. þm. Hjálmar Árnason er einn örfárra stjórnarliða sem hefur tekið þátt í umræðunni hingað til því þeir hafa eins og kunnugt er fallið dálítið út af listanum. Það hefur verið mikið mannfall meðal stjórnarliða á mælendaskránni og þeir hafa færst niður eftir listanum og reyndar ekki margir verið á mælendaská, sem er athyglisvert. Engu að síður sá hæstv. forseti vor ástæðu til að kvarta undan því í fjölmiðlum að málflutningur og sjónarmið meiri hlutans hefðu lítt komist að í þessari umræðu. Þar er ekki við okkur að sakast, virðulegur forseti. Ástæðan er einfaldlega sú að meiri hlutinn á sér ákaflega fáa talsmenn hér og málflutningur af hans hálfu fyrir málinu hefur verið fátæklegur svo ekki sé meira sagt.

Ég verð að segja t.d. að ég sakna þess alveg sérstaklega að einhverjir af ráðherrum Framsfl. komi og geri grein fyrir stöðu flokksins gagnvart þessu máli. Það er auðvitað ekki við hæfi, virðulegi forseti, að við sitjum hér dögum saman og tölum yfir galtómum bekkjunum að þessu leyti. Ég tel t.d. að hæstv. viðskrh. eigi svo mikla aðild að málinu með bæði beinum og óbeinum hætti sem ráðherra í ríkisstjórninni sem það flytur, sem ráðherra viðskiptamála, að það sé algerlega ólíðandi annað en hæstv. ráðherra komi og geri grein fyrir viðhorfum sínum í þessum efnum.

Hæstv. ráðherra skuldar þinginu t.d. svör við umsögn Samkeppnisstofnunar við því sem hefur verið til skoðunar í efh.- og viðskn. og ég fer fram á að hæstv. viðskrh. verði gert viðvart og beðin að koma til umræðunnar þannig að hægt sé að leggja beinar spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Ég hyggst sömuleiðis leggja beinar spurningar fyrir hæstv. forsrh.

Formaður Framsfl., hæstv. utanrrh., ætti auðvitað líka að koma hér og gera grein fyrir viðhorfum þess flokks. Það fara af því nokkrar sögur að framsóknarmenn séu ákaflega blendnir í trúnni svo ekki sé fastar að orði kveðið í viðhorfum sínum til málsins og þess þá heldur að formaður flokksins komi og geri grein fyrir því hvernig hann réttlætir það að leggja að sínum mönnum að standa að málinu.

Hv. þm. Hjálmar Árnason hélt, eins og ég nefndi áður, gagnmerka ræðu og fór mikinn og útmálaði í sterkum litum þá miklu samþjöppun sem orðið hefði á ýmsum sviðum íslenskra viðskipta á undanförnum árum. Hv. þm. fann þessu flest til foráttu og taldi að það væri mál til komið að menn tækju á honum stóra sínum og gerðu gangskör að því að byrja að brjóta þessa miklu samþjöppun eitthvað á bak aftur. En hv. þm. láðist að geta um eitt í umræðunni um þessa samþjöppun í flutningum, í matvöruverslun, í fjármálaþjónustu, í lyfjaverslun og á mörgum fleiri sviðum þar sem við höfum séð fyrirtæki sem áður voru fjölmörg og kepptu á þessum markaði, renna saman í tvær, þrjár samsteypur. Hv. þm. Hjálmari Árnasyni láðist að geta þess að það hefur gerst í skjóli Framsfl., undir nefinu á hæstv. viðskrh. Valgerði Sverrisdóttur, þar áður Finni Ingólfssyni, án þess að þeir hæstv. ráðherrar hafi lyft litla fingri til þess að grípa þarna í taumana, án þess að þeir hafi lyft litla fingri og það er meira að segja öfugt. Hæstv. ráðherra hugðist einu sinni sameina banka sem Samkeppnisstofnun stöðvaði ráðherrann í. Ráðherrann ætlaði að beita sér fyrir samþjöppun í fjármálaþjónustu sem samkeppnisyfirvöld gripu inn í og stoppuðu þegar sameina átti tvo af stærstu viðskiptabönkum þjóðarinnar í almennum bankaviðskiptum, Búnaðarbankann og Landsbankann. Muna menn þetta? (Gripið fram í: Já, já.) Svo kemur hv. þm. Hjálmar Árnason hér og talar eins og að einhver ill öfl úti í þjóðfélaginu hafi staðið fyrir þeirri samþjöppun, Framsfl. sé blásaklaus í málinu og það er jafnvel látið að því liggja að við stjórnarandstæðingar séum sökudólgarnir og það gert að miklu máli að við skulum ekki styðja fjölmiðlafrv. eins og það er nú úr garði gert. Þetta er auðvitað, virðulegur forseti, alveg kostulegur málflutningur.

Það sem menn eiga að ræða og spurningin sem menn eiga að svara er hvort sú aðferð sem hér á að bjóða upp sé tæk, brúkleg. Ef við erum sammála um að menn hafi áhyggjur af samþjöppun og vilji taka á henni verður að fara að ræða leiðirnar. Og hefur mönnum í alvöru nokkurn tímann áður dottið í hug að ganga til verka með þessum hætti? Ég segi nei.

Ég minni á umræðurnar um kvótakerfið. Það á sér marga andstæðinga eins og kunnugt er og það eru bæði stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar og víða úti í samfélaginu er mikil andstaða við það. En fáum hefur dottið í hug að menn kæmu með frv. einn góðan veðurdag og gæfu tveggja ára aðlögunartíma að því að gjörbreyta eða rústa starfsgrundvelli fyrirtækja í sjávarútvegi. Fyrir hvað voru tillögur margra stjórnmálaflokka í aðdraganda síðustu alþingiskosninga á sviði sjávarútvegs gagnrýndar? Jú, fyrir það að allt of harkalega væri farið að fyrirtækjunum, þau hefðu ekki nógan aðlögunartíma að þeim breytingum, og voru menn þó, t.d. við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði, að tala um mjög langt tímabil, 20 ár sem menn tækju sér í að vinda ofan af því kerfi og innleiða nýja skipa mála. Af hverju 20 ár? Jú, af því að menn viðurkenna þrátt fyrir áhuga sinn á að breyta kerfinu, að fyrirtækin í dag hafa starfað í samræmi við lög eins og þau hafa verið undanfarin ár og það er ekki hægt að koma einn góðan veðurdag, þó að menn séu á móti fyrirkomulaginu við stjórn fiskveiða, að kippa því burtu sisona. Það dettur engum í hug. Það yrði hlegið að því ef einhver kæmi og segði: Tveggja ára aðlögun og svo bara burt með fyrirkomulagið. Af því að það gengur ekki, það er ekki hófsamleg nálgun að gerbreyta starfsumhverfi fyrirtækja með lögum þannig að það raski grundvelli þeirra fjárfestinga sem þau hafa ráðist í og jafnvel ónýti þær án þess að menn fái sanngjarna aðlögun að því, ekki nema þá að einhver slíkur þjóðarvoði sé fyrir dyrum að í þágu almannaheilla verði að gera slíka hluti, enda sé það þá vel rökstutt og komi bætur fyrir ef eignir manna eða réttindi eru skert þannig að það fær ekki staðist.

Auðvitað, herra forseti, ætti það ekki að þurfa að vera hlutskipti mitt sérstaklega að flytja þessa ræðu, formanns vinstri sinnaðasta flokksins í landinu sem einhver skyldi kannski halda að ætti ekki að þurfa að standa sérstaklega í því að benda á þessi grundvallaratriði. En úr því að aðrir gera það ekki, úr því að t.d. þingmenn Sjálfstfl. sitja hér eins og hlussur og enginn þeirra kemur upp og ræðir þessi grundvallarmál, þá verða einhverjir aðrir að gera það og ég hef aldrei litið svo til að þó að maður sé róttækur í skoðunum og vilji öflugt velferðarkerfi og samhjálp og samábyrgð í landinu, þurfi að þýða að maður sé andstæðingur atvinnulífsins. Það er ég ekki. Ég er af þeim skóla sem stundum hefur verið kallaður Norðfjarðarsósíalisminn, að menn eigi að þætta saman kjarabaráttuna, baráttu fyrir betri lífskjörum og öfluga uppbyggingu atvinnulífsins en gjarnan á félagslegum forsendum þannig að reynt sé að tryggja í gegnum uppbyggingu atvinnulífsins öryggi fyrir starfsfólkið, byggðarlögin sem auðvitað er ekki til að dreifa í því hráa kapítalíska kerfi, t.d. með frjálsu framsali veiðiheimilda, sem við búum við í sjávarútveginum í dag. Það er bara veruleikinn.

En hafandi sagt þetta, virðulegi forseti, dettur mér líka í hug að hv. þm. Hjálmar Árnason var að tala um samþjöppun og hafði miklar áhyggjur af henni. Við skulum segja sem svo að hæstv. ríkisstjórn, og ég held reyndar að það sé rétt að hæstv. forsrh. hafi ítrekað gefið um það merkin á undanförnum missirum að það sé ýmis þróun í gangi í viðskiptaheiminum sem honum hugnist ekki og hann vilji jafnvel reisa skorður við, og það má segja að angi af því sé þetta fjölmiðlafrv. burt séð frá útfærslu þess og innihaldi, hæstv. forsrh. hefur stundum talað harkalega til fjármálastofnana og stórfyrirtækja í landinu og beðið þau að gæta að sér og undirliggjandi eru væntanlega áhyggjur manna yfir því að menn kunni illa með nýfengið frelsi að fara og að það sé ískyggileg samþjöppun í gangi í viðskiptalífinu og fjármálaheiminum sem beri að gjalda varhuga við. En hvað er svo hæstv. ríkisstjórn að undirbúa? Hún er að undirbúa einkavæðingu Landssímans. Og ég hefði gjarnan viljað, virðulegur forseti, í fyrsta lagi að ég færi að fá fréttir af hæstv. ráðherrum sem ég hef óskað eftir að kæmu hér og í öðru lagi ...

(Forseti (BÁ): Til að svara þeirri spurningu hv. þm. get ég upplýst að forsrh. var gert viðvart um ósk þingmannsins og mér var tjáð að hann hygðist koma hingað þegar hann hefði lokið öðru verkefni í húsinu. Boð hafa einnig verið borin hæstv. viðskrh.)

Það er skínandi, virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda mjög langa ræðu en í lok hennar mun ég eindregið óska eftir því að þessir hæstv. ráðherrar verði komnir hér og ég geti lagt fyrir þá spurningar. En ég hefði líka viljað fá upplýsingar um hvort áform ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu Landssímans eða Símans standi óbreytt. Það skiptir máli líka í sambandi við þetta frv. því hvað hefur Landssíminn? Landssíminn á grunnnet fjarskiptanna í landinu, hann á breiðbandið, hann á ljósleiðarann, hann á koparlagnirnar og hann á örbylgjusamböndin. Landssíminn getur, ef svo ber undir, orðið einn stærsti miðill myndefnis í landinu og er það sumpart nú þegar. Þess vegna er hann í raun og veru angi af fjölmiðlaheiminum í þeim skilningi og getur orðið það í enn ríkari mæli á komandi árum með stafrænni tækni við miðlun myndefnis og með ýmsum möguleikum sem sífellt eru að þróast í þeim efnum.

[11:15]

Sjá menn það fyrir sér að einkavæddur Landssíminn t.d. renni saman við fjölmiðlafyrirtæki? Væri ekki ástæða til að spyrja ríkisstjórnina: Bíddu, hvað ætla menn sér í þessum efnum? Kannski ættum við ekki síður og jafnvel miklu frekar að vera að ræða um það hvernig við göngum frá aðgangi manna að þessum mikilvægu boðleiðum, ef menn verða svo vitlausir og ólánssamir að einkavæða Símann. Og hvernig tryggjum við þá að hann geti ekki skollið inn í þennan fákeppnisheim og jafnvel runnið saman við öfluga miðla sem þar eru fyrir? Nú er frv. hæstv. forsrh. þannig úr garð gert, og það er að mínu mati einn af stóru ágöllunum á því, að það gerir í raun og veru ráð fyrir þeim möguleika að samþjöppunin sé ótakmörkuð annars vegar á sviði ljósvakamiðlunar og hins vegar í dagblaðaútgáfu. Það er ekkert sem hindrar það að það verði bara tvö einkafyrirtæki. Annað gefi út öll dagblöðin og hitt sjái um allar útvarpssendingar. Og ef Landssíminn með dreifikerfi sínu væri kominn þar inn í myndina líka þá færi að kárna gamanið. Ríkisstjórnin er ekki að taka á þessu. Nei, hún kemur með þetta merkilega frv., meingallað eins og það er, sem miklar efasemdir eru auðvitað um að nái tilgangi sínum.

Svo er auðvitað svo miklu meira undir og meira í húfi jafnframt hvað varðar einkavæðingu Landssímans, herra forseti, og það ætti auðvitað að vera eitt af stóru málunum hér að ræða það og koma í veg fyrir að ríkisstjórnin haldi áfram með þau áform. Það liggur fyrir frv. um að stöðva áformin um einkavæðingu Landssímans. Það fæst ekki tekið fyrir. Virðulegur forseti hefur ekki séð sér fært að hafa það á dagskrá þannig að hægt sé að koma því áfram.

Lítillega um fyrirtækið Norðurljós, sem þetta frv. hittir auðvitað fyrst og fremst fyrir, þó að ég sé út af fyrir sig ekki í þeim hópi sem geri mikið veður út af því að þar með sé löggjöfin sértæk í þeim skilningi að hún sé sérstaklega sniðin að því að ná sér niðri á því eina fyrirtæki og hafi í sjálfu sé ekkert annað gildi. Hún hefði auðvitað almennt gildi, væntanlega svo lengi sem hún stæði, ef hún yrði sett. En það er engu að síður ljóst að hún hefði mikil áhrif á starfsumhverfi þess fyrirtækis og við skulum bara segja fjölmiðlaheiminn eins og hann er samansettur í dag. Þar hafa náttúrlega verið að koma fram, virðulegi forseti, hlutir, upplýsingar sem eru þess eðlis að maður á erfitt með að trúa því að menn ætli að láta sig hafa það að sulla málinu í gegn og gera það að lögum jafnvel í næstu viku, áður en betur hefur verið farið ofan í saumana á því t.d. hvernig rekstrarhorfur og tilvist þess fyrirtækis verður, jafnvel bara strax dagana eftir að frv. verður gert að lögum. Ég er að vísa til þess sem fram hefur komið og er ekki, held ég, um deilt að það verður engin leið að skrá það fyrirtæki í Kauphöll Íslands ef um það gilda þessi lög frekar en út af fyrir sig önnur fjölmiðlafyrirtæki sem væru í eitthvað sambærilegum aðstæðum og þyrftu að taka á sig slíkar kvaðir sem gera það að verkum að þau eru ekki skráningarhæf. Og maður spyr svona að því í framhjáhlaupi hvers á aumingja ræfils Kauphöllin að gjalda? Það hríðfækkar hjá henni fyrirtækjunum og sjávarútvegsfyrirtækin hafa tekið þaðan til fótanna hvert á fætur öðru. Menn forða sér út af markaðnum vegna þess að reynslan af því að vera á honum er svo slæm. Menn eru gleyptir upp jafnvel með óvinveittum yfirtökum og hvaðeina þannig að hvert fyrirtækið á fætur öðru hefur verið að forða sér þaðan út og nú á að búa svo um hnútana að það sé alveg útilokað að fjölmiðlafyrirtæki geti skráð sig þar. Þetta fyrirtæki hefur áform og áætlanir þess ganga út á það að fara inn á Verðbréfaþingið, fara inn í Kauphöllina á næstu missirum. Það liggur fyrir. Það er hluti af þeirri viðskiptaáætlun fyrirtækisins sem lá til grundvallar endurfjármögnun þess. Það er því algjörlega ljóst að löggjöfin kemur í veg fyrir þessi áform. Það er mjög sérkennilegt, satt best að segja, ef standa þarf þannig að málum, jafnvel þó að menn vilji setja reglur um dreifingu eignarhalds í fjölmiðlum, að það þýði sjálfkrafa að fyrirtæki sem var á leið inn í Kauphöllina komist þangað ekki. Og ef svo við bætast þau ósköp að lánasamningar fyrirtækisins upp á hátt í 6 milljarða kr. gjaldfalla, jafnvel stór lán sem ekki eru með veðum eða a.m.k. ekki veðum sem talið er að muni duga, þá er illt í efni, enda er þessi rekstur eðli málsins samkvæmt slíkur að veðin eru ekki mjög áþreifanleg. Veðin eru fyrst og fremst í viðskiptavildinni og í rekstrinum, í stöðu fyrirtækisins á markaði, í áhorfendahópnum og það er dálítið óáþreifanlegt, a.m.k. í landi þar sem mönnum er tamt að líta ekki á neitt sem almennileg veð nema steinsteypu. Þannig er nú staðan.

Ég ætla síðan, virðulegur forseti, að gera örlítið að umtalsefni leiðara Morgunblaðsins í dag. Það væri út af fyrir sig gaman að halda alveg sérstaka ræðu um Morgunblaðið af því að það er auðvitað hluti af fjölmiðlaheiminum líka og ræða hvernig fjölmiðlarnir hafa m.a. fjallað um fjölmiðlafrv. Ég hugsa að einhverja fræðimenn á þessu sviði hljóti að klæja dálítið í lófana að gera á því úttekt og velta því fyrir sér. Það hefur svo sem ekki farið fram hjá neinum að fjölmiðlar innan samsteypunnar Norðurljósa hafa auðvitað farið um frv. ómjúkum höndum og aðstandendur þess. Þeim er vissulega nokkur vorkunn og þeim starfsmönnum sem þar vinna eins og málum er háttað. Morgunblaðið hefur verið í hinu liðinu svo maður noti þær uppstillingar sem ýmsir gera, og það hefur heldur ekki leynt sér. Ég er ekkert að kvarta undan því að Morgunblaðið hafi ekki flutt fréttir nokkurn veginn eðlilega af þessu öllu saman o.s.frv. en þó hefur mér á köflum þótt umfjöllun Morgunblaðsins sérstök og þá alveg sérstaklega leiðaraskrif þar og leiðarinn í morgun er eiginlega kostuleg lesning. Það er hálfpartinn kvartað undan því, þó ekki mjög harkalega, að það hafi eiginlega ekki hafist efnisleg umræða um frv. sjálft. Það er spurt hér í leiðaranum, með leyfi forseta:

,,Það er hins vegar fullt tilefni til að spyrja hvenær raunverulegar efnislegar umræður hefjast um fjölmiðlafrumvarpið sjálft.``

Á hvað hefur Morgunblaðið verið að hlusta? Ekki á þá umræðu sem hér hefur farið fram. Svo kemur rúsínan í pylsuendanum því að Morgunblaðið, eins og stundum áður og væntanlega síðar í tilveru sinni, hefur ríka tilhneigingu til þess að trúa því að í raun og veru gefi það tóninn og síðan fylgi allir smátt og smátt á eftir. Morgunblaðið hefur ótrúlega tilhneigingu til að vitna í sjálft sig. Morgunblaðið sagði þetta, Morgunblaðið sagði hitt fyrir 10 eða 20 árum. Og hér er Morgunblaðið, virðulegi forseti, ég veit að forseti er líka áhugamaður um Morgunblaðið, gott ef hann er ekki að fletta því þarna í stólnum.

(Forseti (HBl): Ég er að reyna að finna það sem hv. þm. ...)

Þetta er leiðarinn, í miðopnunni, hann er venjulega þar. Svo kemur hér hjá Mogganum:

,,Að svo miklu leyti, sem hægt hefur verið að greina málefnalega afstöðu til þess [þ.e. frv.] á þeim tíma, sem liðinn er frá því að það var lagt fram er nokkuð ljóst, að allir þingflokkar á Alþingi eru orðnir sammála um að rétt sé að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum.`` --- Nú? Svo kemur: ,,Blaðamannafélagið er sammála því. Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, en það fyrirtæki er aðaleigandi Norðurljósa, er sammála því. Hann telur eðlilegt að settar séu reglur en vill miða þær við að hlutur markaðsráðandi fyrirtækis á öðru sviði í ljósvakamiðli megi vera 25%. Stjórnarflokkarnir telja að hámarkið eigi að vera 5%. Stjórnarflokkarnir og talsmaður Baugs eru sammála um það grundvallaratriði að setja eigi reglur en 20 prósentustig skilja á milli varðandi leyfilegan eignarhlut.``

Þetta er alveg kostulegt hjá Mogganum. Sem sagt, það eru allir orðnir sammála Mogganum, allir stjórnmálaflokkar, Blaðamannafélagið, Baugur, þetta snýst bara um prósentuágreining. Það eru þarna 20 prósentustig á milli. Þetta eru fínar æfingar. Ég óska Mogganum innilega til hamingju með þetta. Þeir hefðu fengið háa einkunn í loftfimleikum ef það væri til sem keppnisgrein og ég væri dómarinn. Ég vil hins vegar gjarnan spyrja Morgunblaðið af því að það er ágætt að talast á við það, og svo kem ég með spurningarnar til hæstv. forsrh. sem ég sé að er hér á vappi. Er Morgunblaðið ekki bara sammála frv. efnislega? Er það líka sammála vinnubrögðunum? Styður Morgunblaðið að þetta mál verði keyrt í gegn á næstu sólarhringum og gert að lögum? Ef umræðan sem Morgunblaðið saknar er mikilvæg, eigum við þá ekki að leyfa henni að fara fram, bæði innan þings og utan? Eigum við ekki að leyfa víðtæka umfjöllun um málið í vor, í sumar og í haust og á Alþingi aftur fram að áramótum t.d.? Þá væri orðinn sómi að og hægt að segja að menn hefðu kallast á um þessa hluti, við á þinginu, fjölmiðlarnir, almenningur úti í þjóðfélaginu og allir sem áhuga, vilja og skoðanir hafa á þessum hlutum. Ég held að Morgunblaðið ætti þá líka að svara því. Er það ekki bara að skrifa efnislega upp á frv. eins og það er óbreytt, eða því sem næst jafnvel þó að breytingartillögur meiri hlutans komi fram, heldur líka aðferðirnar sem notaðar eru við lagasetninguna? Það verður fróðlegt að fá svar Morgunblaðsins, sjálfsagt í næsta leiðara eða Reykjavíkurbréfi, við þeirri spurningu.

Svo vil ég í lokin vegna orðaskipta minna við Morgunblaðið af því að það er að tala hér um að flokkarnir þurfi að lýsa afstöðu sinni og það hafi helst verið hægt að ráða að einhverju leyti í afstöðu Samf., en það er helst á Mogganum að skilja að þeir séu litlu nær um viðhorf annarra. Ég mótmæli því a.m.k. fyrir mína hönd og minna að við höfum ekki gert skýra grein fyrir meginafstöðu okkar í þessum efnum. Morgunblaðið veit það vel og hefur reyndar áður nefnt hana í leiðara og skrifum, gott ef ekki hrósað okkur, sem við tökum auðvitað alltaf á móti með svona blendnum huga, vinstri menn, þegar Mogginn fer að hrósa okkur. Einu sinni var það haft sem mælikvarði á að þá þyrftu menn að fara að gá að sér ef þeir fengu hrós í Morgunblaðinu og öfugt. Ég býst við að hörðum hægri mönnum hafi ekki þótt það neitt sérstaklega eftirsóknarvert að fá hrós í Þjóðviljanum sáluga.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lýst því yfir að við erum ekki andvíg því að sett verði lög sem eigi að ná fram þeim markmiðum að tryggja fjölbreytta, óháða, sjálfstæða og öfluga fjölmiðlun. En við höfum sagt að það verði að skoða þá lagasetningu mjög vandlega í ljósi aðstæðna á okkar litla markaði og þegar menn setja þær reglur verður sú gjörð að standast allar kröfur til góðrar stjórnsýslu og lagasetningar. Auðvitað. Nema hvað? Það verður að gæta hófs í því hvernig þær reglur koma við starfandi aðila. Það verður að uppfylla svonefnda meðalhófsreglu. Það er ekki gert með þessu, það er út í hafsauga að halda því fram að skella slíkum hlutum á og gefa mönnum í raun og veru ekki einu sinni tveggja ára aðlögun, vegna þess að það má til sanns vegar færa að það sé engin aðlögun fólgin í því að skella þessum lögum fram og þau hafa áhrif strax daginn eftir. Þau eru reyndar þegar farin að hafa áhrif, bara hótunin um að lögin verði sett.

Í öðru lagi höfum við sagt og tökum þar undir með megintillögu skýrsluhöfundanna, skýrsluhöfunda í tillögum til menntmrh. um að efla Ríkisútvapið og auka sjálfstæði þess.

Við höfum í þriðja lagi sagt að við viljum hafa almenna löggjöf sem tryggir upplýsingalöggjöf um eignarhald fjölmiðla, ekki svona sem eingöngu tekur til ljósvakanna. Ég tel að þarna eigi að koma líka inn ákvæði um upplýsingaskyldu dagblaðaútgefenda og jafnvel stærstu tímaritaútgefenda um eignarhald sitt þannig að öll meginsvið fjölmiðlunar séu undir það sama sett. Þetta mætti gera með því að bæta einföldu ákvæði inn í samkeppnislögin sem hér eru opnuð upp, að Samkeppnisstofnun yrði gert að halda skrá sem væri opin og öllum aðgengileg þar sem vissulega væru lagðar viðbótarkvaðir á þessi fyrirtæki umfram önnur í landinu. Þetta gengi lengra að hlutafélagalögum, að upplýsa sérstaklega og reglulega um eignarhald og stjórnun fyrirtækjanna þannig að hvort tveggja lægi alltaf fyrir og breytingar væru tilkynningaskyldar. Þetta skiptir miklu máli. Þetta væri aðferð sem gagnaðist í þeirri viðleitni að hafa þennan heim gagnsæjan og auðvelda almenningi að átta sig á því hver ætti hvern og gagnvart hverju menn þyrftu að vera á verði í sambandi við að ekki væru einhver annarleg eða óeðlileg tengsl á milli umfjöllunar í fjölmiðlum og annarra hagsmuna sem auðvitað er full ástæða til að vera vakandi gagnvart, virðulegur forseti.

Þá er að því komið að ég ætli að fara að standa við loforðin og ljúka máli mínu og bið þá endilega um að hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. komi í salinn. Ég ætla að leggja fyrir hæstv. ráðherra spurningar, virðulegi forseti, ef hægt væri að greiða úr því.

(Forseti (GÁS): Nú er það svo að hæstv. viðskrh. er ekki í húsinu en það er búið að færa henni boð. Hæstv. forsrh. er í húsinu og mun forseti freista þess að koma þessum skilaboðum til hans nú þegar.)

Jú, jú. Mér er ekkert að vanbúnaði að bíða hér smástund, doka við, virðulegur forseti, það hefur áður verið gert. Ég vona að ég þurfi ekki að standa hér þögull 29 mínútur eins og mig minnir að sé metið. Ég held að það hafi átt hv. fyrrv. þm. Hreggviður nokkur Jónsson. Hann hélt einhverja lengstu þögulu ræðu þingsögunnar, en þetta ætti ekki að taka nema andartak ef hæstv. forsrh. er á næstu grösum eins og stundum er sagt eða næstu teppum. Forseti má mín vegna fresta fundinum og ég get gert hlé á ræðu minni ef ástandið er þannig.

(Forseti (GÁS): Fer ekki ágætlega um okkur hér?)

Það gerir það, vissulega.

(Forseti (GÁS): Það eru nokkrar mínútur í þetta.)

Svo eru menn út af fyrir sig sjálfsagt tilbúnir að fá sér smákaffihlé. (Gripið fram í: Má færa þingmanninum kaffi?) Nei, nei, hér er öndvegisdrykkur í pontu, blávatnið.

(Forseti (GÁS): Nú fór í verra. Hæstv. forsrh. er í húsinu en er lokaður inni á mikilvægum fundi og kemst ekki til umræðna akkúrat í þessum töluðu orðum.)

Ég mundi þá helst vilja gera hlé á ræðu minni. Ég hef engan áhuga á því að vera að kreista upp úr mér eitthvað sem ekki á erindi inn í umræðuna. Ég hef nokkurn veginn lokið máli mínu og átti ekkert eftir nema þær spurningar sem ég ætlaði að leggja fyrir hæstv. forsrh. Ég er auðvitað í og með að þessu til að sýna að þessi umræða á að fara fram með eðlilegum hætti, herra forseti. Það á ekkert að líða ráðherrum sem bera fram mál, þótt stórir séu og miklir, að vera ekki hér að sinna skyldum sínum, hlusta á umræðuna, taka niður spurningar og svara þeim. Það er ósköp einfaldlega þingvenjan hér og hefðin og helguð af áratuga samskiptum okkar þingmanna og ráðherra sem fara með framkvæmdarvaldið. Hér stendur a.m.k. einn þingmaður sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er.