Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 11:54:12 (8171)

2004-05-14 11:54:12# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Magnús Þór Hafsteinsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að hefja mál mitt á því að beina spurningu til hæstv. forseta til að það sé engum vafa undirorpið: Skildi ég það rétt að hann áliti svo að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði lokið annarri ræðu sinni áðan?

(Forseti (GÁS): Nei, nei. Hann gerði hlé á ræðu sinni og á eftir síðari hluta ræðu sinnar.)

Þá er það alveg á hreinu. Gott og vel. Ég vil bara taka undir þær óskir, hæstv. forseti, um að hlé verði gert á fundinum þannig að formönnum þingflokka gefist færi á að funda með forseta um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp á hinu háa Alþingi, hvernig svo sem menn vilja fara að því, hvort nú verði tekið matarhlé eða hvort það verði gert með öðrum hætti.

Mér finnst það hafa verið stórundarlegt, hæstv. forseti, að ráðherrar ríkisstjórnarinnar skuli nánast hafa verið fjarverandi allan þann langa tíma sem umræðan hefur farið fram. Og nú loksins þegar fram kemur mjög eindregin ósk um það að einhver úr ríkisstjórninni, og í þessu tilfelli hæstv. forsrh., sé til staðar til að svara spurningum, að ekki sé minnst á hæstv. viðskrh., hlýtur það að vera eðlileg fundarstjórn að gert verði hlé á þingfundi þannig að ráðherrum verði gert kleift að koma hingað og sinna skyldum sínum.

Ég hef í sjálfu sér fullan skilning á því, jafnalvarlegt og ástandið er núna í þjóðfélaginu í kringum þessi mál, að hæstv. forsrh. sé kannski fastur einhvers staðar á mikilvægum fundi, menn hafa fundað af minna tilefni en því sem nú er uppi. En enn og aftur, hæstv. forseti, ég óska þess eindregið að nú verði gert hlé á fundinum.