Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 12:14:09 (8178)

2004-05-14 12:14:09# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[12:14]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hefur flutt hér málefnalega og góða ræðu sem ég þakka honum fyrir. Hann krafðist þess að ráðherra kæmi á fundinn. Ég gat þess í umræðu um stjórn fundarins sem var í miðri ræðu þingmannsins að ég teldi að það væri formaður nefndar sem ætti að vera hérna til andsvara því að við erum að ræða breytingar nefndarinnar. (Gripið fram í: Hvar er hann?)

Síðan sagði hann að ráðherrar bæru ábyrgð. Þeir bera vissulega ábyrgð. En þeir bera ábyrgð á framkvæmd samþykktra laga frá Alþingi. Þeir bera ekki ábyrgð á frumvörpum sem eru til umfjöllunar á Alþingi. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að blanda því ekki saman. Ég vil nefnilega hafa eitthvað um lögin að segja sjálfur sem þingmaður.

En það var annað. Hv. þm. hélt fram í ræðu sinni að frumvarpið kæmi í veg fyrir skráningu félaga í Kauphöll. Í eljusamri vinnu hv. efnahags- og viðskiptanefndar sem hefur rætt málið á hverjum einasta degi síðan á föstudag, það er sex sinnum, kom fram hjá framkvæmdastjóra Kauphallar að ekkert í frumvarpinu eða breytingartillögum komi í veg fyrir skráningu í Kauphöll eitt sér. Auðvitað þarf að uppfylla önnur skilyrði um fjölda hluthafa og annað slíkt og hlutafé. En ekkert í þessu frumvarpi eða í breytingartillögunum kemur í veg fyrir skráningu.