Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 12:21:59 (8182)

2004-05-14 12:21:59# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Kristján L. Möller (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil aðeins beina orðum og spurningum til hæstv. forseta vegna þess að hér hafa margir þingmenn stjórnarandstöðu beðið í þingsal eftir ræðu næsta ræðumanns sem var klukkan 11.04 á mælendaskrá, hv. þm. Jónínu Bjartmarz. Nú hef ég tekið eftir því að hv. þm. Jónína Bjartmarz er ekki næst á mælendaskrá. Því vil ég spyrja hæstv. forseta hvort hún hafi óskað eftir því að láta færa sig neðar á skrána, bara til að spara mér aðra ferð upp, eða hvort hún er hreinlega komin alveg út af mælendaskrá í þessu máli. Þetta er ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, vegna þess að margir þingmenn hafa beðið spenntir eftir að hv. þm. Jónína Bjartmarz taki til máls, bæði til að hlusta á röksemdir hennar fyrir þessu máli og eins til að geta spurt hana út úr í andsvörum.

Sú sögulega stund átti einmitt að renna upp á þessu augnabliki að annar þingmaður Framsfl. tæki til máls. Hún átti að verða annar þingmaðurinn fyrir hönd Framsfl. til að ræða um þetta mál. Reyndin er sú að aðeins einn þingmaður Framsfl. hefur hingað til, Hjálmar Árnason, flutt ræðu við 2. umr. Það var hálftímaræða sem var ekkert annað en endurtekning á ræðu sem hann flutti við 1. umr. og var mest gagnrýni á hæstv. ríkisstjórn fyrir að sitja aðgerðalaus meðan samþjöppun á vinnumarkaði og annað slíkt ætti sér stað. Hann var með skammir til annarra en ráðherra viðskiptamála og því er spurning mín ... (Forseti hringir.)