Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 15:30:49 (8190)

2004-05-14 15:30:49# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Það getur vel verið að ég sé heimskur og skilji ekki hv. þm. eða misskilji hann. Það getur vel verið að umræða mín um RÚV sé undarleg en ég ætla að biðja hv. þm. að hlífa mér við því að tala svona til mín. Hann getur verið kurteis og sagt að ég hafi aðra skoðun á þessu. En að segja að ég misskilji hlutina og umræða mín um RÚV sé undarleg, ég vil helst ekki heyra talað þannig niður til mín.

Það hefur gerst á fjölmiðlamarkaði á Íslandi að einn aðili keypti mjög stóra samsteypu í nóvember. Hann átti fyrir fyrirtæki á sviðinu og þróunin er óskaplega hröð. (JÁ: Hann keypti ekki 40% heldur innan við 30%.) Hann keypti mjög stóran hlut í þeim fjölmiðlum og mikil áhrif, mikil skoðanamyndandi áhrif. (Gripið fram í.) Í viðtali við framkvæmdastjóra Skjás 1 kom fram að hann heldur að hann haldi út í eitt eða tvö ár í baráttu við þetta endalausa fé sem dælt er inn í Stöð 2, sem hefur lækkað auglýsingaverð á markaðnum og m.a. valdið hinu fræga RÚV miklum búsifjum. (MÁ: Það er alveg öfugt.) Þannig mun það væntanlega gerast að Skjár 1 leggi upp laupana innan eins eða tveggja ára og þróunin er mjög hröð. Mjög hröð. (Gripið fram í.)

Nú er spurningin, frú forseti, til hv. þm.: Telur hann að þetta sé allt í lagi? Telur hann að upp gæti komið staða eins og á Ítalíu með Berlusconi, að aðili geti keypt svo mikil og skoðanamyndandi áhrif í fjölmiðlum? Segjum að honum takist enn betur upp og kæmi Morgunblaðinu á kné o.s.frv. Telur hann að ef sá aðili kæmist til valda í ríkisstjórn með einhverjum hætti, í gegnum ákveðinn flokk sem hann styrkti, réði RÚV líka? Hver væri staðan þá?