Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 16:23:47 (8199)

2004-05-14 16:23:47# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[16:23]

Þuríður Backman (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir góð orð í minn garð en ég tel að flestar ræður sem fluttar hafa verið í málinu hafi verið góðar og margar mjög góðar og efnismiklar.

Til að eiga möguleika á því sem hv. þm. kallar eftir, skoðanaskiptum, hefur vantað í umræðuna möguleika okkar í stjórnarandstöðunni, að hafa skoðanaskipti við stjórnarþingmenn til að fara yfir frumvarpið. Þeir hafa hreinlega ekki verið í salnum til að þá óska eftir því að komast á mælendaskrá og hafa ekki tekið þátt í umræðunni. Við höfum ekki múlbundið stjórnarliða frammi á gangi þannig að þeir hafi ekki komist inn í salinn til að rétta upp hönd og biðja um orðið. Þeir hafa ekki verið hér í umræðunni með okkur til að fá fram skoðanaskipti, sem eru afar nauðsynleg.

Mér finnst það sárara en tárum tekur að fara með þetta frv. í gegn þegar ljóst er, eins og hv. þm. sem einnig stóð að þeirri þáltill. sem vísað hefur til, að allir eru tilbúnir fara í þessa vinnu. Þetta er ekki eins manns verk. Þetta er verk okkar allra. Við eigum ekki að þurfa að bjarga því sem bjargað verður. Við eigum að standa saman að frv. sem við getum verið nokkuð sátt við. Við eigum að standa þannig að því að það titri ekki allt í samfélaginu og rekstrarumhverfi og atvinna margra sé í húfi þegar engin ástæða er til.

Ég vil benda á, hæstv. forseti, að það er mikill munur á því hvernig skýrslan var unnin, sem að hluta er lögð til grundvallar frv., og þeirri tillögu sem hv. þm. stóð að.