Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:21:49 (8206)

2004-05-14 17:21:49# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:21]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Sama hversu lengi hv. þm. talar þá getur hann ekki breitt yfir þá staðreynd að frumvarp það sem hann mælir hér með er strangasta fjölmiðlalöggjöf á Vesturlöndum og mundi leiða til þess að öll helstu fjölmiðlafyrirtæki Þýskalands og Bandaríkjanna þyrfti að leysa upp. Það er nú einfaldlega staðreynd málsins.

Vegna þess að hv. þm. talaði í ræðu sinni um gagnsæi og nauðsyn þess að menn viti hverjir eigi m.a. fjölmiðlana og dylgjaði hér um fjárhagsleg tengsl forseta Íslands og Norðurljósa þá vil ég spyrja hvort sömu siðferðissjónarmið gildi ekki um fjármál stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka eins og Sjálfstæðisflokksins og hvort það hljóti ekki að vera fyrr á dagskránni að setja lög um að stjórnmálaflokkar séu skyldugir til að upplýsa um hverjir fjármagna þá og hafa þannig áhrif á athafnir þeirra á Alþingi og á vettvangi ríkisstjórnar.