Útvarpslög og samkeppnislög

Föstudaginn 14. maí 2004, kl. 17:35:31 (8217)

2004-05-14 17:35:31# 130. lþ. 115.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 130. lþ.

[17:35]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það tekur örugglega langan tíma að svara öllum þeim spurningum sem hv. þm. Ögmundur Jónasson beindi til mín. Ég man nú ekki eftir neinni en það var svona verið að reyna að útskýra það af hverju Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er búin að taka U-beygju í málinu. Segjum bara að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi rétt fyrir sér að þessi leið hafi verið einhvern veginn þannig að ekki sé hægt að taka umræðuna og koma með tillögur til úrbóta. Virðulegi forseti. Ég vitna aftur hér í SPRON-lögin. Halda menn ekki að það hafi verið hægt að þvæla því fram og til baka hvaða leiðir menn færu þar? Þar var einbeittur vilji hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og vinstri grænum og þeir fóru sínu fram. En á þeim langa tíma sem er svo sannarlega búið að taka í þessa umræðu hafa vinstri grænir verið að reyna að finna flóttaleið í málinu þannig að þeir þurfi ekki að axla neina ábyrgð í því mikilvæga máli. Það liggur fyrir.