Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 10:39:06 (8221)

2004-05-15 10:39:06# 130. lþ. 116.91 fundur 567#B ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það svo að það ríkir mikil spenna í þeirri umræðu sem hér hefur staðið dögum saman. Menn verða samt að gæta sín á því að láta ekki taugakerfið, sem hugsanlega kunni að vera að bila, bresta með þeim hætti sem við sáum í fjölmiðlum í gær. Það var með ólíkindum að hlýða á orðbragð hæstv. forsrh. Ég tel að hann hafi talað með þeim hætti að það sé til vansa fyrir þingið. Ég tel að það sé ekki hægt af nokkrum alþingismanni að ráðast með þeim hætti á forseta lýðveldisins eins og hæstv. forsrh. gerði í gær. Og ég tel að til þess að stilla þessi mál og lægja þessar öldur væri hæstv. forsrh. sæmst að biðja þjóðhöfðingjann afsökunar.

Við lendum oft í pólitísku skaki, alþingismenn, en eitt er það sem við höfum aldrei gert og aldrei farið yfir þau mörk, fjölskyldur okkar eru friðhelgar, börn okkar eru friðhelg. Menn tala ekki um börn alþingismanna og stjórnmálamanna og draga þau inn í umræðu eins og hæstv. forsrh. gerði í gær.

Það verður líka að vekja eftirtekt á því að það var eins og forsrh. skildi ekki grundvallarreglur í stjórnskipan okkar. Má ég rifja upp það sem Ólafur Jóhannesson sagði: ,,Forseti er aldrei vanhæfur. Hann er hluti af lagasetningarvaldinu.``

Það er líka eftirtektarvert að við höfum verið að ræða málið á þeim grundvelli að það væri almenn löggjöf. Hæstv. forsrh. tekur málið upp með þeim hætti að forseti lýðveldisins sé vanhæfur vegna þess að hann hafi ákveðin tengsl við tiltekið fyrirtæki. Ég spyr þá: Er þetta þá eftir allt saman sértæk löggjöf sem beinist að einu tilteknu fyrirtæki?