Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 11:32:24 (8225)

2004-05-15 11:32:24# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins varðandi tjáningarfrelsið. Ég benti á það hér áðan í ræðustólnum að allir lögfræðingar sem leiddir hafa verið fram til þess að fjalla um þetta mál hafa bent á að það orki mjög tvímælis að þetta frumvarp standist íslensk stjórnarskipunarlög og þeir hafa allir bent á tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar í því sambandi.

Ég hef beðið um það að menn leiddu fram hér einhvern lögfræðing, einhvern sérfræðing í stjórnskipunarrétti sem gæti sagt það við þingið að hann teldi engan vafa leika á því að þetta stæðist íslensku stjórnarskrána. Það hefur enginn slíkur verið leiddur fram, enginn. Ég bíð bara og ég kalla enn eftir einhverju nafni á einhverjum lögfræðingi, einhverjum sérfræðingi í stjórnskipunarrétti sem getur sagt okkur það.

Og það er það sem skiptir máli, það er íslenska stjórnarskráin og hvort lög sem við erum að setja standast hana eða ekki.

Nú hafa menn svo sem sett lög í öðrum löndum um fjölmiðla og talið að sú löggjöf stæðist stjórnarskrá þeirra ríkja. En þá vil ég líka benda á það að hvergi hafa menn leitt í lög jafnströng ákvæði og verið er að gera hér með jafnmiklum takmörkunum eins og hér er verið að gera. Það er auðvitað það sem menn komast ekki fram hjá.

Aðeins varðandi forsrh. og gagnrýni mína á hann. Ég hef gagnrýnt forsrh. harkalega. Ég hef gagnrýnt hann mjög harkalega fyrir meðferð hans á valdi. Ég hef gert það með ákveðnum rökstuðningi og ég held, virðulegur forseti, að það blandist engum hugur um það núna eftir atburðarás undanfarinna daga að sú gagnrýni mín var réttmæt.