Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 12:09:42 (8231)

2004-05-15 12:09:42# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[12:09]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvort það er páfanum að þakka eða mér að hæstv. ráðherra hefur náð ró sinni og stillingu aftur. Ég alla vega þakka fyrir það. Hann talar um að einhver vilji sé að tala um að forsetinn sé brúarsmiður. Það hefur enginn talað um þetta. Það er ekki nokkur maður sem hefur fært þetta inn í umræðuna nema hæstv. forsætisráðherra. Hann gerði það í gær. Enginn þingmaður annar hefur verið að tala um þann möguleika að forseti kunni að synja.

Fyrst verið er að tala um brúarsmið þá fannst mér nú sem hæstv. dómsmálaráðherra væri hér kominn í hlutverk Karons, ferjumannsins frá ríki okkar sem lifandi eru, og er hann greinilega að flytja þetta mál yfir í helheima því frv. er einfaldlega þannig sett fram af hæstv. ráðherra og hæstv. ráðherrum að það er ekki heil brú í því. Ég ráðlegg hæstv. dómsmálaráðherra að hafa nú vit fyrir vini sínum hæstv. forsætisráðherra og fara að tillögum okkar og flytja þetta yfir elfina miklu og geyma þetta mál. Ég held að þá væri hægt að ná aftur þeirri ró í samfélaginu sem ummæli hæstv. forsætisráðherra kipptu úr jafnvægi í gær.