Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:11:37 (8249)

2004-05-15 15:11:37# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fróðlegt að vita að einungis tveir þingmenn sem eru í stjórnarliðinu til viðbótar geta fellt þetta frumvarp. Að öllu óbreyttu hefði maður haldið að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gæti hugsanlega verið annar þeirra. Það er rétt að minna aðeins á hvað hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði í tímaritinu Lagakrókum fyrir einungis þremur árum. Hann er spurður: ,,Eiga samkeppnislög rétt á sér?`` Svar hv. þm. er: ,,Nei. Ef aðili á markaði níðist á neytendum eða öðrum aðilum á markaði þá eiga markaðslögmál að fá að leiðrétta slíkt en ekki eftirlitsstofnun á vegum hins opinbera.`` Hann er spurður hver viðurlögin við brotum á samkeppnislögum eigi að vera? Svar hv. þm. er: ,,Þar sem ég er mótfallinn samkeppnislögum þá tel ég viðurlög eigi engin að vera.`` Núna er þessi sami þingmaður að stuðla að einni ströngustu löggjöf á sviði fjölmiðlamarkaðar sem þekkist á Vesturlöndum. Mig langar gjarnan að fá svar fyrir þessari algjöru kúvendingu á afstöðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar á ekki skemmri tíma en þetta.