Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:40:23 (8268)

2004-05-15 15:40:23# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GÖrl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Gunnar Örlygsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur jafnan verið talinn sá kjarkaðasti í liði Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur verið talinn sá þingmaður í þeirra röðum sem hefur jafnan farið eigin leiðir. Það hryggir mig að ægivald Sjálfstæðisflokksins sé orðið það mikið að hann sjálfur sé nú knébeygður. Frumvarpið sem hér er til umræðu er gjörsamlega í andstöðu við hugsjónir og helstu gildi Sjálfstæðisflokksins.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal er ekki einn úr klappliði hæstv. forsætisráðherra Davíðs Oddssonar sem jafnan stendur foringjanum að baki og flissar eins og skólastelpa í hvert skipti sem hann geiflar einu orði út úr sér. Því þykir mér hryggilegt að hv. þm. Pétur H. Blöndal skuli taka þessa afstöðu í þessu máli. Ég hef beðið hér í voninni eftir að fleiri menn en hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sýni kjark í þessu máli og beygi af leið. Það eina sem stjórnarandstaðan hefur beðið um að sinni er að beðið sé með þetta mál, það verði rætt betur. Engin haldbær rök hafa komið fyrir 5% reglunni sem halda vatni. Engin haldbær rök hafa komið fyrir tveggja milljarða reglunni. Atvinnulífinu eru settar alvarlegar skorður. Framfaraþróttur, dugnaður og vilji einstaklinga er drepinn niður. Þetta eru æðstu og göfugustu gildi Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í: Voru.)

Ég hef upplifað ýmislegt á minni ævi, herra forseti. En sá stutti tími sem ég hef setið á Alþingi slær öllu við. Hér lifa menn í fílabeinsturni og eru ekki í nokkurri snertingu við þjóð sína. Ég vona innilega að þetta fari að breytast. (Gripið fram í: Stórt fílabein.) (Gripið fram í: Ef öll þjóðin er þar.)