Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 15:42:18 (8269)

2004-05-15 15:42:18# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[15:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég taldi mig hafa fært rök fyrir því að þróunin væri hér mjög hröð á fjölmiðlamarkaði. Hér er mjög hröð þróun og mér sýnst að einn aðili sé að eignast alla fjölmiðla í landinu. Það þykir mér (Gripið fram í.) uggvænlegt. Mér finnst það skerða tjáningarfrelsið, tjáningarfrelsið, herra forseti, sem er eitt af æðstu mannréttindum. Ef menn geta hvergi fengið birt eftir sig grein með gagnrýni á þennan ákveðna eiganda ... (Gripið fram í: Ert þú ekki á hverjum fimmtudagsmorgni Pétur?) Jú, jú, sem stendur. (Gripið fram í.) Sem stendur gengur það þannig (Gripið fram í.) en ég nefni það að það er ekki nema hálft ár síðan þessi aðili keypti Stöð 2. (BH: Árum saman, Pétur.) Það er ekki nema hálft ár síðan hann keypti Stöð 2.

Það hryggir hv. þm. að Sjálfstæðisflokkurinn hafi beygt mig. Það skyldi nú ekki vera að ég hafi beygt þingflokkinn? Kannski var ég í þeim hópi sem vildi fá þetta fram vegna þess að ég er búinn að færa rök fyrir því að þetta er uggvænleg þróun. Ég held nefnilega að í Sjálfstæðisflokknum höfum við það þannig að við ræðum hlutina og sannfærum hvert annað og komumst að niðurstöðu. (GAK: Nú skiljum við ...) (Gripið fram í.)

(Forseti (HBl): Það er gerður góður rómur að máli þingmannsins heyri ég.)