Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:04:44 (8273)

2004-05-15 16:04:44# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmann vil ég segja þetta: Meðan stjórnarandstæðingar stóðu í ræðustóli í fjóra daga og vonuðust eftir og báðu um umræðu við hv. stjórnarliða bólaði ekki á þeim. Svo er komið fyrir mér að ég er búin með báðar mínar ræður í 2. umr. en hefði gjarnan viljað eiga orðastað, góðan orðastað og málefnalegu umræðu, við hv. þingmann og fleiri þingmenn stjórnarflokkanna sem núna raða sér á mælendaskrána. Ég mótmæli því að við höfum stundað hér málþóf. Við bara fengum ekki möguleika á skoðanaskiptum við hv. þingmenn stjórnarliða fyrr en núna sem er of seint þegar, eins og ég segi, ég er sjálf búin með báðar ræður mínar.

Ég vil mótmæla því sem hv. þm. segir um að málið sé vel reifað, hafi fengið gaumgæfilega skoðun og verið skoðað vel í allshn. þar sem langir og strangir fundir hafi verið um málið. Ég get nefnt marga fundi, mörg mál, á síðustu fimm árum sem hafa fengið miklu lengri tíma í nefndum en þetta mál.