Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:10:02 (8278)

2004-05-15 16:10:02# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:10]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ótvírætt orðalag í lagafrv. þar sem talið er upp hvernig eigi að telja saman eignir fyrirtækisins og þar er ekkert undanskilið. Þar er ekki undanskilin eign viðkomandi fyrirtækis í fjölmiðlinum og virðist eiga að telja hana með. Ef svo er mun það þýða að við erum að tala um miklu smærri fyrirtæki en þau sem velta að öðru leyti tveimur milljörðum á markaði. Síðan er til viðbótar ákvæði sem gerir það að verkum að viðkomandi fyrirtæki mega ekki hafa annað umfang nema tæp 50%. Ramminn fyrir þau fyrirtæki sem mundu vilja eyða 25% í fjölmiðlafyrirtæki er fyrir vikið mjög þröngur.

Ég held að menn hafi ekki skoðað þessi mál með boðlegum hætti til þess að fá yfirsýn yfir það hvaða fyrirtæki gætu tekið að sér fjölmiðlarekstur á Íslandi miðað við það sem liggur fyrir.