Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:34:42 (8288)

2004-05-15 16:34:42# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. minni hluta BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:34]

Frsm. minni hluta allshn. (Bryndís Hlöðversdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt annað en að finna til með hæstv. dómsmrh. yfir því hvernig hann opinberar líðan sína í þessum ræðustóli, líðan sína yfir samsærinu stóra, ráðabrugginu mikla og illsökunum sem eru greinilega í hverju horni og greinilega á við hann og hæstv. ríkisstjórn.

Hér dregur hæstv. dómsmrh. upp bréf sem á nákvæmlega ekkert erindi inn í þá umræðu sem hér er, nákvæmlega ekkert erindi en hún sýnir hins vegar, virðulegur forseti, hversu rökþrota hæstv. dómsmrh. er í samsæriskenningum sínum. Hann kýs að nota þann tíma sem hann hefur í ræðustóli Alþingis í slíkt í stað þess að færa fram rök fyrir því frv. sem er til umræðu og sem hæstv. dómsmrh. ætti frekar að sýna sóma sinn í að verja heldur en að draga fram einkabréf sem honum hafa verið send og eiga nákvæmlega ekkert erindi inn í þá umræðu sem hér á sér stað.