Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 16:43:53 (8297)

2004-05-15 16:43:53# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[16:43]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta hefur verið fróðleg umræða og yfirleitt á málefnalegum nótum, þó með nokkrum undantekningum eins og þeim tveimur ræðum sem hæstv. dómsmrh. hefur flutt í dag. Ég vil segja að ég tel að hv. þm. Bjarni Benediktsson og félagar hans úr allshn. hafi fyrir sitt leyti og fyrir hönd Sjálfstfl. gert prýðilega grein fyrir þeim rökum sem þeir telja réttlæta setningu þessara laga. Ég er þó í öllum megingreinum á móti niðurstöðu þeirra og tel að rök þeirra haldi ekki. Ég ætla hins vegar ekki í þessari ræðu að fara lið fyrir lið yfir þá röksemdafærslu. Aðrir þingmenn hafa gert það í þeirri viðamiklu umræðu sem hér hefur farið fram. Auðvitað hefði verið ágætt ef sumir þessara ágætu þingmanna hefðu flutt ræður sínar fyrr eins og þá prýðilegu ræðu sem hv. þm. Birgir Ármannsson flutti í dag. Mér fannst margt til um ýmis þau rök sem hv. þm. bar fram en sú rannsókn sem ég hef gert á því máli leiðir til þess að ég er ekki sammála honum um ýmislegt sem þar kom fram, t.d. varðandi markaðsráðandi fyrirtæki. Ég ætla þó ekki að gera það að umræðuefni hér.

[16:45]

Ég vil líka segja það að hv. þm. Birgir Ármannsson sannferðuglega gat þess að auðvitað hefðu risið álitamál um stjórnarskrá. Það hefur komið fram í umfjöllun þeirra nefnda sem um málið hafa fjallað að menn eru ekki á eitt sáttir, eins og hv. þm. sagði. Ég dreg ekki í efa að hv. þingmenn Sjálfstfl. sem hér hafa talað í dag séu ekki vísvitandi að leggja til frv. sem stangist á við og brjóti stjórnarskrána.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að svo sterk rök hafi komið fram hjá ýmsum þeim sem fremstir eru á sviði lögfræði í landinu að undan því verði ekki komist að rannsaka það mál miklu betur. Ég tel sjálfur að það sé ekkert efamál að ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt séu brotin. Ég tel líka að svo nærri sé hoggið ýmsum öðrum ákvæðum, a.m.k. tveimur, að það sé viðurhlutamikið mál að samþykkja þetta frv. þótt ekki kæmi annað til. Ég átti þess kost í efh.- og viðskn. að fara yfir þetta mál með bæði þeim sem hafa talað gegn þessum viðhorfum og eins þeim sem hafa talað fyrir þeim, eins og prófessor Sigurður Líndal. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður útskýrði sjónarmið sín ákaflega vel í þeirri yfirferð en ég var ekki sammála niðurstöðu hans um það mál.

Hví er ég að draga þetta fram, herra forseti? Sökum þess að það er ekki ágreiningur um að þetta mál heggur hættulega nærri stjórnarskránni. Fyrr í dag drógu menn inn í þessa umræðu --- mig minnir að það hafi verið hæstv. dómsmrh. --- að svipuð staða kom upp árið 1993 þegar við vorum að fjalla um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Á þeim tíma voru uppi álitamál sem vörðuðu stjórnarskrána. Hér í þessum sal var tekist mjög harkalega á og miklu lengur en um þetta mál. Ákaflega margir töldu að stjórnarskráin þyldi ekki þann samning.

Ég rifja það upp hvað hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og þáv. formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, lögðu til á þeim tíma. Sökum þeirra álitamála sem þá risu, sökum þess að menn treystu sér ekki til þess að kveða með óyggjandi vissu upp úr þannig að allir sannfærðust um að stjórnarskráin þyldi það frv. sem við ræddum þá, var kvaddur til hópur sérfræðinga sem fór yfir málið. Það var ekki fyrr en sú niðurstaða lá fyrir sem ríkisstjórnin og þingmeirihluti ríkisstjórnarinnar treystu sér til þess að ganga frá málinu hér á þingi.

Þannig, herra forseti, ættu auðvitað hv. þm. Sjálfstfl. að hugsa líka í dag. Þarna er klárlega um ákveðið fordæmi að ræða. Menn eru ekki, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson sagði, á eitt sáttir um það hvort hér sé hoggið of nærri stjórnarskránni. Við höfum fordæmi fyrir því með hvaða hætti við reynum að leysa úr slíku. Það hefur komið skýrt fram, m.a. í þeirri greinargerð sem fylgir með frv., að það eru engar nauðir sem reka á eftir því að þetta mál verði samþykkt núna. Við höfum tíma til þess að ganga úr skugga um álitamál af þessu tagi og þess vegna tel ég, miðað við söguna og reynsluna sem við höfum af ágreiningsmálum af þessu tagi í tíð hæstv. forsrh. hér á þingi, að við ættum að nota þessa aðferð hér líka.

Við höfum í Samf. andæft þessu frv. af töluverðri hörku. Við höfum gert það málefnalega, af ábyrgð og með rökum. Þær ræður sem við höfum flutt hafa sýnt að þingmenn Samf. eru kappsfull í þessu máli. Menn tala hér um málþóf. Það er ekkert að því, herra forseti, tel ég þegar um er að ræða mál sem varða grundvallarreglur í samfélagi okkar að menn tali um þá sannfæringu sem þeir hafa í því máli. Hér hefur enginn verið að halda maraþonræður.

Það kom fram í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar í fjölmiðlum á sínum tíma að hér héldu menn 3--4 tíma ræður. Ég held að lengsta ræðan sem hér hefur verið haldin hafi losað 2 stundir. Þegar ég fór í kjölfar þess viðtals við hv. þingmann yfir stöðuna og reiknaði út hvað menn hefðu talað þá var meðallengd ræðna stjórnarandstöðunnar rétt í kringum eina klukkustund. Ég verð að segja, herra forseti, að mér finnst ekki mikið, þegar menn eru að tala um jafngrafalvarlegt mál og hér er, þó að menn ræði ítarlega um þau rök sem þeir hafa í málinu og um þau rök sem meiri hlutinn hefur lagt fram á þinginu. Það er alveg ljóst að í ákaflega mörgum greinum hafa verið álitamál.

Ég ætla ekki að ræða frekar um stjórnarskrána, herra forseti, en ég tel að frv. höggvi nærri tjáningarfrelsi og athafnafrelsi. Ég hef lýst því að í mínum huga er enginn efi á því að þetta fer gegn eignarréttarverndarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég vil svo líka taka það fram áður en ég lýk umfjöllun minni um stjórnarskrána að prófessor Jónatan Þórmundsson hefur sagt að ef þetta frv. beinist fyrst og fremst að einu fyrirtæki felist í því það sem hann kallar ,,dulinn tilgang`` sem hann hefur sagt að varði líka við stjórnarskrána.

Ég vil svo rifja það upp fyrir hv. þm. Birgi Ármannssyni að hann hlustaði í morgun ásamt mér á gamlan lærimeistara sinn, sem ég dreg ekki í efa að hann ber mikla virðingu fyrir, fara yfir það lið fyrir lið hvernig fjögur ákvæði í frv. kunna hugsanlega, að dómi þessa lærimeistara hans, Sigurðar Líndals, að varða við stjórnarskrána. Svo viðurhlutamikil er nú staða þessa máls þannig að engan þarf að undra að við þingmenn sem höfum svarið eið að því að fylgja í senn sannfæringu og stjórnarskrá skulum vilja grafast rækilega fyrir um það hvernig staða málsins gagnvart stjórnarskránni sé.

Það er líka alveg nauðsynlegt að það komi fram að eftir að breytingar þingmeirihlutans komu fyrir augu okkar þingmanna var farið yfir þær í efh.- og viðskn., sem að ósk allshn. fjallaði um málið. Það var mat Samkeppnisstofnunar á þeim fundi að brtt. væru léttvægar tilslakanir og að þrátt fyrir þær stríddi frv., að teknu tilliti til brtt., enn þá gegn markmiðum samkeppnislaga. Þegar það svo liggur fyrir, herra forseti, að það yfirvald sem við höfum falið að vera eins konar umferðarlögregla á sviði samkeppnismála telur einfaldlega frv. skerða með þeim hætti athafnafrelsi og svigrúm fyrirtækja, að það sé andstætt markmiðum samkeppnislaga, hljóta menn að staldra við. Ekki síst í því ljósi ætti það að vera keppikefli okkar sem viljum vinna þjóðinni vel, standa við eið okkar gagnvart stjórnarskránni, ekki setja lög sem hugsanlega vinna gegn jafnmikilvægum rétti og samkeppnisrétti, að skoða þetta mál miklu betur en við höfum gert.

Þegar maður fer í gegnum fjölmiðlaskýrsluna sem hæstv. forsrh. hefur sagt að sé forsenda frv. sem við ræðum er auðvitað rétt að í fjölmiðlaskýrslunni er að finna aðvörunarorð um samþjöppun á eignarhaldi. Þrátt fyrir það verður að draga það fram að hvergi í þessari skýrslu kemur neitt fram sem segir að nákvæmlega eins og staðan er á markaðnum í dag sé fjölbreytni í fjölmiðlun í hættu vegna þessarar samþjöppunar. Ég segi þetta, herra forseti, til að undirstrika að jafnvel höfundar skýrslunnar segja hvergi að svo nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að laga stöðuna á markaðnum að það verði að gerast núna.

Að því er varðar fjölbreytni má færa fram margar staðreyndir úr skýrslunni sem benda til þess að fjölbreytni í fjölmiðlun sé bara giska góð. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að fjölbreytni hafi aldrei verið jafnmikil í íslenskri fjölmiðlun og í dag og það hafi aldrei verið jafnmikil samkeppni um fréttir og um að koma viðhorfum á framfæri og í dag. Það er einmitt það sem gerir það að verkum að gróandinn í íslenskri fjölmiðlun er svona kvikur eins og hann er í dag.

Herra forseti. Fleiri en ég eru þessarar skoðunar. Einn af þeim sem bókstaflega tekur þetta fram er Davíð Þór Björgvinsson sem er aðalhöfundur skýrslunnar og sem hefur rætt þetta opinberlega. Davíð Þór prófessor sagði í þættinum Ísland í dag þann 27. apríl að fjölbreytni hefði aukist eftir að Fréttablaðið byrjaði að koma út og fjölbreytnin hafi svo eflst enn frekar þegar, og ég leyfi mér að vitna orðrétt til fræðimannsins, með leyfi forseta, ,,... þegar DV kemur út með þeim krafti sem það er að gera þessa dagana, og þegar Íslenska útvarpsfélagið er að reka allar þessar útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar.``

Með öðrum orðum er það skoðun formanns fjölmiðlanefndar hæstv. menntmrh. að þessir fjölmiðlar sem Norðurljós reka hafi ekki átt sístan þátt í því að fjölbreytnin er jafnrík á markaðnum og hún er í dag. Í ljósi þessara ummæla þarf ekki að vera undrunarefni fyrir hæstv. forsrh., mig eða aðra þegar ég upplýsi það að hvergi í þessari skýrslu, alveg sama hvar við berum niður, er gefið til kynna að nauðsynlegt sé að grípa til tafarlausra aðgerða. Það kemur þvert á móti víða fram að höfundar skýrslunnar virðast vera á allt annarri skoðun. Þeir ætla lögum, ef lög yrðu sett, að hafa áhrif inn í framtíðina þegar útvarpsleyfin rynnu smám saman út.

Átrúnaðargoð ríkisstjórnarinnar í þessum málum, Davíð Þór Björgvinsson, hnykkti á þessu í þeim þætti sem ég vísa hér til þegar hann sagði, og enn vitna ég, með leyfi forseta:

,,Þegar gildandi útvarpsleyfi renna út taki hinar nýju reglur við, sko, þegar tekin er ákvörðun um endurúthlutun þeirra.``

Þvert á þetta felur frv. hins vegar í sér að útvarpsleyfin verða afturkölluð frá þeim fyrirtækjum sem hafa ekki uppfyllt skilyrði laganna að tveimur árum liðnum. Það er alveg ljóst af þessu að lögin eru afturvirk og þau eru virk með öðrum hætti en formaður fjölmiðlanefndarinnar ætlaðist til. Sú tilvitnun sem ég las í hann hérna áðan segir það alveg klárt að viðhorf hans var að þetta yrði gert eftir því sem leyfin rynnu út. Það er hins vegar ætlun ríkisstjórnarinnar að gera það áður, og það er ekki síst af þeim sökum sem ég segi að ákvæði stjórnarskrár um eignarrétt er frá, það er gengið á svig við það.

Ég vil segja það, herra forseti, að miðað við þessi orð formanns fjölmiðlanefndarinnar og aðalhöfundar skýrslunnar hefði ríkisstjórnin getað gefið sér ákaflega góðan tíma til þess að fjalla um þau álitamál sem tengjast frv. og reyna að mynda breiða samstöðu um málið eins og hefð er fyrir. Jafnan hefur verið reynt að gera það þegar uppi er viðleitni til þess að breyta um grundvallarstefnu í samfélaginu. Ég tel að þetta frv. feli það í sér.

Ég vísaði hér áðan, herra forseti, til þeirra orða Jónatans Þórmundssonar prófessors að ef frv. beindist að einu fyrirtæki kynni það að varða sérstaklega við stjórnarskrána. Það er enginn efi í mínum huga um að þessu frv. er fyrst og fremst beint að Norðurljósum. Hafi ég einhvern tíma velkst í vafa um þá fyrirætlan hæstv. ríkisstjórnar gufaði sá vafi upp sem dögg fyrir sólu í gær þegar hæstv. forsrh. flutti afmælisávarp sitt til forseta lýðveldisins. Þar kom það auðvitað fram, þegar hæstv. forsrh. sagði að forseti lýðveldisins væri vanhæfur vegna tengsla við þetta fyrirtæki, að þessum lögum er ekkert ætlað að hafa almenn áhrif, heldur hafa þau sértækan tilgang. Það styrkir mig svo enn frekar í því að það þurfi að skoða nábýli þessa frv. og stjórnarskrárinnar.

[17:00]

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns ætla ég ekki að fara út í rökræður við hv. þingmenn Sjálfstfl. í allshn. um einstakar greinar frv. og brtt. en mig langar að lýsa undir lok þessarar umræðu í nokkrum orðum viðhorfum Samf. til þessa máls almennt.

Við erum almennt þeirrar skoðunar að í atvinnulífinu eigi að ríkja eins mikið frelsi og hægt er. Við erum að því leytinu til á þeirri skoðun sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri ungir þingmenn Sjálfstfl. voru þangað til fyrir nokkrum vikum. Miðað við það viðhorf ættum við miklu frekar að berjast fyrir því að aflétta hömlum af atvinnulífinu. Það þýðir hins vegar ekki að ég telji ekki hægt að setja lög á fjölmiðla með einhverjum hætti. Ég vísa til þess að við höfum lagt fram hugmyndir um það í Samf.

Ég tel, og við í Samf., að fjölmiðlar njóti ákveðinnar sérstöðu innan atvinnulífsins. Hlutverk þeirra er töluvert öðruvísi en annarra almennra fyrirtækja. Við hljótum að vera sammála um það að aðhald fjölmiðla gagnvart stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, stjórnvöldum og atvinnulífi er eitt beittasta vopn sem samfélagið hefur yfir að ráða til þess að viðhalda gagnsæjum stjórnarháttum og til þess að berjast gegn spillingu. Við teljum því í Samf. að það gildi önnur lögmál um fjölmiðla en atvinnulífið almennt og að það sé sjálfsagt að ræða hvort setja þurfi lög eða reglur til að tryggja að fjölmiðlarnir spegli í senn menningarlega og pólitíska fjölbreytni. Það var sú afstaða okkar sem réði því að við lögðum fyrr í vetur fram tillögur sem er beinlínis ætlað að tryggja að samþjöppun á eignarhaldi hafi ekki óæskileg áhrif á fjölbreytni og efnistöku fjölmiðlanna.

Ég er þeirrar skoðunar eins og ég hef lýst í tveimur ræðum í þinginu að samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla geti falið í sér ákveðna hættu. Ég lýsti því í ræðu sem ég hélt eftir að hæstv. forsrh. mælti fyrir frv. að ég saknaði þess að hæstv. forsrh. hefði ekki sjálfur gert tilraun í máli sínu til að skilgreina og tíunda þær hættur. Það er hægt að nefna nokkrar en það eru tvær helstar að dómi okkar í Samf.

Það er í fyrsta lagi ekki hægt að útiloka að eigandi margra miðla freisti þess að óbreyttu að samræma ritstjórnarstefnu þeirra í krafti eignarhaldsins og misnota hana síðan gegn einstökum stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum, fyrirtækjum sem hann á í samkeppni við eða þá til þess að setja sitt eigið fyrirtæki í hagstætt ljós. Í öðru lagi tel ég vel hugsanlegt að stór eigandi að fjölmiðlum sem er jafnframt umsvifamikill í óskyldum rekstri reyndi með einhverjum hætti að hygla fyrirtækjum sínum með því að láta þau njóta betri kjara varðandi auglýsingar. Af því að fyrirtækið Baugur hefur svo margsinnis verið nefnt til þessarar umræðu af hæstv. forsrh. og þingmönnum stjórnarliðsins, og reyndar öðrum líka, er auðvitað alveg rétt að geta þess að þessi hlutur, þessi þáttur, gæti sannarlega skipt máli ef um væri að ræða eiganda stórra matvörukeðja eins og Baugs sem er einmitt einn stærsti eigandi Norðurljósa.

Þessar tvær hættur eru þess eðlis að við hljótum að gefa því náinn þanka með hvaða hætti hægt sé að sporna gegn þeim. Til þess eru ýmsar leiðir. Ýtrasta leiðin er að setja strangar reglur sem takmarka eignarhald og harkalegasta útfærsla á þeirri leið er að brjóta fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði upp með lögum. Það er leiðin sem hæstv. forsrh. velur. Hann velur þá aðferð sem íþyngir mest en það er hins vegar hægt að vinna gegn hættunum sem stafa af samþjöppuninni með öðrum og vægari leiðum. Samf. hefur bent á sumar þeirra í þeim þingmálum sem ég drap á áðan og flokkurinn hefur boðað aðrar í umræðum bæði núna og eins fyrr í vetur þegar við ræddum fjölmiðla af miklu kappi. Við teljum að þessar leiðir samanlagðar séu mun áhrifaríkari til að útrýma óæskilegum áhrifum samþjöppunar og eigendavalds í fjölmiðlum heldur en þær sem felast í frv. forsrh.

Leiðirnar sem Samf. hefur reifað eru ferns konar. Í fyrsta lagi höfum við sagt að það sé einbeittur vilji okkar að treysta stöðu Ríkisútvarpsins. Öflugt ríkisútvarp sem hefur jafnmikla útbreiðslu og RÚV gæti verið besta tryggingin gegn fábreytni í fjölmiðlun, bæði í menningarlegu og pólitísku tilliti. Við erum ekki ein um þetta viðhorf, herra forseti. Undir þessa skoðun er tekið í fjölmiðlaskýrslunni. Þar er sagt að efling RÚV sé að nokkru leyti til þess fallin og ég vitna beint til skýrslunnar, með leyfi forseta, ,,að hafa samsvarandi áhrif og beinar takmarkanir á eignarhaldi``. Höfundarnir segja beinlínis, með leyfi forseta:

,,... yrði þessi leið ein fyrir valinu fæli hún ekki í sér neina beina reglusetningu sem beindist gegn einkareknum fjölmiðlum.``

Það er alveg ljóst af þessu að hérna er um áhrifaríkt úrræði að ræða en sem er miklu vægara en það sem hæstv. forsrh. hefur lagt til. Efling RÚV tryggir samt ekki fjölbreytni nema Ríkisútvarpið sé líka tekið úr þeirri pólitísku spennitreyju sem það er í í dag.

Hvernig er staðan í dag? Hún er svona: RÚV lýtur beinni stjórn útvarpsráðs sem er undir forustu sjálfstæðismanns og þetta útvarpsráð þar sem pólitískur meiri hluti ræður fjallar um ráðningar fréttamanna. Þetta er algjörlega í andstöðu við tilmæli Evrópuráðsins sem hæstv. forsrh. hefur þó orðið svo mikið skjól í þessari umræðu.

Útvarpsstjóri er sjálfstæðismaður. Framkvæmdastjóri RÚV er sjálfstæðismaður. Sjálfstfl. einokar alla valdastóla innan stofnunarinnar og hann er líklega einráðari innan RÚV en Baugur er innan Norðurljósanna. Efling Ríkisútvarpsins og frelsun þess undan pólitísku oki er þess vegna ein af megintillögum Samf. Og eins og hæstv. forsrh. og aðrir þingmenn sem hlýða á mál mitt muna boðaði ég það á Alþingi fyrr í þessari umræðu að útfærsla þessarar stefnu sem varðar RÚV yrði eitt af fyrstu þingmálunum sem Samf. flytur í haust.

Í öðru lagi lagði Samf. til á Alþingi í vetur að sett yrðu í lög ákvæði sem skylda fjölmiðla til að setja sér innri reglur til að tryggja sjálfstæði ritstjórna gagnvart eigendum. Evrópuráðið, sem ég og hæstv. forsrh. höfum svo oft vitnað til, mælir alveg sérstaklega með því að þessi leið verði farin. Hún er líklega að mínu mati einhver áhrifaríkasta leiðin til að tryggja að eigandi geti ekki misnotað fjölmiðla í sína eigin þágu. Ég hef áður, herra forseti, rifjað upp dæmi þegar einn eigandi sjónvarpsstöðvar reyndi að stöðva frétt um að ráðherra hefði þegið boð í laxveiði af stórbanka. Það var til marks um faglegan metnað þeirra sem á þeirri stöð unnu að það lá við uppreisn þegar reynt var að stöðva þessa frétt. Hún var auðvitað birt. Þetta dæmi á að sýna okkur að það er nauðsynlegt þegar svona mál koma upp að til séu lög sem verndi fréttamennina sem hugsanlega lenda í slíku. Það kunna alltaf að verða einhver eftirmál, síðar hugsanlega, af slíkum málum þegar eigandi hugsanlega reyndi að grípa til einhverra ráða til þess að beita fælingu gagnvart öðrum fréttamönnum á þessum miðli eða jafnvel öðrum miðlum sem hann vinnur á. Þess vegna er þetta ákaflega mikilvægt úrræði, herra forseti.

Þegar við ræddum fjölmiðlaskýrsluna sérstaklega á Alþingi var það hæstv. menntmrh. sem sagði að þessi hugmynd, sem hæstv. dómsmrh. fannst einhver vitlausasta hugmynd sem fram hefði komið í þessari umræðu og er þó að finna í fjölmiðlaskýrslunni líka, kallaði á flókna og dýra eftirlitsstofnun. Ég hafna því algjörlega. Ég tel að það sé sé fullkominn misskilningur. Ég held að eftirlit með svona lögum mundi alltaf vera tryggt með aðhaldi starfsmanna sjálfra. Það væri stöðugt, sívirkt eftirlit og aðhald að því að lögin héldu innan úr fjölmiðlunum sjálfum vegna þess að enginn á jafnmikið undir því að slíkar reglur yrðu haldnar og einmitt starfsmennirnir. Það þarf enga sérstaka stofnun til þess að fylgjast með þessu. Af því að við erum að tala um samþjöppun og eigendavald er kjörið að benda á að tillaga af þessu tagi felur í sér beina takmörkun á eigendavaldinu.

Í þriðja lagi hefur svo Samf. lagt til að sett verði lög um að eignarhald á fjölmiðlum verði gagnsætt. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg sama hvaða lög hæstv. forsrh. setur og Alþingi, alveg sama hvaða hugmyndir við í Samf. komum með, það er aldrei algjörlega hægt að útiloka að eigandinn hafi einhver áhrif á efnistök fjölmiðla. Þá verðum við að gera neytendum fjölmiðlunarinnar kleift að meta það sjálf út frá upplýsingum um það hver á fjölmiðlana hversu trúverðugar þær eru. Þetta er algjört lykilatriði. Það getur vel verið að einhverjum finnist þetta heimskuleg hugmynd. En við höfum bara skelfileg dæmi fyrir okkur í þessum efnum héðan frá Íslandi.

Þessi hugmynd er líka reifuð í fjölmiðlaskýrslunni, og hvaðan ætli fjölmiðlanefndin hafi haft þessa hugmynd? Frá uppsprettu og lind, þeirra helstu hugmyndum sem hæstv. forsrh. segir að liggi að baki sínu frv., þ.e. tilmælum Evrópuráðsins. Það er nefnilega þannig að Evrópuráðið hefur fjallað ákaflega ítarlega um margar leiðir og það hefur einmitt tekið það skýrt fram að menn þurfi að hafa í huga stöðuna á markaðnum í hverju landi fyrir sig. Hæstv. forsrh. hefur hins vegar kosið að ganga að þessu eins og hverju öðru veisluborði og velja úr þær kræsingar sem hann vill. Skjólið sem hann finnur í tilmælum Evrópuráðsins er því miður ekki meira en svo að þegar maður skoðar þær hugmyndir sem er að finna í tilmælunum er ég a.m.k. þeirrar skoðunar, og það virðist sem dragi langt í að fjölmiðlanefnd hæstv. menntmrh. sé ekki fjarri því viðhorfi, að þar sé hægt að finna margvíslegar leiðir sem hefðu meiri áhrif á fjölmiðlamarkaðinn til þess að draga úr hugsanlegum áhrifum samþykktarinnar en þessi ýtrasta leið sem hæstv. forsrh. hefur rætt um.

Í fjórða lagi er það svo að við í Samf. teljum að samkeppnislög og styrking eftirlitsstofnunar á borð við Samkeppnisstofnun séu í senn öflug og næg tæki til að koma í veg fyrir að eigendur stórfyrirtækja í óskyldum rekstri geti misnotað fjölmiðla til að hygla sjálfum sér varðandi bæði beinar og óbeinar auglýsingar. Þetta var skoðun sem hæstv. dómsmrh., að því er ég taldi til skamms tíma, deildi með mér. Mér sýnist á öllu að einhverra hluta vegna hafi þó skilið leiðir með okkur um þetta. Ef eigandi sem á bæði fjölmiðil og síðan fyrirtæki í óskyldum rekstri reyndi að hygla fyrirtækjum sínum með því að nota fjölmiðilinn fælist í því misnotkun sem samkvæmt skilgreiningu samkeppnislaga er ekkert annað en samkeppnishömlur. Ef fyrirtæki verður uppvíst að því að standa að slíkum samkeppnishömlum ber lögum samkvæmt samkeppnisyfirvöldum að uppræta þær.

Ég vek eftirtekt á þessu vegna þess að í hinni margumræddu fjölmiðlaskýrslu, sem ég vona að hæstv. forsrh. taki eftir að ég hef lesið, er ítrekað dregið fram að samkeppnisráð túlki sjálft lög með þeim hætti að ráðið hafi ákaflega frjálsar hendur um mat á því hvenær sé þörf á að grípa til aðgerða gegn háttsemi fyrirtækja af þessu tagi og líka um það hvers konar aðgerðum sé beitt í hverju tilviki. Við í Samf. teljum þess vegna að þegar þessar leiðir allar eru farnar; í fyrsta lagi að styrkja Ríkisútvarpið og frelsa það undan pólitísku oki Sjálfstfl., í öðru lagi að setja lög sem tryggja ritstjórnarfrelsi og sjálfstæði ritstjórna, í þriðja lagi að setja lög um gagnsætt eignarhald og í fjórða lagi að beita samkeppnislögum og efla Samkeppnisstofnun, séum við komin með vopnabúr í hendur sem sé áhrifaríkara tæki en þau úrræði sem er að finna í frv. hæstv. forsrh.

Hv. þm. Birgir Ármannsson gerði meðalhófsregluna að töluverðu umræðuefni í sinni ræðu og ég fylgdist með henni af athygli. Mér fannst sem hv. þm. Birgir Ármannsson væri þeirrar skoðunar að hér væri verið að beita meðalhófsreglunni. Mér fannst sá partur ræðu hans sem að öðru leyti var alveg prýðileg vera langveikasti kaflinn. Ég tel að frv. hæstv. forsrh. byggist alls ekki á þeirri reglu. Ég hef hins vegar í þessari ræðu reynt að færa rök fyrir því að þær hugmyndir sem Samf. hefur lagt fram eru allar í anda hennar. Meðalhófsreglan felur í sér að stjórnvaldi ber alltaf skylda til að leita vægustu úrræða til að ná lögmætu markmiði. Það er alveg ljóst af þeim leiðum sem eru taldar upp í fjölmiðlaskýrslunni og af þeim leiðum sem ég hef nefnt hérna að það eru ákaflega sterk rök sem hníga að því að það sé hægt að fara lengra að því markmiði sem er að finna í frv. hæstv. forsrh. með úrræðum sem eru miklu veikari, miklu vægari.

Nýlega hefur einn af fremstu sérfræðingum Evrópuráðsins um fjölmiðlun, Páll Þórhallsson, ritað um það grein í Morgunblaðinu þar sem hann einmitt gerir meðalhófsregluna og túlkun Evrópuráðsins á henni að umræðuefni. Hann, sem hefur töluvert meira vit en ég á tilmælum Evrópuráðsins og hugsanlega meira en hæstv. forsrh., segir að þær reglur beri að túlka þannig að ef stjórnvald ákveði að fara ýtrustu leiðir í þessum efnum verði það að rökstyðja af hverju það hafi ekki farið vægari leiðir.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsrh.: Af hverju hefur hann ekki rökstutt það fyrir okkur?