Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:16:59 (8298)

2004-05-15 17:16:59# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:16]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að víkja að einu atriði í ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Hann hélt því fram að frv. það sem við erum að ræða bryti gegn eignarréttar\-ákvæðum stjórnarskrárinnar og mig langar til að biðja hann um að rökstyðja það fyrir mér hvers vegna hann telur að svo sé.

72. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um að eignarrétturinn skuli vera tryggur, að vernda beri hann. Hins vegar mælir greinin sérstaklega fyrir um það að löggjafanum sé heimilt, að uppfylltum þremur skilyrðum, að ganga á þann rétt. Fyrsta skilyrðið er að slíkt sé gert með lögum. Annað skilyrðið er að almannahagsmunir krefjist þess að svo sé gert. Þriðja skilyrðið er að fullar bætur komi fyrir.

Þegar við víkjum að þessum skilyrðum í málinu er ljóst að fyrsta skilyrðið er klárlega uppfyllt, þ.e. við erum að tala um frv. og eignarrétturinn, ef um skerðingu er að ræða, verður þá skertur með lögum. Í annan stað liggur fyrir skýrsla fjölmiðlanefndar sem mælir fyrir um það að almannahagsmunir beinlínis krefjist þess að gripið verði til aðgerða á þessum markaði. Fulltrúar allra stjórnmálaflokka eru sammála um að við núverandi ástand verði ekki búið. Aðaleigendur Norðurljósa eru sammála því mati, Starfsmannafélag Norðurljósa er sammála því mati og í rauninni allir sem hafa tjáð sig um málið. Í þriðja lagi mælir nefndarálitið fyrir um það að verði niðurstaðan sú að eitthvert fyrirtæki verði fyrir tjóni verði greiddar bætur sem því tjóni nemur, hvert sem það verður.

Þess vegna langar mig til þess að spyrja (Forseti hringir.) hv. formann Samf.: Hvaða skilyrði er brotið að hans mati?