Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:24:25 (8302)

2004-05-15 17:24:25# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:24]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla fyrst og fremst að beina orðum mínum að umræðunni um samkeppnislögin og þau orð hv. þm. þar sem hann fjallar um mikilvægi þess að styrkja Samkeppnisstofnun í þessu tilliti.

Samkeppnisstofnun eða öllu heldur samkeppnisráð getur hindrað samruna eins og segir í 18. gr. samkeppnislaganna: ,,Telji samkeppnisráð að samruni hindri virka samkeppni, með því að markaðsráðandi staða, eins eða fleiri fyrirtækja, verði til eða slík staða styrkist getur ráðið ógilt samruna ...``

Nú liggur fyrir dæmi þar sem eitt fyrirtæki er að öðlast 63% markaðarins í frjálsu ljósvakamiðlunum. Maður hlýtur þess vegna að velta því fyrir sér í ljósi þess að hv. þm. lýsti því yfir að fylgjast þyrfti með samþjöppun í eignarhaldi og samþjöppun í fjölmiðlun almennt, hvort hann telji að við höfum nú þegar dæmi sem Samkeppnisstofnun ætti að láta til sín taka og taka til sérstakrar skoðunar.