Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 17:53:56 (8315)

2004-05-15 17:53:56# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[17:53]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrri hluta ræðu sinnar lagði hæstv. forsrh. út af því í máli sínu að margt væri falið í fjárhagstengslum og fjárstuðningi við stjórnmálaflokka og taldi að margt þar mætti vera ljósara. Hann sagði að einhvern góðan veðurdag mundi það vonandi skýrast fyrir þjóðinni.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. í ljósi þeirra ummæla sem hann hefur viðhaft varðandi fjármál og fjármálatengsl og annað sem snýr að frambjóðendum stjórnmálaflokka og stjórnmálaflokkum hvort hæstv. forsrh. hyggist eða hafi jafnvel tekið þá ákvörðun með sjálfum sér að leggja til að fjármál Sjálfstfl. verði gerð opinber og þar megi allir sjá hvað um er að vera.