Útvarpslög og samkeppnislög

Laugardaginn 15. maí 2004, kl. 18:53:44 (8337)

2004-05-15 18:53:44# 130. lþ. 116.3 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 130. lþ.

[18:53]

Össur Skarphéðinsson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þingheimur er hér að greiða atkvæði um frv. og það mat Samkeppnisstofnunar liggur fyrir að þrátt fyrir brtt. sem fram hafa komið stríði frv. gegn markmiðum samkeppnislaga. Fremstu sérfræðingar þjóðarinnar á sviði laga hafa sömuleiðis bent á að það sé hugsanlegt að þetta frv. stríði gegn mörgum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það heggur t.d. ákaflega nærri tjáningarfrelsinu, það eru áhöld um að það standist ákvæði um atvinnufrelsi og það er varla vafi á að það stangast á við ákvæði um vernd eignarréttar.

Við sem erum hér í þessum sal, alþingismenn, höfum svarið eið að því að brjóta ekki gegn stjórnarskránni. Svo mörg álitamál eru uppi í þessu frv. varðandi stjórnarskrána að mér finnst ekki koma til mála að greiða því atkvæði. Það hefur líka komið fram að ríkisstjórnin hefur ekki kjark til að leggja þetta frv. til umsagnar hjá t.d. Háskóla Íslands.

Herra forseti. Samf. getur með engu móti greitt atkvæði með þessu frv. Samf. mun þess vegna greiða atkvæði gegn öllum efnisgreinum þess og öllum brtt. sem fyrir liggja.