Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:02:38 (8352)

2004-05-17 11:02:38# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tveimur frumvörpum til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Frumvörpin er að finna á þskj. 1665 sem er 997. mál og þskj. 1677 sem er 1000. mál þessa þings.

Frumvörp þau sem ég mæli fyrir eru bæði um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, en lúta að tveimur aðskildum efnum. Í fyrsta lagi er með þeirri breytingu á búvörulögum sem lögð er til á þskj. 1665 verið að lögfesta ákvæði sem ætlað er að eyða réttaróvissu sem skapast hefur um að gildandi búvörulög tryggi með nægjanlegri vissu að samráð, samruni og verðtilfærslur í mjólkuriðnaði séu undanskildar gildissviði samkeppnislaga í samræmi við ætlan löggjafans.

Hæstv. forseti. Tilgangur búvörulaga er markaður í 1. gr. þeirra. Birtast þar glögglega markmið um að tryggja jöfnuð á milli framleiðenda og viðunandi kjör bænda. Jafnframt kemur þar fram sú stefna löggjafans að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu.

Í 36. gr. búvörulaga er lýst markmiðum IX. kafla laganna sem fjallar um framleiðslu og greiðslumark sauðfjárafurða á árunum 2001--2007. Þau felast m.a. í að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda og halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða og ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt.

Í 51. gr. búvörulaga er síðan sérstaklega vikið að markmiðum X. kafla laganna sem fjallar um framleiðslu og greiðslumark mjólkur á árunum 1998--2005. Á meðal markmiðanna er að skapa rekstrarumhverfi fyrir framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða sem leiði af sér aukna hagkvæmni, bæti afkomumöguleika í mjólkurframleiðslu og jafnframt að viðhalda þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar. Þá er stefnt að því að nýta á sem bestan hátt skilyrði til framleiðslu mjólkur fyrir markað innan lands og aðra þá markaði sem teljast hagkvæmir.

Að lokum koma svo markmið XI. kafla laganna sem fjallar um framleiðslu og verðmyndun garð- og gróðurhúsaafurða á árunum 2002--2011 fram í 57. gr. laganna. Þau eru m.a. að treysta tekjugrundvöll grænmetisframleiðenda og auka hagkvæmni, enn fremur að styðja framleiðslu og markaðsmöguleika innlendrar framleiðslu og auka samkeppnishæfni hennar.

Hæstv. forseti. Í lok marsmánaðar 2004 fól ég prófessor Eiríki Tómassyni og Árna Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni að kanna tengsl búvörulaga, nr. 99/1993, og samkeppnislaga, nr. 8/1993, og skila mér álitsgerð þar um. Ein af ástæðum þess að óskað var eftir nefndri álitsgerð var sú skoðun sem upp hafði komið á þá leið að í búvörulögum, nr. 99/1993, væri ekki nægjanlega skýrt kveðið á um að ákvæði búvörulaga er lúta að samkeppni giltu framar almennum ákvæðum samkeppnislaga. Þann 30. apríl 2004 barst mér í hendur vönduð og ítarleg álitsgerð Árna og Eiríks þar sem fjallað var um fjölmörg atriði er lúta að samkeppnisumhverfi í landbúnaði, takmörkum þess á lagalegum forsendum. Í álitsgerðinni var m.a. tekið á því hvernig mætti með sem gleggstum hætti að eyða réttaróvissu.

Hæstv. forseti. Ef ég gríp niður í skýrslu þeirra, samantekt og helstu niðurstöður sem þeir skiluðu í sinni viðamiklu skýrslu, þá komast þeir að þessari niðurstöðu, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt búvörulögum njóta þeir bændur, sem stunda sauðfjárrækt, framleiða mjólk og garð- og gróðurhúsaafurðir, styrkja úr ríkissjóði eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögunum og um samið í samningum ríkisins við Bændasamtök Íslands og einstök aðildarfélög þeirra. Gengið er út frá í þessari álitsgerð að þessir styrkir haldist í óbreyttu horfi.

Eins og áður er lýst, eru samkeppnislög almenn lög sem gilda um hvers konar atvinnustarfsemi. Ekkert er því hins vegar til fyrirstöðu að löggjafinn ákveði að undanþiggja framleiðslu og viðskipti með þær landbúnaðarafurðir, sem framleiddar eru hér á landi, ákvæðum samkeppnislaga, svo framarlega sem það er gert með skýrum og ótvíræðum hætti.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að í flestum nágrannalöndum okkar Íslendinga, sem við berum okkur helst saman við, er að finna sérreglur um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þetta stafar af sérstöðu landbúnaðar sem þykir víðast hvar vera slík að almennar reglur markaðshagkerfis eigi ekki að öllu leyti við um landbúnaðarvörur með sama hætti og aðrar framleiðsluvörur.

Samkvæmt þessu gilda almennar samkeppnisreglur einungis um framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir innan Evrópusambandsins að því marki sem ráðherraráðið ákveður. Í 2. gr. reglugerðar nr. 26/1962, um beitingu tiltekinna samkeppnisreglna um framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða, kemur fram að ákvæði 1. mgr. 81. gr. stofnsáttmála ESB, sem er sambærileg 10. gr. íslenskra samkeppnislaga, gildir ekki um samninga, ákvarðanir og aðgerðir ef um er að ræða óaðskiljanlegan hluta af starfsemi innlends markaðar eða ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að ná markmiðum landbúnaðarstefnu sambandsins. Enn fremur er ákvæði um að aðgerðir bænda, sem tilheyra sama aðildarríki og varðar framleiðslu og sölu búvara eða not af sameiginlegri starfsaðstöðu til geymslu, aðvinnslu eða úrvinnslu landbúnaðarafurða og fela ekki í sér skuldbindingu um sameiginlegt verðlag, falli ekki undir samkeppnisreglurnar nema framkvæmdastjórn sambandsins telji að með þeim sé samkeppni útilokuð eða markmiðum landbúnaðarstefnunnar stefnt í hættu.

Þá má geta þess að í Noregi hefur bændum og samvinnufélögum framleiðenda verið heimilað að hafa samráð sín á milli um verð og aðra skilmála við sölu á landbúnaðarafurðum. Samkvæmt nýjum samkeppnislögum þar í landi er ríkisstjórninni veitt heimild til að undanskilja ákveðnar atvinnugreinar gildissviði samkeppnislaga og er gert ráð fyrir að landbúnaður verði ein þeirra atvinnugreina.

Þótt staðan í yfirstandandi samningaviðræðum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sé óljós, eins og nánar er gerð grein fyrir í kafla III hér að framan`` --- segir í þessari skýrslu --- ,,bendir margt til þess að niðurstaða þeirra viðræðna leiði til aukins innflutnings á þeim landbúnaðarvörum, sem framleiddar eru hér innan lands á samkeppnisfæru verði, vegna þess að dregið verði úr ríkisstyrkjum til landbúnaðar, einkum framleiðslutengdum styrkjum, samfara minni tollavernd. Vegna þessa er líklegt að samkeppni mun harðna í viðskiptum með þessar vörur hér á landi.

Í samræmi við það, sem að framan greinir, getur verið óhjákvæmilegt að víkja frá 10. gr. samkeppnislaga, sem leggur bann við samráði og samstilltum aðgerðum af hálfu fyrirtækja, m.a. til að hafa áhrif á verð og viðskiptakjör og stýra framleiðslu, til þess að á þeim markmiðum, sem stefnt er að með búvörulögum, sbr. einkum a-, b- og d-liði 1. gr. þeirra. Fleira getur að sjálfsögðu réttlætt það að undanþiggja framleiðslu og viðskipti með landbúnaðarafurðir umræddum ákvæðum samkeppnislaga svo sem byggða-, hollustu- og heilbrigðissjónarmið.

Þegar skoðað er, með tilliti til samkeppni, hvernig staðið er að framleiðslu og viðskiptum með þær landbúnaðarafurðir, sem framleiddar eru hér á landi, má segja að myndin sé alls ekki einsleit. Í fyrsta lagi blasir það við að svo til óheft samkeppni ríkir að því er varðar verð og viðskiptakjör á kjöti, grænmeti og öðrum landbúnaðarvörum, að mjólk og mjólkurafurðum undanskildum, en heildsöluverð á síðastgreindu vörunum er enn ákveðið af hálfu hins opinbera. Í annan stað hefur tekist, m.a. vegna samstöðu afurðastöðva í mjólkuriðnaði að stýra og skipuleggja framleiðsluna á því sviði með tilliti til neyslu innan lands, meðan það hefur ekki tekist nema að takmörkuðu leyti á öðrum sviðum.

Af þessum sökum er ástæða til þess að greina á eftir á milli mjólkur og mjólkurafurða annars vegar og annarra landbúnaðarafurða hins vegar.``

Þeir fjalla síðan um mjólk og mjólkurafurðir. Um það segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. búvörulaga ákveður verðlagsnefnd við upphaf hvers verðlagsárs lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda og er hverri afurðastöð heimilt að greiða framleiðendum hærra verð en lágmarksverð. Þetta lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda, sem ákvarðað er af nefnd skipaðri fulltrúum framleiðenda og neytenda, virðist fyrst og fremst þjóna þeim tilgangi að vera haft til hliðsjónar við ákvörðun heildsöluverðs samkvæmt 1. mgr. 13. gr. búvörulaga. Vegna þess að mikilvægt er að umrætt lágmarksverð endurspegli raunverulegan kostnað við framleiðslu mjólkur, sem lögð er inn hjá mjólkurbúum eins og reyndar virðist gert ráð fyrir í 8. gr., sbr. 11. gr. búvörulaga, er óeðlilegt að slík nefnd ákvarði lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda, heldur væri rökréttara að fá Hagþjónustu landbúnaðarins það hlutverk, sbr. lög nr. 73/1989, ef til vill í samstarfi við Hagstofu Íslands, sbr. áðurnefnda 11. gr. búvörulaga. Að sjálfsögðu kæmi einnig til álita að hætta að ákveða lágmarksverð fyrir mjólk til framleiðenda af opinberri hálfu og láta bændum og afurðastöðvum eftir að semja um það sín á milli, án afskipta hins opinbera.

[11:15]

Á grundvelli almennrar heimildar í 1. mgr. 13. gr. búvörulaga ákveður verðlagsnefnd heildsöluverð á mjólk og nokkrum öðrum tegundum mjólkurafurða. Skipta má mjólk og mjólkurafurðum í tvennt, eftir því hvort um er að ræða afurðir sem seldar eru ferskar og þola illa geymslu, eða hvort um er að ræða annars konar afurðir. Hætt er við því að heildsölu- og smásöluverð á ferskum mjólkurafurðum, þ.e. mjólk, rjóma, undanrennu og jafnvel skyri mundi hækka ef heildsöluverð yrði gefið frjálst. Ástæðan er sú að samkeppni á markaði innan lands er ekki eins virk þegar þessar vörur eiga í hlut, öfugt við aðrar mjólkurafurðir, svo sem smjör, osta, jógúrt og mjólkur- og undanrennuduft. Þótt mjólk keppi vissulega við aðrar drykkjarvörur á markaði veita framleiðslustyrkir og skattlagning henni forskot, auk þess sem hollustusjónarmið valda því að neytendur kaupa síður aðra drykki í stað mjólkur. Innlent smjör og ostur eiga ekki aðeins í samkeppni við aðrar náskyldar vörur, svo sem smjörlíki, ostlíki sem og annað viðbit og álegg, heldur má sem fyrr segir búast við að innflutningur á ostum og jafnvel smjöri á samkeppnisfæru verði muni aukast í náinni framtíð vegna skuldbindinga íslenska ríkisins gagnvart öðrum aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þá ríkir nú þegar hörð samkeppni um sölu á mjólkur- og undanrennudufti til iðnfyrirtækja hér á landi milli innlends mjólkuriðnaðar og erlendra framleiðenda.

Með vísan til þess sem segir hér að framan mæla rök með því að haldið verði áfram að ákveða heildsöluverð á mjólk og öðrum ferskum mjólkurafurðum af hálfu hins opinbera, ekki síst í því skyni að halda verði á þessum vörum niðri í smásölu, neytendum til hagsbóta. Með því móti yrði einnig tryggt að þeir aðilar sem stunda smásöluverslun ættu kost á að kaupa þessar mikilvægu neysluvörur á sambærilegu verði og þar með yrði komið í veg fyrir að stórar verslanakeðjur gætu keypt umræddar vörur á mun hagstæðara verði en keppinautarnir í krafti stærðar sinnar.``

Þetta er mjög ítarleg og mikil skýrsla sem þeir Eiríkur Tómasson prófessor og Árni Vilhjálmsson lögmaður hafa skilað mér í hendur og ég hef rætt í ríkisstjórninni og þingmenn hafa hér undir höndum. Niðurstaðan er því sú að mjólkuriðnaðurinn megi af hálfu ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna starfa áfram undir því skipulagi sem hann hefur starfað og það sé neytendum mikilvægt og ekki síður bændum til þess að skipta með sér verkum. Verðmiðlun hefur ekki verið stór þáttur. Þó munu það vera um 10% af 10 milljarða veltu sem eru notuð til verðmiðlunar til að hinar dýru vörur séu framleiddar og menn séu sammála um það innan iðnaðarins og geti haft um það samstarf.

Hæstv. forseti. Frv. það sem finna má á þskj. 1665 er samið á grundvelli þessarar álitsgerðar Eiríks Tómassonar og Árna Vilhjálmssonar. Það varð niðurstaða álitsgjafanna að nauðsynlegt væri að lögfesta vilja löggjafans til þess að undanskilja ákveðna þætti landbúnaðarins undan gildissviði samkeppnislaga með skýrum lagatexta sem hér er lagt til í þessu frv. Hvað varðar ofangreint frv. vil ég að öðru leyti vísa til ítarlegrar greinargerðar er fylgir frv.

Hæstv. forseti. Með breytingu á búvörulögum sem lögð er til á þskj. 1677 er gert ráð fyrir að lögfestar verði nauðsynlegar breytingar á búvörulögum til að uppfylla skuldbindingu ríkisstjórnar Íslands vegna ákvæða í samningi frá 10. maí 2004 um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu milli landbrh. og fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands.

Forsaga þess að ritað var undir nýjan mjólkursamning þann 10. maí til ársins 2012 sem kallaði á þá lagabreytingu sem hér er mælt fyrir er í stuttu máli þessi. Samningur um stafsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var saminn með hliðsjón af ítarlegri og vandaðri skýrslu nefndar um stefnumótun í mjólkurframleiðslu þann 23. febrúar 2004, hinnar svokölluðu mjólkurnefndar. Nefndin sem skipuð var fulltrúum aðila vinnumarkaðarins auk fulltrúa ríkisvaldsins, Bændasamtaka Íslands og Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði kannaði framkvæmd eldri samnings og stöðu mjólkurframleiðslunnar. Nefndin lagði til að við gerð nýs samnings yrðu eftirfarandi markmið höfð að leiðarljósi:

1. Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði.

2. Að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda.

3. Að viðhaldið verði þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.

4. Að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni.

5. Að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu með eðlilegum hætti.

6. Að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.

Hæstv. forseti. Í framhaldi af starfi mjólkurnefndar var hafist handa við gerð nýs samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu í samræmi við 30. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993. Samningaviðræður ríkisins og Bændasamtaka Íslands hófust þann 1. apríl sl. og lauk eins og áður sagði með undirritun nýs mjólkursamnings þann 10. maí.

Í stuttu máli sagt gerir samningurinn ráð fyrir óbreyttri framleiðslustýringu við mjólkurframleiðslu en ákvörðun heildargreiðslumarks mjólkur byggir á neyslu innlendra mjólkurvara undanfarna tólf mánuði. Þá er í samningnum óbreytt ákvæði um skiptingu heildargreiðslumarks mjólkur niður á lögbýli. Í samningnum er þó gert ráð fyrir nokkrum breytingum á stuðningsfyrirkomulagi ríkisins.

Helstu breytingarnar eru þær að stuðningur ríkisins verður ekki lengur ákveðið hlutfall af verði mjólkur eins og verið hefur, heldur hefur verið samið um fastar heildarfjárhæðir beingreiðslna. Þá hefur einnig verið samið um að 20% af heildarstuðningi eða nærri 800 millj. kr. á lokaári samningsins verði nú beint í annan farveg stuðnings eða í svokallaðar ,,grænar greiðslur`` annars vegar og ,,bláar greiðslur`` hins vegar. Grænar greiðslur eru ekki framleiðslutengdar en bláar greiðslur eru skilgreindar sem framleiðslutakmarkandi greiðslur. Þetta er m.a. gert í þeim tilgangi að mæta hugsanlegum breytingum á skuldbindingum Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Þau verkefni sem um er að ræða eru greiðslur vegna kynbóta- og þróunarstarfsemi, gripagreiðslur sem er ákveðinn stuðningur til þeirra sem eiga kýr og greiðslur sem eftir er að ganga frá samkomulagi um en gert er ráð fyrir að fari m.a. til eflingar jarðrækt.

Í 8. gr. samningsins er m.a. að finna fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kann að leiða af niðurstöðu samningaviðræðna á vettvangi WTO. Þegar yfirstandandi samningaviðræðum innan WTO lýkur skal samningurinn endurskoðaður þannig að stuðningsfyrirkomulag ríkisvaldsins við íslenskan landbúnað rúmist hverju sinni innan þeirra heimilda sem skuldbindingar Íslands á vettvangi stofnunarinnar kveða á um.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið í stuttu máli helstu ákvæði í nýjum samningi ríkisins við Bændasamtök Íslands þar sem þær lagabreytingar sem frv. á þskj. 1677 gerir ráð fyrir er einungis ætlað að gera nauðsynlegar breytingar á núverandi búvörulögum til að hægt sé að uppfylla samningsskuldbindingar samkvæmt honum. Á fylgiskjölum með frumvörpunum er að finna kostnaðarumsagnir fjmrn. og læt ég nægja að vísa til þeirra. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerða er fylgja frumvörpunum.

Hæstv. forseti. Ég hef í stuttu máli rakið efni þessara lagafrumvarpa um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og gert grein fyrir því að annars vegar er um að ræða nauðsynlegar breytingar til að taka af ríkjandi réttaróvissu og hins vegar er um að ræða nauðsynlegar breytingar til að uppfylla samningsskuldbindingar ríkisins.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvörpunum verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.