Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:33:32 (8356)

2004-05-17 11:33:32# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:33]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvort ég hafi orðið fyrir vonbrigðum með það að halli er á samningnum um 1% á tímabilinu eða að dregið er úr beingreiðslum sem nemur 234 milljónum líklega, ef ég man rétt, þá verð ég að segja fyrir mig að mér finnst samningurinn góður og mikilvægur. Hann inniheldur svipaðar peningaupphæðir og var, um 4 milljarða í beingreiðslur á ári sem skilar sér á borð neytenda í ódýrari vöru og tryggir stöðu bænda.

Nei, ég hef ekki orðið fyrir vonbrigðum með það. Ég held að bændurnir hafi gert sér grein fyrir því að þeir hafa sjálfir verið að ganga í gegnum mikla hagræðingu í gegnum síðasta samning. Búin hafa stækkað verulega og eru sterkari og betri rekstrareiningar fyrir bragðið. Ég held því að þeir hafi auðvitað reiknað með því að einhver halli yrði á stuðningi ríkisins. Þetta er lágmarkshalli. Þeir áttu auðvitað von á því að einhver halli yrði og við gerum okkur grein fyrir því að á þessu tímabili hefur hagræðing leitt það af sér að kúabúum, við skulum segja á 13 árum frá því að farið var að semja um mjólkurframleiðsluna, hefur fækkað um 600--700. Þau eru eftir um 900. Hér er ríkisvaldið að leggja til mjög langan samning til þróunar, til 2012. En samningurinn er góður bæði hvað fjármagn varðar og mörg önnur ákvæði hans.

Ég trúi ekki að nautakjötsframleiðslan leggist af. Það er fleira búskapur í sveitum en að mjólka kýr. Það er líka að rækta jörð. Það er líka að þjóna markaðnum og framleiða þær vörur sem neytendur biðja um. Sem betur fer er meiri ró yfir nautakjötsmarkaðnum en var og hækkandi verð þar til bænda á ný þannig að ég trúi því að sú atvinnugrein muni styrkjast og enn frekar þegar þessi samningur tekur gildi.