Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 11:40:30 (8359)

2004-05-17 11:40:30# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[11:40]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst vera mjög sterkar andstæður á sviði mjólkurframleiðslu. Þær eru þessar: Nú hafa bændur hagrætt mjög vel. Þeir eru að framleiða mjólk ódýrar en áður. Þessi hagræðing hefur hins vegar ekki komið fram hjá afurðastöðvunum. Það kerfi sem við erum að ríghalda í þjónar fyrst og fremst þessum stóru og kostnaðarfreku afurðastöðvum og það eru þær sem munu sannarlega lenda í erfiðleikum ef innflutningurinn eykst. Ef við til dæmis gengjum í Evrópusambandið þá mundu þær lenda í langmestum erfiðleikum.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að mikil hagræðing hefur verið í iðnaðinum. Þegar maður horfir til þessara talna sem hæstv. ráðherra talaði um, að 900 bú væru eftir og að 600--700 hefðu horfið á umliðnum árum, þá er það alveg gríðarleg uppstokkun. Hún felur í sér mikið svigrúm til hagræðis. Ég tel að það hagræði sem verður til við þetta eigi að skiptast í þrennt. Í fyrsta lagi á ríkið að njóta þess að hafa komið þar að máli með því að leggja minna til og það ætti í rauninni að fá að leggja minna til en það gerir samkvæmt þessum samningi.

Í annan stað eiga neytendur að njóta þess hagræðis í lægra verði. En síðan megum við ekki gleyma því að þetta hagræði hefur orðið vegna þess að mjög margir hafa verið að kaupa til sín kvóta og auka framleiðni sína og skuldsett sig og við verðum líka að gera ráð fyrir því að framleiðendurnir með þessum hætti njóti hagræðisins til þess að geta borgað niður þessa fjárfestingu. Við þurfum því að skoða helst í meðferð þessa máls hvernig hagræðingin skiptist á þessa þrjá liði og hvernig hún eigi að gera það, hvað við teljum æskilegt.

Mér finnst að neytendur eigi að njóta meira af hagræðinu en hefur komið fram. Ég vil líka segja að ég tel að aukið frelsi í þessum viðskiptum muni færa öllum aukna hagræðingu.