Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:10:04 (8364)

2004-05-17 12:10:04# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Skuldsetningin sem hv. þm. gerir að umræðuefni er forsenda þessarar hagræðingar. Ég geri mér grein fyrir því og þess vegna sagði ég í ræðu minni fyrr í dag að við þyrftum að taka tillit til þess þegar við skiptum þeim ávinningi sem af hagræðingunni hlýst að einmitt þeir sem hafa verið að skuldsetja sig, ungt fólk sem er að taka við búum, sem er að stækka bú, fái nægan part af þessari hagræðingu til þess að geta staðið undir slíkum skuldum.

Nú er ég þeirrar skoðunar að það séu einmitt þessi skuldsettu bú sem séu að brjótast til þess að verða hvað framleiðnust. Ég held að þetta sé partur af þróuninni og ég er þess vegna ekki hræddur við hana. Ég tek það hins vegar fram eins og ég hef gert í dag að það eigi að haga kerfinu þannig að þessi skuldsettu bú geti risið undir því að greiða niður sínar skuldir. En ég tek hv. þm. vara við því að fara svona einhliða fram í sínum málflutningi, að það séu fyrst og fremst framleiðendurnir sem þurfi að hugsa um. Um þrjá aðila þarf að hugsa. Það eru framleiðendurnir. Það er ríkissjóður. Og það erum við neytendur. Engum blöðum er um það að fletta, eins og maður jafnvel sér á samkeppninni í þessu lokaða kerfi, að þegar frelsið eykst innan þess þá eykst hagræðing og verðið lækkað. Það höfum við séð á síðasta áratug. Það kostar auðvitað það að búum hefur fækkað töluvert. Ég er þeirrar skoðunar að kerfið eigi að vera þannig að þeir sem eru hvað síst framleiðnir eigi að grisjast út. Við eigum að hjálpa hinum til þess að brjótast fram og borga niður sínar skuldir og halda áfram að fjárfesta í meiri framleiðni.