Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:17:58 (8368)

2004-05-17 12:17:58# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, AKG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni með að þessi tvö frumvörp eru komin fram, jafnframt að minna á að þau koma fram bæði rúmri viku eftir áætluð þinglok. Sérstaklega ber að minna á að fyrra frumvarpið sem lýtur að réttaróvissu gagnvart samkeppnislögum er væntanlega til komið vegna þess að við erum á undanþágu sem rennur út núna í júlí þannig að það er sérstaklega mikilvægt að það frumvarp komi fram. Hins vegar rennur búvörusamningurinn núgildandi ekki út fyrr en eftir ár. Ég tel engu að síður ástæðu til að fagna því að þetta frumvarp er komið fram því þar með höfum við rúmlega ár til umfjöllunar um það og það er einstaklega mikilvægt og gott að hafa svo rúman tíma til að fjalla um jafnviðamikið mál. Við erum að fjalla um samning sem á að gilda til mjög langs tíma og sem felur í sér mjög mikið fjármagn, það er að segja um 4 milljarða á ári allan samningstímann.

Það er reyndar umhugsunarefni hve langur tími er tekinn í næsta samningstímabil því eins og komið hefur verið að hér í ræðum áður eru miklar hreyfingar í umhverfi landbúnaðarframleiðslu í heiminum og við vitum að við búum í umhverfi sem mun þurfa að breytast á næstu árum. Í frumvarpinu eru að vísu endurskoðunarákvæði þannig að hægt er að taka hann upp hvenær sem er á samningstímabilinu.

Um fyrra frumvarpið um aðlögun búvörulaganna að samkeppnislögum eða að skýra þau lög með tilliti til samkeppnislaga er það að segja að tillögunar byggja að nokkru leyti á skýrslu Árna Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns og Eiríks Tómassonar, prófessors í lögum, sem er viðamikil bók og gagnleg. Tekinn er inn hluti af þeim tillögum sem þeir leggja til. Ekki er þó tekin inn fyrri tillaga þeirra, það er að segja sá þátturinn sem lýtur að ferskum afurðum. Í riti þeirra segir, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ríkisstyrki í formi beingreiðslna til bænda er líklegt að mjólkurframleiðslan muni fyrirsjáanlega dragast saman hér á landi vegna harðnandi samkeppni, ekki síst erlendis frá, nema afurðastöðvum í mjólkuriðnaði verði heimilað að hafa með sér samráð um verð á þeim afurðum, þar sem ekki er fyrir hendi opinbert heildsöluverð. Að sama skapi er nauðsynlegt, til að halda uppi heildarframleiðslu mjólkur, að veita afurðastöðvum heimild til að semja sín á milli um verkaskiptingu og annars konar samstarf milli einstakra stöðva í því skyni að tryggja rekstrarhagkvæmni og halda þar með niðri kostnaði við framleiðsluna þegar á heildina er litið.

Að því tilskildu að næg samkeppni ríkti hér innan lands í viðskiptum með mjólkurafurðir, aðrar en ferskar afurðir, m.a. fyrir tilstilli innflutnings, kæmi samkvæmt framansögðu til greina að breyta 1. mgr. 13. gr. búvörulaga þannig að hún hljóðaði svo: ,,Verðlagsnefnd ákveður heildsöluverð eftirgreindra búvara,`` --- eftirgreindra er feitletrað því þar er breyting --- ,,að teknu tilliti til afurðaverðs til framleiðenda og rökstuddra upplýsinga um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara, nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 30. gr. laganna:`` --- Síðan kemur upptalning á þeim fersku afurðum sem þeir leggja til að verði tilteknar, það er að segja: --- ,,Mjólk, rjóma, undanrennu og skyri. Nefndin getur ákveðið að efna til sérstakra rannsókna í því skyni að fá betri upplýsingar um þau atriði er máli skipta fyrir ákvörðun heildsöluverðs á búvörum með hliðstæðum hætti og segir í 11. gr.````

Þetta er ekki tekið inn í breytingu á 13. gr. Hins vegar segir í frumvarpinu, með leyfi forseta, og það er síðari tillaga þeirra sem lýtur að breytingum og þar er það tekið inn:

,,Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skal slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.``

Þarna er ekki skilgreint hvaða tilteknu afurðir eiga í hlut eins og lagt er til í skýrslu þeirra Árna og Eiríks.

Mér finnst líka ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra að því hver eigi að hafa eftirlit með því að vel og rétt sé staðið að þessum málum þar sem búið er í rauninni að taka eftirlitshlutverk Samkeppnisstofnunar úr sambandi. Hver hefur til dæmis eftirlit með afurðastöðvunum? Ég var í umræðum við hæstv. ráðherra fyrir ekki alls löngu þar sem við ræddum meðal annars um afurðastöðvarnar. Þar minnti ég á að dæmi fyndust um að afurðastöðvarnar hefðu tekið fjármagn út úr rekstri sínum og sett í annan óskyldan atvinnurekstur eða óskylda hluti. Ráðherra upplýsti jafnvel hvaða fyrirtæki þar áttu í hlut. Þar var um að ræða heilan milljarð sem var tekinn úr rekstri afurðastöðva. Þetta kemur niður á verði til neytenda. Á þessu er hins vegar ekki tekið í lagafrumvarpinu sem við erum hér með til umræðu. En það gefst væntanlega tími til þess í sumar eða á næsta vetri, næsta þingi, að lagfæra það.

Ég er sammála því sem hér hefur komið fram í máli ýmissa þingmanna að það er afskaplega mikilvægt að samkeppni fái að eiga sér stað í þessu umhverfi neytendum og landsmönnum öllum til hagsbóta. Það hefur verið mikil samkeppni og hagræðing hjá bændum. Ef maður skoðar skýrslu um stöðumat og starfshætti í mjólkuriðnaði sem er gagnmerkt plagg og kom fram ekki alls fyrir löngu þá er auðséð að bændur hafa gengið mjög hart að sjálfum sér og eiginfjárhlutfall þeirra hefur hrapað á síðustu árum jafnframt því sem skuldirnar hafa gosið upp. Hins vegar eru mjólkurstöðvarnar ákaflega vel staddar. Ef ég man rétt þá segir í skýrslunni að slíkt eiginfjárhlutfall sem þar sést sjáist varla í öðrum greinum á Íslandi. Því hlýtur að þurfa að gera mikla kröfu til afurðastöðvanna á komandi árum um að þær taki á sig aukna hagræðingu og skili henni til neytenda. Það held ég að hljóti að verða krafa allra.

Í máli hv. 1. þm. Reykjavíkur norður, Össurar Skarphéðinssonar, kom fram að aðilar að þessu máli væru þrír, það er að segja framleiðendurnir eða bændur, neytendur og ríkissjóður. Ég er sammála honum í því að aðilarnir séu þrír. En ég vildi kannski skilgreina þá aðeins öðruvísi. Ég vil nefnilega skilgreina þá sem bændur, sem mjólkurstöðvarnar og sem almenning. Ég tel almenning eiga tvöfalda aðkomu að þessu máli, það er að segja bæði sem neytendur og sem skattgreiðendur, því það skiptir okkur máli sem skattgreiðendur að með þetta mikla fjármagn sem er verið að setja í þessa grein sé vel farið og að þeir skili sér aftur til okkar allra í formi lægra vöruverðs.

Ég legg á það áherslu að það er fagnaðarefni hversu góður tími muni gefast til umfjöllunar um þetta mál. Það er búið að leggja vissar línur sem bændur jafnt sem við hin sjáum og getum hagað okkar að einhverju leyti eftir. Í svona viðamiklu máli er gott og nauðsynlegt að fá rúman tíma eins og við höfum að þessu sinni. Það hefur annars verið vandi landbúnaðarráðuneytisins að koma afar seint fram með mál þannig að við lendum með þau í hálfgerðri kreppu undir lok þingsins. Mér þykir ágætt að fá eina undantekningu frá því.