Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 12:57:37 (8382)

2004-05-17 12:57:37# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[12:57]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson segir að markaðslögmálin séu algild, þau hafi sannað sig og þau eigi að gilda óheft í íslenskum landbúnaði sem annars staðar. Hv. þm. er ekki fyrstur til að halda fram sjónarmiðum af þessu tagi. Það gerði Adam Smith. Það gerði Hayek. Það gerði Friedman. Það gerði Hólmsteinn. En sem betur fer hafa félagshyggjumenn víðs vegar í heiminum og einnig á Íslandi risið upp gegn þessari óheftu markaðshyggjuhugsun. Ég held að víðtæk samstaða sé um það í íslensku samfélagi að hleypa óheftum markaðslögmálum ekki inn í matvælaframleiðslu okkar, að þar eigi að reisa skorður til að tryggja framleiðslu á góðum vörum en einnig til að horfa til byggðarinnar í landinu vegna þess að við látum ekkert greina okkur annars vegar í bændur og hins vegar neytendur. Við erum öll saman hluti af íslenskri þjóð og viljum sýna fulla ábyrgð sem slík.

Nú spyr ég hv. þm.: Þegar hann stillir upp tveimur valkostum um hvar eigi að skera niður gagnvart íslenskum bændum og íslenskum landbúnaði eða Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, eigum við þá virkilega ekki að horfa í aðrar áttir þegar kemur að því að sýna ráðdeild með fjármuni almennings? Þá horfi ég til utanríkisþjónustunnar, til stuðningsins við hernaðinn, 500 milljónanna sem fara í NATO-hítina. (Forseti hringir.) Er það ekki fyrir neðan virðingu okkar sem viljum kenna okkur við félagshyggju að stilla málunum upp á þennan hátt?