Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 13:03:31 (8385)

2004-05-17 13:03:31# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[13:03]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hv. þm. Ögmundur Jónasson verðum seint sammála um gildi markaðslögmála. Það er ástæðulaust fyrir mig að munnhöggvast eitthvað við hann um þau. Að mínu viti hafa þessi lögmál sannað sig. En það er rangt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ég sé að tala fyrir óheftum markaðslögmálum sem fái að leika óheft um öll svið mannlífsins eða samfélagsins, eins og hann orðaði það. Ég talaði ekki um það. Ég talaði um að markaðslögmálin og samkeppnin ættu að fá að njóta sín í landbúnaðarkerfinu. (Gripið fram í.) Lögmálin eru algild alveg eins og náttúrulögmálin. Þau eru algild. Síðan er það pólitísk ákvörðun hvort við viljum láta hinn óhefta markað til dæmis leika um heilbrigðiskerfið. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Það er bara mín pólitíska afstaða að markaðslögmálin eigi að vera að einhverju leyti heft á ákveðnum sviðum samfélags okkar og þar á meðal í hluta af (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfinu. En þau eiga að fá að njóta sín í landbúnaðarkerfinu, í þeirri atvinnugrein.