Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 15:59:41 (8399)

2004-05-17 15:59:41# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum margrætt inngrip bankanna í kjötmarkaðinn sem var mjög óheppilegt og raskaði honum. Það er stórmál út af fyrir sig hvernig það hefur þróast og hvernig menn fóru offari í ákveðnum greinum eins og svínaræktinni sem olli miklu tjóni fyrir einstaklinga og, ég vil segja, fyrir neytendur með gjaldþrotum og svo framvegis. Glæsilegur búskapur er í miklum þrengingum eftir þær hamfarir allar sem geisuðu og óeðlilegt inngrip bankanna fannst mér vera mjög óheppilegt. En kjötmálin eru ekki hér til umræðu í dag og eru ekki tekin inn í þetta mál. Það snýst um mjólkina.

Hv. þm. minntist á kvótamarkað. Bændurnir hafa látið fylgja þessum samningi viljayfirlýsingu af sinni hálfu til að auka gagnsæi í viðskiptum, segja þeir, með greiðslumark og til að auðvelda aðgang að upplýsingum, lýsa Bændasamtök Íslands því yfir að þau munu taka upp og starfrækja miðlun með greiðslumark til mjólkurframleiðslu, þar sem kaupendur og seljendur greiðslumarks hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum er varða viðskipti með greiðslumark. Einnig skulu þeir sem vilja eiga viðskipti með greiðslumark geta skráð þar inn upplýsingar um það magn sem þeir óska eftir að kaupa eða selja. Ég hygg að bændurnir séu þarna að hugleiða það fyrst og fremst að þessi viðskipti fari óáreitt fyrst og fremst fram á milli bænda, að bóndi selji bónda, að það sé ekki banki sem ákvarði verðið eða afurðastöð eða mjólkurbú. Þetta er sú hugsun sem þeir setja fram og ég vona auðvitað að þeir útfæri þessa hugsun. Þarna er kannski ein leið til að sjá hlutlausan aðila halda utan um sölu á greiðslumarki í mjólk. Ég álit þetta mjög mikilvæga yfirlýsingu og ég trúi að þeir muni vinna úr henni og að hún muni verða til farsældar.