Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 17. maí 2004, kl. 17:18:41 (8421)

2004-05-17 17:18:41# 130. lþ. 118.2 fundur 997. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (verðsamráð í mjólkuriðnaði) frv. 85/2004, 1000. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (samningur um mjólkurframleiðslu 2005--2012) frv. 61/2004, EOK
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu nýr mjólkursamningur og í stórum dráttum er ástæða til að fagna honum. Það er ástæða til að fara yfir það að fyrir liggja skýlausar niðurstöður hagrannsókna um að með síðasta mjólkursamningi tókst að ná verulegum árangri í landbúnaði. Á síðustu tíu árum hefur sú gleðilega þróun verið á Íslandi að meðalhækkun eða vöxtur almenns kaupmáttar hefur verið um 25%. Bændur í mjólkuriðnaði hafa ekki náð þessum kaupmáttarauka. Þó liggja fyrir skýrslur um að líklega hafi kaupmáttur þeirra vaxið á bilinu 13--15%. Á sama tíma og kaupmáttur almennings hefur aukist um 25% liggur alveg skýrt fyrir að kaupmáttur almennings í mjólkurafurðum hefur aukist mun meira eða um 35% þannig. Því er mjög rangt þegar menn segja að neytendur hafi ekki fengið að njóta árangurs í mjólkuriðnaðinum. Það er langt í frá. Það er líka ástæða til að fagna því sem þessar tölur sýna svo glögglega að sannarlega hefur verið um að ræða verulega framleiðniaukningu í greininni.

Afurðaverð á Íslandi í mjólkurvörum hefur farið mjög lækkandi og er að verða mjög sambærilegt við það sem er á öðrum Norðurlöndum. Þessu ber öllu að fagna. Ég er ekki í neinum vafa um það, virðulegi forseti, að það ber fyrst og fremst það að þakka að við höfum verið með mjög ákveðna pólitík í gangi varðandi stuðninginn við mjólkina. Stuðningurinn hefur verið alveg hreinn og skýr. Peningarnir hafa farið til beingreiðsluhafanna og framsal hefur verið frjálst. Menn hafa getað hagrætt. Menn hafa stækkað búin mjög mikið og tölurnar sýna á óyggjandi hátt að stór bú eru nauðsynleg til þess að ná árangri. Því er það, virðulegi forseti, að um leið og ég fagna því í sjálfu sér að tekist hefur að ná nýjum mjólkursamningi þá harma ég líka að menn skyldu ekki halda sér alveg við það strik sem við höfðum áður, að vera með þessar greiðslur alveg beint, eins og það var, til framleiðsluhafa. Í athugasemdum við þetta frumvarp má lesa eftirfarandi:

,,Þá hefur einnig verið samið um að 20% af heildarstuðningi eða nærri 800 millj. kr. á lokaári samningsins verði nú beint í annan farveg stuðnings eða í svokallaðar ,,grænar greiðslur`` annars vegar og ,,bláar greiðslur`` hins vegar. Grænar greiðslur eru ekki framleiðslutengdar en bláar greiðslur eru skilgreindar sem framleiðslutakmarkandi greiðslur. Þetta er m.a. gert í þeim tilgangi að mæta hugsanlegum breytingum á skuldbindingum Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).``

Svo mörg eru þau orð. Ég harma það að menn skuli alltaf vera fullir af ótta. Það er alveg ástæðulaust að öllu leyti. Okkur stafar ekki nein hætta af WTO. Það er langt í frá. Menn eiga ekki alltaf að vera svona lafhræddir við erlenda samninga. (Gripið fram í: Lafhræddir? Hvaða bull er þetta?) Þetta er ekkert bull, virðulegur forseti. Ég er að segja þetta alveg rétt. Við skulum minnast þess að Ísland liggur á 66. breiddargráðu norður. Við hvað hafa allir samningar sem við vitum um í Evrópu verið miðaðir, í Svíþjóð, Finnlandi, Noregi? Allir miða við 62. gráðu og auðvitað eigum við Íslendingar fullan rétt á því að verja stöðu okkar hér svo langt í norðrinu. Ef menn telja hættu stafa af samningum við útlönd þá eiga menn að kosta hugann að herða en ekki að vera með svona undansláttarákvæði fyrir fram til að mæta hugsanlegum breytingum. Við eigum að þora og hafa fullan kjark til þess að styðja íslenska mjólkurframleiðslu vegna þess að við vitum að við höfum verið á réttri braut. Við höfum verið á réttri braut og við höfum verið að ná verulegum árangri. Það á ekki, virðulegi forseti, að vera neitt að breyta því sem vel hefur reynst. Þetta hefur gengið mjög vel á undanförnum árum og þess vegna eigum við að halda því áfram og vera ekki með þennan undanslátt eða hræðslu, sérstaklega með tilliti til þess að gert er ráð fyrir að hægt sé að endurskoða þetta. Ef einhver vá ógnar okkur þá höfum við þetta hvort sem er í hendi okkar og það eigum við að hafa í huga. Þetta er alveg óþarft. Ég tel að það liggi alveg skýrt fyrir að við höfum náð miklu betri árangri í stuðningi okkar við mjólkurframleiðsluna á undanförnum árum en í stuðningi við sauðfjárræktina. En í sauðfjárræktinni er það þannig að ekki nema 60% af stuðningnum fer til beingreiðsluhafanna, 40% fer í það sem ég kalla út um grænar grundir. Mjólkurframleiðslan og bændur í mjólkurframleiðslunni hafa náð miklu betri og meiri árangri á undanförnum árum en, því miður, í sauðfjárræktinni þar sem tekjur bænda hafa verið að minnka, því miður, verulega. Ég ætla að fullyrða það, virðulegi forseti, að þetta tal um grænar greiðslur og bláar greiðslur er svona Brussel-bull því að þar á bæ eru grænar og bláar greiðslur aðferðir til að drepa landbúnað, ekkert öðruvísi. Við eigum að standa á því að styrkja landbúnaðinn og styrkja framleiðsluna, þora að styrkja framleiðsluna og mæta gagnrýni erlendis frá með þeim eðlilegu rökum að við erum sú þjóð sem lifum lengst í norðri og eigum fullan rétt á því að styðja okkar landbúnað. Allar þjóðir sem hafa náð árangri og eru að búa til farsæl samfélög styðja að sjálfsögðu sinn landbúnað. Og við sem erum ein ríkasta þjóð heimsins, og erum að verða kannski sú ríkasta eins og það gengur vel hjá okkur í efnahagslífinu, eigum að styðja landbúnaðinn og vera stolt af því vegna þess að við erum að ná árangri með því og við eigum ekki að hlusta á menn sem koma og segja: ,,Heyrðu, þetta eru gærdagssamningar. Þið eigið að sjá morgundaginn.`` Við erum einmitt að sjá morgundaginn af því að við erum í stórum dráttum að framkvæma það sem hefur reynst vel, hefur komið Íslandi vel. Íslenskur mjólkuriðnaður hefur á undanförnum árum sýnt að hann er mjög framsækinn iðnaður. Hann mun að sjálfsögðu fá aukna erlenda samkeppni erlendis frá. Við vitum það. Og hann verður að vera í stakk búinn til þess. Auðvitað eru hættur og auðvitað er það alltaf þannig að þegar einhver mónópólsstaða kemur upp, eins og mun að sjálfsögðu verða í mjólkuriðnaðinum, þá stafar hættan kannski minna úti í frá. Hættan er meiri innan frá vegna þess að það er alltaf þannig í einokuninni að mönnum hættir til að fjárfesta of mikið. Offjárfestingin er alltaf hættan þegar menn hafa ekki næga samkeppni. En ég reikna með því, virðulegi forseti, að samkeppni verði heilmikil og verði vaxandi og að það verði mjög mikið aðhald að þessari grein. Ég treysti mjólkuriðnaðinum til að standast það. Svo frábærlega sem þeir hafa staðið að sínum málum á undanförnum árum þá hef ég fulla ástæðu til að ætla að svo verði áfram. Ég er því ánægður með þetta að því leyti að hér er verið að halda áfram í megindráttum þeirri stefnu sem svo vel hefur reynst. Því miður eru menn í lok samningsins að fara út í að dreifa þessu og gera þetta ruglingslegt og þvælulegt eins og þeir vilja endilega hafa þetta í Brussel þar sem enginn maður getur skilið upp né niður í því hvernig styrkirnir eru. Þetta er byrjunin á því og þess vegna tel ég fulla ástæðu til þess að vara við þessu.